Listamannalaun

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 17:11:40 (2278)

1996-12-16 17:11:40# 121. lþ. 45.8 fundur 135. mál: #A listamannalaun# (markmið, greiðslufyrirkomulag o.fl.) frv. 144/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[17:11]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að nota rétt minn til andsvars til að spyrja hv. formann menntmn. út í síðustu setninguna í nefndaráliti þar sem bent er á að huga þurfi sérstaklega að stöðu höfunda fræðirita þegar úthlutað er úr Launasjóði rithöfunda. Ég hef skilið það svo og les það út úr þessu frv. að þar sé fyrst og fremst verið að tala um listamenn. Launasjóður rithöfunda á fyrst og fremst að vera til að veita þeim styrki sem eru að semja skáldskap. Og það kemur einnig skýrt fram í athugasemdum við greinar, hér er talað um listgreinar. Þess vegna fór ég að velta því fyrir mér hvað hv. menntmn. væri að fara með þessari athugasemd, þ.e. hvort verið er að leggja til að Launasjóður rithöfunda fari að styrkja fræðimenn. Er hv. menntmn. þá að hugsa um þá sem eru fyrst og fremst að semja fræðirit um bókmenntir eða er verið að tala um fræðirit almennt? Mér finnst þetta ekki fara saman. Ég vara við því að farið sé að skerða það fé sem rithöfundum er veitt til þess að semja skáldskap og fara að veita þeim peningum til fræðimanna þó að vissulega hafi verið skorið nokkuð niður til fræðimanna með þeim breytingum sem gerðar voru á síðasta kjörtímabili á Menningarsjóði og hlutverki hans sem hefur vissulega gert fræðimönnum mun erfiðara fyrir að koma sínum verkefnum á framfæri. En fræðimenn eiga aðgang að Vísindasjóði og jafnvel fleiri sjóðum þannig að ég vil biðja um skýringu á þessu.