Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 19:16:40 (2181)

1996-12-13 19:16:40# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[19:16]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það að auðvitað á ríkisvaldið að sýna gott fordæmi um verndun menningarminja. En ég vildi vegna ræðu hv. 4. þm. Austurl. segja að mér þótti heldur neikvætt hljóð í hv. þm. varðandi hugmyndir um uppbyggingu stjóriðju sem uppi eru um þessar mundir. Og það vakti nokkra undrun mína þegar hann ræddi um stöðugleikann og það að ekki væru til tæki lengur, þ.e. menn væru orðnir verkfæralausir þegar þyrfti að grípa til aðgerða gagnvart efnahagslífinu.

Það á ekki að vera neitt áhyggjuefni út af fyrir sig og er fyrst og fremst fagnaðarefni ef framkvæmdir hefjast hér við orkufrekan iðnað svo framarlega sem alls hófs sé gætt í þeim efnum gagnvart náttúrunni. Það hlýtur að vera fagnaðarefni. En hann hefur vafalaust verið m.a. að líta til þess að ég hef bent á það að undanförnu að við gætum okkar á þann veg að þegar kemur að stórauknum framkvæmdum þá ætlum við okkur ekki að gera alla hluti í einu. Þá kemur að því að stýra framkvæmdastiginu eins skynsamlega og nokkur kostur er. Ég tel að verkfærin í þeim efnum séu ekki einungis við fjárlagagerðina, ekki einungis í höndum ríkisvaldsins, heldur séu þau hjá atvinnulífinu og hjá sveitarfélögunum. Ég hef verið að vekja athygli á því að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu mega ekki skerast úr leik þegar við teljum að skynsamlega þurfi að raða verkum í þjóðfélaginu þannig að sem best nýtist okkur til uppbyggingar atvinnulífsins í landinu.