Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 14:56:48 (2305)

1996-12-17 14:56:48# 121. lþ. 47.12 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[14:56]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrri liðinn sem hæstv. menntmrh. gerði að umtalsefni, þ.e. skerðingu á lögbundnum tekjustofni Þjóðarbókhlöðu og menningarbygginga, þá vakti ég sérstaklega athygli á því að hér er um 150 millj. að ræða og það hefði verið nær að veita þetta til uppbyggingar menningarmálefna eins og ég rakti. Það er vitaskuld rétt sem hæstv. ráðherra segir að lög um þennan sjóð gera ekki ráð fyrir því. Það sem ég er hins vegar að tala um er að ef hæstv. menntmrh. hefði lagt til að taka með lagabreytingu þær tekjur sem hefðu farið í þennan farveg, víkka út verksvið sjóðsins, og láta þær renna almennt til menningarmála, þá hefði ég stutt það. Það sem ég er fyrst og fremst að draga fram er að menn ætla sérstakan tekjustofn í þennan málaflokk. Það er full ástæða og þörf á því að láta þetta renna í þá menningarstarfsemi sem ég hef gert að umtalsefni. Ég nefndi sérstaklega í ræðu minni áðan ummæli forstöðumanns handritadeildar um það að handrit okkar og forn skjöl liggja undir skemmdum vegna þess að fjármagn vantar til að reka þetta dæmi sómasamlega. Þetta finnst mér vera til vansa og það er það sem ég er að gagnrýna varðandi afstöðu og stefnu ríkisstjórnarinnar í menntamálum.

Varðandi seinni liðinn, það sem við köllum fallskatt hæstv. menntmrh., þá gat ég um það í framsögu minni þegar ég vitnaði í minnihlutaálit menntmn. að breytingartillögur hefðu verið lagðar fram af efh.- og viðskn. Ég sagði hins vegar að það breytti ekki í grundvallaratriðum neinu í umsögn þeirri sem þar kemur fram, það er andstaða við þá stefnumörkun og lögfestingu ríkisstjórnarinnar að láta þá nemendur sem einhverra hluta vegna þurfa að endurinnritast í bekk eða áfanga greiða sérstaklega fyrir það. Við erum andvíg slíkri menntastefnu. Ég geri mér fulla grein fyrir að það kom brtt. í sambandi við útfærslu þessa máls en það breytir engu varðandi grundvallarafstöðu okkar. Við erum andvíg þessari stefnu.