Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 17:17:40 (2313)

1996-12-17 17:17:40# 121. lþ. 47.94 fundur 145#B Schengen-samstarfið# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[17:17]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Í þessu samhengi vil ég undirstrika að ég tel Schengen-aðild mikilvæga fyrir stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Það er engum blöðum um það að fletta í mínum huga. Ég hygg að mörgum íslenskum ferðalöngum eigi eftir að bregða mjög alvarlega í brún þegar þeir verða annars flokks ferðamenn við vegabréfa- og tollskoðun í öðrum Evrópuríkjum eftir að Schengen hefur orðið að veruleika. Ég er einnig hræddur um að mörgum eigi eftir að bregða í brún þegar Norðurlandasamningurinn okkar ágæti og samstarf okkar við aðrar Norðurlandaþjóðir verður í uppnámi ef ekki kemur til Schengen-aðildar. Í reynd eru Norðurlöndin án landamæra þegar kemur að vegabréfaskoðun og það er hrygglengjan að sumu leyti í annars ágætu samstarfi Norðurlanda. Ávinningnum af því samstarfi má ekki undir nokkrum kringumstæðum stefna í voða. Það kostar vissulega peninga að gerast aðili að þessu samkomulagi og það veldur auðvitað áhyggjum, ekki síst þegar til þess er litið að Leifsstöð, þessi flugstöð sem byggð var í tíð hægri stjórnar 1983--1987, sömu flokka sem nú fara með stjórn mála, en sú stjórn réðst í þá framkvæmd án þess að hafa nokkra fjármuni undir höndum. Ástandið er þannig í dag að þar hefur ekkert þokast, sömu skuldir eru því sem næst á stöðinni og voru þegar hún var í gagn tekin. Það þrengir okkar svigrúm til þess að fara í annars bráðnauðsynlega stækkun á þessari flugstöð, stækkun sem er líka nauðsynleg þótt ekki kæmi til Schengen-aðildar. Því segi ég, virðulegi forseti, að lyktum að ég tel að að flestu leyti hafi hæstv. ríkisstjórn aldrei þessu vant staðið rétt að málum og farið rétt í þessi mál, hægt en örugglega, og tel engin efni til þess að undir þessum formerkjum sé hrópað úlfur, úlfur.