Tryggingagjald

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 14:13:45 (2244)

1996-12-16 14:13:45# 121. lþ. 45.3 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv. 156/1996, Frsm. 1. minni hluta ÁE
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[14:13]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti 1. minni hluta efh.- og viðskn. en auk mín skrifar undir álitið hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir sem sat í nefndinni þegar þetta mál var afgreitt. Málið snýst um samræmingu tryggingagjalds þannig að á fjórum árum verður samræmt gjald af einstökum atvinnuvegum. Gjald mun hækka á þeim sem nú eru í lægri gjaldflokki og lækka á þeim sem eru í hærri gjaldflokki.

Við í 1. minni hlutanum höfum dregið fram, bæði í nefndarstarfinu og einnig við 1. umr., að hér er um að ræða tryggingagjald, þ.e. launaskatt sem er álagning á greidd laun fyrirtækja. Við þingmenn jafnaðarmanna lítum svo á að það sé eðlilegt að atvinnuvegum sé ekki mismunað varðandi álagningu launaskatts í löggjöf um skattamál. Það er ekki nema menn kjósi af sérstökum ástæðum að hafa ívilnanir gagnvart tilteknum atvinnugreinum, en það er skoðun okkar að slík ívilnun eða mismunun í atvinnulífinu, sem við höfum oft búið við undanfarna áratugi, sé ekki af hinu góða og atvinnuvegir verði að keppa á jafnréttisgrunvelli um framleiðsluþætti, þar á meðal um vinnuafl. Það hefur verið sérstök ívilnun fyrir sjávarútveg, landbúnað og iðnað í þessu tryggingagjaldskerfi og víst má færa rök fyrir því að afkoma t.d. í landbúnaði eða botnfiskvinnslu sé ekki þess eðlis að menn geti borið mjög vel þær auknu álögur sem hækkun tryggingagjalds á þessum atvinnugreinum vitaskuld hefur. Þá verður hins vegar að hafa í huga að hér er veittur eðlilegur aðlögunartími og þetta mál snýst fyrst og fremst um grundvallarákvörðun. Þetta mál snýst um það hvort mönnum finnst vera eðlilegt að ívilna eða mismuna einstökum atvinnugreinum eða ekki. Það er skoðun okkar að það sé ekki góð aðferðafræði í íslenskri löggjöf.

Við bendum einnig á í okkar áliti að þessi skoðun styðst ekki einungis við okkar sannfæringu heldur einnig við löggjöf erlendis frá þar sem mjög víða --- og er hægt að benda á löggjöf í Evrópu því til sanninda --- hefur löggjöf verið færð í það horf að slík mismunun milli atvinnugreina er mjög á undanhaldi. Lagt er til í brtt. af hálfu meiri hlutans að miða við heildarlaun við útfærslu þessa, þ.e. að taka inn lífeyrissjóðsiðgjald. Þetta breytir ekki efni málsins og hefur sáralítil fjárhagsleg áhrif. Fyrsta minni hluta finnst eðlilegt að þessi brtt. sé gerð og munum við styðja hana. Sömuleiðis styðjum við meginefni frv., þ.e. að leggja á tryggingagjald í því formi sem hér er lagt til, þ.e. til fjögurra ára.

Hins vegar erum við á móti þeirri brtt. meiri hluta efh.- og viðskn. að gera ráð fyrir mörkuðum tekjustofni til Staðlaráðs og Icepro. Þetta eru fyrirtæki sem annast útgáfu staðla hér á landi. Það hefði verið mun eðlilega að fjárveitingar til þessa þáttar væru á fjárlögum ef menn kysu að hið opinbera kæmi að þeim þætti frekar en að eyrnamerkja tekjustofn úr tryggingagjaldi eins og gert er. Við bendum á að þar með er verið að hygla tilteknum stofnunum og fyrirtækjum umfram önnur sem e.t.v. eiga eftir að koma inn á þennan markað. Við teljum þetta dæmi um slæm vinnubrögð að vera að tengja það inn í afgreiðslu þess máls sem hér er til umræðu. Við leggjumst gegn þessari brtt. meiri hlutans, munum hins vegar styðja meginþætti frv. sem fjallar um samræmingu á tryggingagjaldi og aðlögun á því næstu fjögur árin. Við lítum svo á að hér sé um grundvallarmál að ræða. Afstaða manna kemur mjög skýrt fram í atkvæðagreiðslu um þetta efni, þ.e. hvort menn telja eðlilegt að það sé mismunun milli atvinnuvega eða ekki varðandi álagningu skatta. Það er skoðun okkar jafnaðarmanna að slík mismunun eigi ekki að vera í lögum.