Tryggingagjald

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 15:36:57 (2259)

1996-12-16 15:36:57# 121. lþ. 45.3 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv. 156/1996, Frsm. 2. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[15:36]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Mér finnst tilefni til að vekja athygli á því að hér hafa tveir hv. þm., stuðningsmenn hæstv. ríkisstjórnar, komið upp og lagst gegn þessu stjfrv. og flutt ýmis rök fyrir sinni afstöðu, hv. þingmenn Einar Oddur Kristjánsson og Egill Jónsson sem báðir eru þungavigtartalsmenn síns flokks í málefnum sjávarútvegs og landbúnaðar og mér finnst það verðskulda að a.m.k. sé kvittað fyrir að menn hafi tekið eftir þeirra afstöðu í þessu máli. Ég sakna þess að hæstv. ráðherrar hafa ekki blandað sér í málið. Það vill að vísu svo vel til að nánast í þessum töluðu orðum kemur hæstv. sjútvrh. í salinn en það hefur verið djúpt á hæstv. landbrh. og væri þó tilefni til að þeir heiðruðu þessa umræðu með nærveru sinni, kæmu hingað og svöruðu þeim efnislegu rökum sem menn hafa hér flutt, bæði tveir síðustu hv. ræðumenn og fleiri, um stöðuna í þeim greinum sem nú eiga að fara að taka á sig íþyngjandi áhrif eða afleiðingar þessara skattkerfisbreytinga. Ég mundi gjarnan vilja að til að mynda hæstv. sjútvrh. mundi tjá sig um það hvernig hann telur sjávarútveginn og þá einkum og sér í lagi fiskvinnsluna í stakk búna til að mæta þessum útgjöldum. Þá væri ekki síður ástæða til að hæstv. landbrh. kæmi inn í umræðurnar um stöðu landbúnaðarins og sauðfjárræktarinnar sem hér hefur ítrekað verið gerð að umtalsefni.

Það er reyndar, herra forseti, að verða nokkurt umhugsunarefni hvernig það gengur orðið eða öllu heldur gengur ekki, að ná yfirleitt upp einhverri málefnalegri eða vitrænni umræðu um starfsskilyrði og stöðu þessara undirstöðuatvinnugreina. Það er satt best að segja að verða nokkurt umhugsunarefni hvernig þær eru, eins og mér liggur við að segja, gleymast eða er þokað til hliðar. Þá sjaldan umræða verður, þá er það um einhver afmörkuð upphlaupstilefni sem tengjast tilteknum þáttum, svo sem eins og þegar Dagblaðið tekur sínar árlegu rispur á útgjöldum til landbúnaðarmála eða þegar menn rjúka upp út af framsalsmálum í kvótakerfinu. En þegar reynt er að fá umræðu um almenn starfsskilyrði og stöðu þessara greina, er eins og á því hafi ekki nokkur maður áhuga og breytingar af þessu tagi þar sem verið er að leggja hundruð millj. kr. í formi nýrra útgjalda á þessar greinar hreyfa ekki við nokkrum manni.

Ég tel að þau orð sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lét falla t.d. um framtíðina varðandi stöðu útflutningsgreinanna og hættuna á hækkun raungengis og svo fleira kalli á það og réttlæti að um þetta yrðu einhverjar umræður og svör af hálfu hæstv. ráðherra.

Hv. þm. Egill Jónsson nefndi þetta dæmalausa réttleysi bænda að þeir skulu hafa vera látnir borga fullt tryggingagjald í fimm ár og að menn séu fyrst núna að baksa við að koma einhverjum breytingum í gegn varðandi löggjöf til að bæta úr þessu og vonandi tekst það að einhverju leyti þó að vissulega sé það ekki alveg einfalt mál að útfæra leikreglur um slíkar bótagreiðslur til sjálfstætt starfandi einyrkja. En af þessu tilefni hlýt ég að leyfa mér að benda hv. þm. á að þennan reikning verður að senda þessum tveimur hæstv. ríkisstjórnum sem setið hafa einmitt að völdum þessi sömu fimm ár og eitthvað er það mál nú hv. þm. Agli Jónssyni skylt.