Tryggingagjald

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 15:11:42 (2252)

1996-12-16 15:11:42# 121. lþ. 45.3 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv. 156/1996, Frsm. 1. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[15:11]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Örlítið í framhaldi af orðum hæstv. félmrh. varðandi Tryggingasjóð einyrkja. Í efh.- og viðskn. veltu menn vöngum yfir því, sérstaklega stjórnarliðar, hvort taka ætti inn ákvæði um þennan tryggingasjóð. Mönnum fannst kannski óeðlilegt að það yrði beint í löggjöfinni. Síðan endaði það hjá meiri hluta nefndarinnar --- nú er ég kannski farinn að endursegja hvað meiri hlutinn ákvað í þessu máli --- að hafa þetta til bráðabirgða eins og ég skildi að hæstv. ráðherra væri að tala um að væri mjög æskilegt. Síðan var það tekið út af borðinu af háflu meiri hlutans. Minnihlutamenn sögðust ekki hafa neitt á móti Tryggingasjóði einyrkja nema síður væri, heldur væri óeðlilegt að setja í löggjöf, sem væri verið að afgreiða, tilvísun í sjóð sem ekki væri búið að stofna. Hins vegar var fundið bráðabirgðaákvæði á þessari útfærslu en af hálfu meiri hlutans var hætt við að flytja þá brtt. Það var búið að orða hana en sú brtt. var ekki flutt. Þetta tel ég rétt að sé upplýst hér í umræðunni. Ég veit ekki hvort nauðsynlegt samráð hafi verið haft við hæstv. félmrh. varðandi þetta mál. En svo ég lýsi afstöðu minni hlutans gagnvart þessu þá var það ekki andstaða við sjóðinn sem slíkan, eða að hann væri þarna vistaður, heldur fyrst og fremst það að taka það þá inn þegar það frv., sem mér skilst að hafi verið kynnt hér af hálfu ríkisstjórnarinnar og sé jafnvel búið að leggja fram á hinu háa Alþingi, væri þá orðið að lögum, en vera ekki með tilvísun til sjóðs sem er ekki orðinn til.