Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 23:01:35 (2195)

1996-12-13 23:01:35# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[23:01]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alrangt að ég geri lítið úr almennum markmiðum í efnahagsstjórninni, markmiðum á borð við þau að halda niðri verðbólgu. Ég man eins og það hefði gerst í gær þegar flokkur hv. þm. og minn flokkur voru saman í ríkisstjórn og tókst sameiginlega að berja niður verðbólguna. Það var sú mesta búbót fyrir allt launafólk sem nokkru sinni fékkst og ekki síst fyrir skuldugar fjölskyldur í landinu. En þessi almennu úrræði, svo góð sem þau eru, og stöðugleiki og allt það, þau duga ekki ein og sér fyrir þennan stækkandi hóp fólks sem ég var að fjalla um og það veit ég að samvinnumaðurinn, hv. þm. Jón Kristjánsson, hlýtur að skilja. Það er nauðsyn á ákveðnum, sértækum úrræðum, félagslegum úrræðum sem við komumst ekki hjá að fara í. Það er nú bara þannig.

Það er ekkert áhlaupaverk í einni svipan að vinda ofan af þróun sem telur 25 milljarða kr. skuldaaukning á ári hverju hjá heimilunum í landinu. Það er meira en segja það. Ég geri mér fullkomlega grein fyrr því. En það að halda ríkissjóði einum og sér, sem veltir ekki nema 125 milljörðum á ári, fimm sinnum meira en skuldaaukning heimilanna í landinu, innan ramma og í góðu lagi, það eitt og sér er bara ekki nægilegt. Það er veruleiki málsins. Og menn geta ekki barið höfðinu við steininn og sagt sem svo, eins og því miður margir hv. stjórnarþingmenn gera, að það sé allt í góðu lagi vegna þess að ríkissjóður sé nú rekinn hallalaus í fyrsta skipti til margra ára. Það leysir ekki vanda stórs og stækkandi hóps launafólks í landinu. Ég vil ekki segja þess fólks sem gengur á milli bæja, eins og hv. þm. Guðni Ágústsson nefndi hér eitt sinn, og nagar girðingarstaura af einberri fátækt. (Forseti hringir.) En þrátt fyrir það er það þannig að allt of margir, jafnvel tugþúsundir, hafa það fjandi skítt og á því þurfum við að taka. Við þurfum að koma í veg fyrir skuldaaukningu heimilanna í landinu.