Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 22:57:25 (2193)

1996-12-13 22:57:25# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[22:57]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var dapurlegt. Það að hv. þm. Jón Kristjánsson skuli koma hér og svara með gamalkunnu skítkasti spurningu sem ég lagði einlæglega fram: Þið voruð ekkert skárri. Ég var einfaldlega að spyrja um það, virðulegi forseti, hvar bjargráðin væru hjá Framsfl. gagnvart skuldugu fólki í landinu. Þá þýðir ekkert að halda ræðu um það að hagvöxturinn sé að aukast, atvinnumálin séu að skána, það sé bættur hagur fyrirtækjanna. Ég er að spyrja um hluti eins og af hverju eru ekki hækkaðar vaxtabætur. Af hverju er ekki lækkaður þessi beini útlagði kostnaður fólks af heilbrigðisþjónustu? Af hverju eru ekki hækkaðar tryggingabætur? Af hverju eru ekki hækkaðar barnabætur? Ég er að tala um sértæk úrræði gagnvart því fólki sem félagsmálastjórinn í Kópavogi var að tala um og ég las rétt áðan. Ég er bara að tala um atriði af þeim toga. Það dugir ekki nokkurn skapaðan hlut og skilur ekki nokkur maður að þegar Framsfl. talar um það að lækka skuldir heimilanna, þá sé bara nóg að tala um að verðbólgan sé enn þá lág og það sé hagvöxtur í landinu. En hann fer ekki í vasa þessa fólks. Og það er okkar verkefni að stýra efnahagsþróun og tekjuskiptingunni í landinu þannig að vit sé í. Ég trúði því satt að segja að Framsfl. væri full alvara þegar þeir báru þetta á borð fyrir fólk síðustu kosningum og raunar vil ég trúa því enn. En það bólar býsna lítið á verkum í þessu sambandi.

Ég er alveg sammála hv. þm. um það að við alþýðuflokksmenn gengum allt of langt í þessa veruna og misstum tökin á þróun jaðarskattanna. Þetta var tilraun af okkar hálfu á miklum erfiðleikatímum og umdeilt að sönnu. En nú eigum við að taka höndum saman um það þegar allir eru sammála og til þess er ráðrúm að vinda ofan af þessu í grænum hvelli. En umfram allt: Hvar eru sértæku ráðin fyrir fólkið, (Forseti hringir.) fyrir fátæka fólkið, virðulegi forseti? Fyrir fátæka fólkið í landinu sem ég veit til að mynda að virðulegur forseti hefur haft miklar áhyggur af?