Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 21:57:10 (2186)

1996-12-13 21:57:10# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[21:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er gaman að vita af því að hv. þm. þekkir þessa hefð með leiðarþingin og ég mun láta fylgjast með því, gera ráðstafanir til að láta fylgjast með því hvaða viðtökur hv. þm. fær þegar hann fer á leiðarþing --- ég segi nú ekki að ég vilji koma með hv. þm., það gæti nú orðið svona og svona.

Það getur vel verið að hv. þm. hafi fundist ég svartsýnn eða staldra mikið við það sem ég tel að fari aflaga hér í þessu frv. Ég dreg ekkert úr því og það er að breyttu breytanda frekar mitt hlutverk. Ætli það sé ekki þannig að stjórnarsinnarnir séu heldur að gylla hlutina og mæra sjálfa sig og aðra í leiðinni en við séum þá frekar að veita aðhald og gagnrýna. Þannig liggja hlutirnir. Enda er af ósköp fáu að taka til að hrósa hér mikið. Það er bara því miður þannig. Og svo segir hv. þm. að ég hafi einkum eytt púðri mínu í hluti sem verið sé að laga eins og framhaldsskólana á landsbyggðinni. Ég ræddi einmitt lagfæringuna, lækninguna. Og hver er hún? Hún er sú að skólarnir fá samkvæmt merktum fjárveitingum niðurskurðinn óbættan. En svo er settur upp einhver pottur, eitthvert bix, sem hæstv. menntmrh. hefur í annarri hendinni og hamarinn í hinni til þess að fara svo og ræða við þessa menn og koma þeim á sinn stað. Ef menn verða góðir þá fá þeir kannski dúsu. (Fjmrh.: Hamar í annarri og sigð í hinni.) Nei, hann er með seðla í annarri hendinni og sveðju í hinni. (Gripið fram í.) Ja, ef hæstv. menntmrh. kynni á slík verkfæri þá væri nú gaman að sjá til hans. Nei, staðreyndin er sú að þetta er enginn frágangur á málinu. Ég er að hugsa um framkomuna við þessa aðila sem eru settir í þá stöðu að vera á hnjánum frammi fyrir hæstv. menntmrh. Hvaða samningsstöðu hafa þeir þegar hæstv. menntmrh. kemur með dúsurnar sínar og segir við þá: Ef þið verðið góðir, samþykkið það sem ég legg að þessu og hinu leytinu, þá fáið þið kannski eitthvað úr pottinum? Þetta finnst mér ekki merkileg lækning eða lagfæring, hv. þm. (Forseti hringir.)

Hvað varðar Háskólann á Akureyri þá mundi ég gjarnan vilja ræða hann í seinna andsvari mínu ef hv. þm. vildi vera svo góður að svara mér millitíðinni.