Listamannalaun

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 17:20:17 (2284)

1996-12-16 17:20:17# 121. lþ. 45.8 fundur 135. mál: #A listamannalaun# (markmið, greiðslufyrirkomulag o.fl.) frv. 144/1996, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[17:20]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Til að skýra þetta mál frekar ætla ég að vitna, með leyfi forseta, í umsögn sem menntmn. barst frá Hagþenki. Þar segir m.a.:

,,Fulltrúaráð Hagþenkis telur núverandi skipan á stuðningi ríkisins við fræðiritahöfunda óviðunandi. Höfundar alþýðlegra fræðirita sem starfa utan stofnana og án fastra launa eiga ekki kost á sambærilegum stuðningi við starf sitt og aðrir höfundar njóta. Lög um listamannalaun og þar með ákvæði um Launasjóð rithöfunda og 480 mánaðalaun, sem honum er ætlað að veita árlega til starfandi höfunda samkvæmt umsóknum, hafa verið túlkuð þannig að þau ættu fyrst og fremst að renna til höfunda skáldverka.``

Það eru einnig hugmyndir um það í þessari umsögn frá Hagþenki að hugsanlegt væri að efla Launasjóð rithöfunda og skipta honum í tvær deildir. Þetta er sem sagt hugmynd sem þeir leggja fram. Eins hafa þeir líka komið fram með hugmynd um launasjóð fræðiritahöfunda, þannig að það er alveg ljóst að þarna er á ferðinni ýmislegt sem þarf að skoða.