Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 16:04:12 (2309)

1996-12-17 16:04:12# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, Frsm. meiri hluta EKG
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[16:04]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. forseta verður mælt fyrir nefndarálitum vegna þriggja frumvarpa. Í fyrsta lagi nefndaráliti meiri hlutans ásamt breytingartillögum við frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nefndaráliti meiri hlutans ásamt breytingartillögum um frv. til laga um fjarskipti og nefndaráliti ásamt breytingartillögum frá meiri hluta um frv. til laga um póstþjónustu.

Það frv. sem við ræðum hér um Póst- og fjarskiptastofnun er eðlilegt framhald af þeim breytingum sem eru að verða á fjarskiptaumhverfinu og þeirri ákvörðun sem tekin var á sl. vori um formbreytingu Póst- og símamálastofnunar sem í raun og veru hefur verið eins konar framlengdur armur framkvæmdarvaldsins að því leytinu að það hefur séð um stóran hlut af þeirri stjórnsýslu sem þessi mál hafa þurft á að halda. Póst- og fjarskiptastofnun mun hafa það að meginmarkmiði að vera í fyrsta lagi almenn stjórnsýsla á póst- og fjarskiptasviðinu og yfirtekur að hluta til verkefni fjarskiptaeftirlitsins. Hún er í raun og veru eftirlitsaðili í hinu breytta umhverfi á póst- og fjarskiptamarkaðnum.

Það er sérstök ástæða til að vekja athygli á 8. gr. frv. þar sem kveðið er á um sjálfstæði Póst- og fjarskiptastofnunar sem er ákaflega þýðingarmikið í þeirri umræðu sem hér fer fram. Það er gert ráð fyrir því og reyndar enn þá undirstrikað í þeim breytingartillögum sem fram koma af hálfu meiri hlutans að Póst- og fjarskiptastofnun hafi sjálfstæða stöðu. Formaður og varaformaður skulu skipaðir eftir tilnefningu Hæstaréttar og einn nefndarmaður ásamt varamanni skal skipaður samkvæmt tilnefningu stjórnar Verkfræðingafélags Íslands. Úrskurðir þeir sem úrskurðarnefndin fær skulu vera endanlegir á stjórnsýslustigi og þeim er ekki hægt að skjóta til samgrn. Þetta er liður í því að styrkja sjálfstæði þessarar stofnunar og þessarar starfsemi.

Ég vil aðeins fara yfir þær breytingartillögur sem meiri hlutinn leggur til. Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæði 7. gr. frv., þar sem kveðið er á um að notandi fjarskipta- eða póstþjónustu geti beint kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar vegna reikninga sem gefnir eru út vegna almennrar fjarskiptaþjónustu, verði fellt brott. Þetta er gert með hliðsjón af þeim breytingum sem lagðar eru til á frv. til laga um fjarskipti og ég kem að hér á eftir og miðar að því að takmarka afskipti Póst- og fjarskiptastofnunar af þeim hluta fjarskiptaþjónustu sem ekki varðar sérstaklega tæknileg atriði eða skilyrði rekstrarleyfa. Þetta er gert, virðulegi forseti, til þess að gera skarpari skil á milli starfsemi Póst- og fjarskiptastofnunar og starfsemi annarra eftirlitsaðila eins og Samkeppnisstofnunar. Það er mjög mikilvægt að ljóst sé hvert valdsvið Póst- og fjarskiptastofnunar er og hvert valdsvið annarra eftirlitsaðila í þjóðfélaginu er á þessu sviði.

Enn fremur er lagt til í breytingartillögum meiri hluta samgn. að hæfisskilyrði, sem kveðið er á um í 8. gr. frv. og ég vék aðeins að áðan, verði breytt þannig að aðrir nefndarmenn en formaður og varaformaður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála skuli hafa faglega kunnáttu eða reynslu á sviði fjarskipta- og póstmála, verði felld brott. Ástæðan fyrir þessu er sú að við töldum að það gæti orðið erfitt að finna nægilega marga aðila sem uppfylltu þessi skilyrði án þess að þeir tengdust Pósti og síma beint eða óbeint og þetta væri enn einn liður í því að tryggja sjálfstæði þessarar stofnunar og þeirra úrskurða sem hún mun eðli málsins þurfa og verða að fella.

Þá vík ég að nefndaráliti og breytingartillögum meiri hluta samgn. varðandi frv. til laga um fjarskipti. Það má segja þegar þessi mál eru skoðuð að þetta frv. sé kannski það viðurhlutamesta í þessari umræðu. Fjarskiptamálin er ákaflega flókin og margslungið svið sem kallar á miklar breytingar á lagarammanum vegna þess að fjarskiptamálin eru að taka miklum breytingum í okkar heimshluta, ekki síður hér á landi en annars staðar. Stóra breytingin kemur fram í ákvæði til bráðabirgða þar sem gert er ráð fyrir því að einkaleyfi til almenns fjarskiptarekstrar falli niður ekki síðar en 1. janúar árið 1998. Þetta er stærsta breytingin. Það verður grundvallarbreyting á öllu rekstrarumhverfinu sem þýðir að það er mjög mikilvægt að allar leikreglur á þessum markaði séu sem skýrastar, hlutlægastar og gagnsæjastar til þess að tryggja það í senn að hér sé hægt að starfrækja sem öflugast fjarskiptanet en jafnframt að tryggja þá samkeppni sem óhjákvæmileg er og eðlileg er á þessum markaði eins og öðrum og tryggja sem mest jafnræði þeirra aðila sem þar starfa.

Markmiðið með þeim breytingartillögum sem meiri hluti samgn. leggur til við þetta frv. er nákvæmlega það að skýra sem best þennan ramma sem fyrirtækin starfa innan þannig að þær leikreglur sem menn verða að hlíta á þessum markaði séu sem ljósastar. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á 6. og 11. gr. frv. sem miða að því að skilgreina nánar skilyrði þau sem Póst- og fjarskiptastofnun setur fyrir veitingu rekstrarleyfis og afskipti stofnunarinnar. Miðað er við að skilyrði fyrir leyfisveitingu skuli ekki einungis vera skýr og að gæta verði jafnræðis meðal umsækjenda og leyfishafa, heldur þykir líka rétt að taka fram að skilyrðin skuli einnig vera hlutlæg, samanber 1. mgr. 6. gr. Þetta styðst m.a. við sambærilegt ákvæði í frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun og enn fremur tilskipanir Evrópusambandsins eða EES sem kveða á um mikilvægi þess að þetta sé til staðar í lagatextanum.

Þá er lagt til að í stað þess að miða við að eitt af skilyrðum fyrir rekstrarleyfi geti verið að viðskiptaskilmálar rekstrarleyfishafa í almennri fjarskiptaþjónustu séu háðir samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar verði miðað við að viðskiptaskilmálar rekstrarleyfishafa í alþjónustu verði háðir slíku samþykki, samanber g-lið 2. mgr. 6. gr. Þetta er enn þáttur í því að skýra betur umfang þessara laga og gera skarpari skil á milli starfsemi annars vegar Póst- og fjarskiptastofnunar og hins vegar Samkeppnisstofnunar sem er eins og ég hef áður sagt ákaflega þýðingarmikið að séu mjög ljós. Með þessum breytingum er því verið að þrengja skilgreiningarnar nokkuð frá því sem frv. gerði ráð fyrir og gera þetta mál skýrara.

Þá eru lagðar til breytingar á 11. gr. frv. sem miða að því að takmarka afskipti Póst- og fjarskiptastofnunar við tiltekna þætti sem varða tengingar neytenda við fjarskiptanet og lágmarksbilanaþjónustu. Hér er fyrst og fremst um tæknilegar kröfur að ræða fyrir tengingar og þess háttar og enn er þetta liður í því að afmarka skýrar þá starfsemi sem hér um ræðir.

Lagt er til að í 15. gr. verði kveðið sérstaklega á um að jöfnunargjaldið, sem innheimta skal af rekstrarleyfishöfum innan viðkomandi þjónustusviðs samkvæmt VIII. kafla frv., verði ákveðið árlega með lögum, í fyrsta skipti fyrir gjaldárið 1998, og felld verði niður heimild ráðherra í 6. mgr. til að setja nánari fyrirmæli um álagningu gjaldsins. Þetta er augljóst ákvæði vegna þess að það er mjög þýðingarmikið í lagasetningu af þessu taginu að skattlagningarvaldið sé skýrlega hjá þinginu og að það sé ljóst að gjaldtaka af þessu taginu liggi ljós fyrir. Þess vegna er það í samræmi við það sem hefur verið að gerast í lagasetningu á síðustu árum að ákveða gjaldið árlega í hvert sinn til þess að framselja ekki valdið ótakmarkað til framkvæmdarvaldsins í heild sinni þannig að þetta er mjög í samræmi við þá umræðu alla saman.

Eins og menn muna var sú ávörðun tekin þegar verið var að endurskoða og gera minni háttar breytingar á fjarskiptalöggjöfinni sl. vor að setja inn sérstakt ákvæði sem kvað á um notkunargjald fyrir talsímaþjónustu í landinu. Þetta var ákveðið með sérstakri lagabreytingu á liðnu vori. Hér er lagt til að inn verði sett mjög svipað ákvæði og er í 24. gr. gildandi fjarskiptalaga, þó með örlítilli breytingu, breytingu í samræmi við m.a. þá túlkun sem ég sem formaður samgn. hafði uppi í umræðunum í vor. Í breytingartillögunni er kveðið á um að notkunargjald fyrir talsímaþjónustu hjá hverjum rekstrarleyfishafa fyrir sig skuli vera hið sama alls staðar. Með þessu er verið að tryggja það markmið laganna frá því í vor að jafna símakostnað í landinu.

Að lokum, virðulegi forseti, mæli ég svo fyrir breytingartillögum og nefndaráliti við frv. til laga um póstþjónustu sem meiri hluti samgn. hefur lagt til. Meginmarkmiðið með póstþjónustulöggjöfinni er það sem kemur hér fram í athugasemdum, að í fyrsta lagi er stefnt að því að í íslenskri löggjöf um póstþjónustu sé hugtakið grunnpóstþjónusta skilgreint. Ýmis nýmæli eru í þessu frv. Það má nefna að íslenska ríkið er skuldbundið til þess að tryggja landsmönnum reglulega póstþjónustu á sendingum sem taldar eru upp í 4. gr. frv. Þá er í frv. gert ráð fyrir því að ríkið geti falið einum eða fleiri póstrekendum með sérstöku rekstrarleyfi að annast rekstur þeirrar póstþjónustu sem ríkið skuldbindur sig til að veita öllum landsmönnum.

[16:15]

Þær breytingar sem meiri hluti samgn. gerir á frv. eru í meginatriðum tvær. Í fyrsta lagi, og það er auðvitað langstærsta málið, gerði frv. ráð fyrir því að einkaréttarsviðið væri útvíkkað frá því sem það er í dag jafnframt því að hugtök á þessu sviði voru skilgreind til samræmis við það sem eðlilegt má teljast í ljósi breyttra aðstæðna. Meiri hluti samgn. leggur hins vegar til að einkaréttarskilgreiningin verði eins og hún er í dag. Það eru í raun og veru engar sérstakar efnislegar ástæður fyrir því að útvíkka einkaréttarsviðið. Það er ljóst að ef slík útvíkkun ætti sér stað, þá mundi einkaréttarsviðið ná til opinna sendinga, þar með talinna jólakorta, póstkorta og annarra slíkra opinna sendinga, og gæti t.d. haft áhrif á starfsemi íþróttafélaga, góðgerðarfélaga og menningarfélaga af ýmsu tagi sem taka að sér tímabundna dreifingu á pósti af þessu taginu. Það eru því auðvitað engin sérstök knýjandi rök fyrir því að færa út þetta einkaréttarsvið. Meiri hluti nefndarinnar taldi eðlilegt að hafa að þessu leytinu svipaðan háttinn á eins og er í dag til viðbótar því að við höldum okkur við þær almennu, skýru skilgreiningar sem frv. gerði ráð fyrir.

Í annan stað voru skilyrði til rekstrarleyfisins samanber 13. gr. frv. gerðar skýrari heldur en frv. gerði ráð fyrir. Á það var bent m.a. í umfjöllun nefndarinnar að textinn eins og hann stendur í frv. gæti þýtt að hægt væri að setja mjög miklar skorður við rekstri á póstdreifingu og póstþjónustu sem væri gjörsamlega vonlaust fyrir aðra að uppfylla en þá sem störfuðu á landsvísu við mjög viðurhlutamikla dreifingarþjónustu og gæti m.a. kveðið á um að aðili sem tæki að sér minni háttar dreifingu væri skyldaður til þess að dreifa pósti fimm daga vikunnar þótt ekki væri sérstakt tilefni til þess. Því var talið nauðsynlegt að breyta skilyrðunum í 13. gr. til samræmis við það sem segir í breytingartillögunum, með leyfi virðulegs forseta:

,,Skilyrði fyrir leyfisveitingu geta verið eitt eða fleiri þar með talið.`` --- Síðan er það talið upp í allmörgum liðum.

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið yfir meginefni þessara frumvarpa og þær breytingartillögur sem meiri hluti samgn. leggur fram. Með þessum breytingartillögum eru ekki gerðar grundvallarbreytingar á frv. Það er haldið stíft við þann anda sem í þessum frumvörpum er, sem er andi frjálsræðis og þess að við þurfum að feta okkur inn á nýtt svið, vegna þess að fjarskiptin eru að taka miklum breytingum með því að einkarétturinn er afnuminn eftir liðlega ár. Það er auðvitað ljóst að þær breytingar eru ekki að gerast jafnhratt á póstþjónustusviðinu þó að þar séu líka miklar breytingar fram undan, m.a. af tæknilegum ástæðum. Þær brtt. sem samgn. er að leggja fram eru eingöngu til þess fallnar að skýra málið og gera að okkar mati lagasetninguna ljósari og betri til þess að vinna eftir í anda þess sem fram kemur í þessum frumvörpum.