Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 22:59:55 (2194)

1996-12-13 22:59:55# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[22:59]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. 9. þm. Reykn. gera lítið úr þeim markmiðum að halda niðri verðbólgu. Hann telur það ekki vera úrræði fyrir láglaunafólkið í landinu, heldur er hans úrræði það að ríkissjóður skaffi eins og hann orðaði það í fyrri ræðu sinni. Það hefur nefnilega verið dálítið um það á undanförnum árum að ríkissjóður hefur skaffað ekki láglaunafólkinu í landinu heldur öðrum. Ég er sammála hv. 9. þm. Reykn. að það er enginn dans á rósum hjá því. Hins vegar er nauðsynlegt að hafa þau grundvallaratriði í huga að það verður að skapa skilyrði fyrir láglaunafólkið í landinu með almennri góðri efnahagsstjórn sem getur bætt lífskjörin. Það er eina ráðið þegar til lengdar lætur og eina ráðið að reka ríkissjóð með afgangi til þess að losa fé, til þess að lækka skuldir, til þess að lækka vaxtabyrði ríkissjóðs, til þess að losa fé m.a. til þeirra ágætu verkefna sem hv. 9. þm. Reykn. nefndi. Ég held að það beri ekkert á milli okkar í sjálfu sér annað en mér finnst hann gera lítið úr almennum markmiðum í efnahagsstjórn í þágu hinna lægst launuðu í þjóðfélaginu.