Tryggingagjald

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 13:41:40 (2290)

1996-12-17 13:41:40# 121. lþ. 46.1 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv. 156/1996, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[13:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Við í þingflokki Alþb. og óháðra stöndum ekki að þessum skattalagaæfingum hæstv. ríkisstjórnar sem felast m.a. í breytingum á tryggingagjaldi og síðan í breytingum á álagningu vörugjalda og lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts á viðhaldi íbúðarhúsnæðis. Við höfum því ekki greitt atkvæði um meginefnisgreinar frv. En hér eru brtt. á ferð í staflið a á 2. tölul. á þskj. 325 sem sérstök ástæða er til að vekja athygli á þar sem verið er að tína ýmsa útgjaldaliði inn á þennan tekjustofn, tryggingagjaldið, fjárveitingar til Staðlaráðs og fyrirbæris sem hér er nefnt Icepro sem á að fá 0,001% af þessum gjaldstofni. Við teljum þetta óeðlilegt með öllu og ef ríkið kostar slíka starfsemi eða styrkir hana þá eigi að gera það með venjubundinni fjárveitingu á fjárlögum. Við greiðum því atkvæði gegn þessum tölulið brtt.