Listamannalaun

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 17:15:37 (2281)

1996-12-16 17:15:37# 121. lþ. 45.8 fundur 135. mál: #A listamannalaun# (markmið, greiðslufyrirkomulag o.fl.) frv. 144/1996, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[17:15]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Af þessu tilefni vil ég upplýsa að við undirbúning á frv. var rætt við fulltrúa frá Hagþenki og fulltrúa fræðimanna eða höfunda fræðirita og því erindi var m.a. beint til nefndarinnar sem vann að samningu og endurskoðun laganna og samningu frv., að hún tæki afstöðu til hvort árétta ætti betur en gert er rétt fræðimanna til styrkja. Niðurstaðan varð sú að það er ekki gert frekar en fram hefur komið í þessum frumvarpsdrögum eða því sem við erum að fjalla um. En hins vegar er unnið að því á vegum nefndar eða hóps með þátttöku menntmrn. að reyna að skilgreina betur hlut fræðibókahöfunda að þessu leyti. Það er rétt sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði, að þeir eiga margir hverjir rétt á styrkjum úr rannsóknasjóðum eða Vísindasjóði. En það eru einnig önnur svið og hér í þessum þingsal eru staddir menn sem hafa skrifað fræðirit, sem eru þess eðlis að mundu kannski ekki falla undir styrki Vísindasjóðs eða þeirra sjóða en full ástæða væri til að styðja við þau fræðistörf. Og það er sá hópur manna sem verið er að fjalla um þegar menn velta því fyrir sér hvort ástæða sé til að stofna sérstakan sjóð til styrktar slíkum ritum. Fyrir okkur sem þjóð og okkar menningarlegu starfsemi, þá held ég að mjög íhugunarvert sé að stíga skref í þessa átt, því það er ekki nóg að stuðla að ritun fagurfræði heldur þarf einnig að hafa annars konar fræði í frammi til að menn hafi á íslensku rit um margt af því sem er að gerast í okkar samtíma. Þá þarf hugsanlega að styðja það með öðrum hætti en gert hefur verið til þessa. Það sem verið er að athuga og komi skynsamleg niðurstaða út úr þeim athugunum mun það vera lagt fyrir Alþingi sem tillaga, kannski á síðari stigum.