Lax- og silungsveiði

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 16:56:20 (2273)

1996-12-16 16:56:20# 121. lþ. 45.10 fundur 239. mál: #A lax- og silungsveiði# (Veiðimálastofnun) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[16:56]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76 25. júní 1970, með síðari breytingum, sem flutt er á þskj. 358 og er 239. mál þingsins.

Eins og fram kemur í athugasemdum með frv. er það flutt til þess að lögfesta nauðsynlegan aðskilnað stjórnsýslu samkvæmt lax- og silungsveiðilögum frá framkvæmda- og rannsóknaverkefnum sem Veiðimálastofnun hefur á hendi.

Með lögum nr. 63/1994, um breytingu á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, var Veiðimálastofnun í fyrsta sinn skilgreind sem sérstök rannsókna- og þjónustustofnun í veiðimálum. Þá var jafnframt kveðið á um skipan stjórnar fyrir Veiðimálastofnun.

Veiðimálastjóri er samkvæmt núgildandi lögum forstjóri Veiðimálastofnunar. Í seinni tíð hafa komið upp atvik þar sem bornar eru brigður á hæfi veiðimálastjóra til meðferðar mála vegna afskipta hans sem stjórnvalds á fyrri stigum. Slík mál kunna að rísa þegar um andstæða hagsmuni er að ræða. Veiðimálastjóri getur, miðað við núverandi starfssvið, átt ýmiss konar aðild að máli eins og nánar er vikið að í athugasemdum með frv. þessu.

Af upptalningunni sést að veiðimálastjóra er ætlað að hafa afskipti á öllum stigum máls. Þannig getur hann komið að rannsókn og ráðgjöf fyrir hagsmunaaðila sem sérfræðingur og forstjóri Veiðimálastofnunar. Hann getur mælt með eða gert tillögur til ráðherra, ef til vill á grundvelli rannsókna, um að banna, leyfa eða veita undanþágu frá reglum, allt eftir málsatvikum hverju sinni. Það getur síðan komið í hlut veiðimálastjóra að setja nánari reglur, mæla fyrir um framkvæmd og gera úttekt á mannvirkjum. Sem fulltrúi í stjórn Fiskræktarsjóðs getur hann þurft að taka afstöðu til umsókna eða hlutast til um styrki til framkvæmda sem áður hafa komið til umsagnar hjá embættinu. Þá getur Veiðimálastofnun verið meðal umsækjenda.

Veiðimálastofnun, eins og öðrum rannsóknastofnunum, er nauðsynlegt að geta sýnt fram á að hún stundi óvilhallar og hlutlausar rannsóknir. Að rannsóknastofnun taki þátt í að rannsaka hugsanlegar afleiðingar leyfisveitinga sem forstöðumaður hefur átt aðild að getur ekki samrýmst kröfunni um hlutleysi í vinnubrögðum og er frekar til þess fallið að draga úr trúverðugleika stofnunarinnar. Þá getur ekki talist eðlilegt að forstöðumaður opinberrar stofnunar geti hlutast til um styrkveitingar til stofnunarinnar sem hann stýrir með beinum hætti með setu sinni í Fiskræktarsjóði.

Skipulag rannsóknaþjónustu í landbúnaði hefur verið til endurskoðunar frá því á haustdögum 1995 og hefur nefnd um það efni skilað áfangaskýrslu. Einnig er í gangi vinna á vegum ríkisstjórnarinnar um heildarendurskoðun skipulagsrannsókna fyrir atvinnuvegina. Sá starfshópur hefur ekki skilað tillögum enn þá. Breytingar á skipulagi rannsókna innan stofnana landbrn. bíður tillagna frá þeim hópi.

Það hefur verið samdóma álit þeirra sem hafa tekið þátt í umræðum um hugsanlegar breytingar á núverandi fyrirkomulagi rannsókna í veiðimálum að aðskilja eigi embætti veiðimálastjóra frá rannsóknunum óháð því hvaða skoðun menn hafa á skipulagi rannsóknanna. Þessi skoðun kemur m.a. fram í áfangaskýrslu áðurnefndrar nefndar sem fjallar um endurskipulag rannsóknaþjónustu í landbúnaði. Skoðun stjórnar Veiðimálastofnunar er sú sama og einnig hefur stjórn Landssambands veiðifélaga sent mér ályktun þess efnis að hún sé þessari breytingu og þessum aðskilnaði samþykk.

Hagsýsla ríkisins hefur einnig að beiðni ráðuneytisins komið með tillögur að endurskoðun stjórnskipulags Veiðimálastofnunar og stöðu embættis veiðimálastjóra. Einnig er talið nauðsynlegt að aðskilja stjórnsýslu málaflokksins frá framkvæmda- og rannsóknaverkefnum.

Sú breyting sem hér um ræðir truflar alls ekki hugsanlegar skipulagsbreytingar sem geta orðið á rannsóknarþættinum. Hún er einungis fyrsta skrefið, hvert svo sem framhaldið verður. Hvað varðar embætti veiðimálastjóra þá er brýnt að koma þessu fyrirkomulagi á sem fyrst.

Nauðsynlegt er að árétta að lögfestingu frv. á ekki að fylgja breyting á starfsmannafjölda Veiðimálastofnunar. Ef ráðinn verður framkvæmdastjóri sem ekki starfar við stofnunina í dag þá verður hún að hagræða í rekstri sem því nemur. Það kemur fram í greinargerð frv. með fylgiskjali frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. að frv. á ekki að fylgja aukinn kostnaður fyrir ríkissjóð.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lengja mál mitt frekar vegna frv. Ég vísa til greinargerðarinnar. Þar er ítarlega fjallað um málið. Ég bið hins vegar um það ef mögulegt er, að málið verði afgreitt áður en jólahlé þingsins hefst í lok þessarar viku vegna þess að það er a.m.k. æskilegt að þessi breyting geti farið fram um áramót. Ég segi ekki að það farist himinn og höf þó það gerist ekki, en það væri mjög æskilegt af tæknilegum ástæðum að það gerðist um áramót þannig að hægt yrði að skipta formlega upp fjárveitingum í fjárlögum fyrir næsta ár milli stofnunarinnar annars vegar og embættis veiðimálastjóra hins vegar. Ég fer fram á þetta þó mér sé ljóst að tíminn er afar naumur. En ég tel að málið sé ekki svo stórt og jafnframt, eins og fram hefur komið í framsögunni, að um málið er samkomulag milli hagsmunaaðila eða þeirra sem helst hafa um málið að segja.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.