Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 17:29:35 (2318)

1996-12-17 17:29:35# 121. lþ. 47.94 fundur 145#B Schengen-samstarfið# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[17:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kom með gamalkunnuga ræðu um að þetta snerist sérstaklega um að bjarga norrænu samstarfi en einmitt einn ljótasti leikurinn í sambandi við þetta mál er hvernig jákvæð viðhorf manna til norrænnar samvinnu hafa verið misnotuð til þess að pranga inn á menn aðild að þessu Schengen-fyrirbæri. Þannig var málið vaxið að þegar lagt var upp þá sögðu forsætisráðherrar allra Norðurlandanna: ,,Það verður einn fyrir alla og allir fyrir einn.`` Með öðrum orðum ef ekki næst viðunandi lausn fyrir Ísland, ef Ísland og Noregur kjósa að standa utan við, þá verða hin Norðurlöndin líka utan við og við leysum málin hvað varðar samskipti Norðurlandanna við Evrópu eða Schengen-svæðið öðruvísi. Þetta var fullyrt og menn voru fullvissaðir um að það yrði ekki komið í bakið á einum eða neinum. Og svo á um hálfu ári sneru menn við blaðinu og fóru að melda það í smáskömmtum til Íslands og Noregs að þau yrðu þá bara skilin eftir. Það var að mínu mati virkilega lúalegt hvernig að þessu var staðið og misnotkun á jákvæðum viðhorfum manna til norrænnar samvinnu. Að sjálfsögðu hefðu menn getað farið þá leið í málinu að semja sérstaklega um stöðu norræna svæðisins og án vegabréfaeftirlits við þetta nýja svæði eins og gert er til að mynda gagnvart þeim ríkjum sem ekki eru aðilar að Schengen en tilheyra þó Evrópusambandinu. Á nákvæmlega sama hátt hefðu Evrópusambandsríkin á Norðurlöndum getað leyst sín mál eins og Bretar og Írar o.s.frv.

Ég minni á að þetta verður ekki eingöngu á þá hliðina að menn verði fyrsta flokks ferðamenn og fái að ferðast án vegabréfa því að hluti af þessum pakka er að herða landamæraeftirlitið út á við. Til dæmis munu Íslendingar sjálfir þurfa að sýna vegabréf þegar þeir koma inn í sitt eigið land ef þeir koma frá svæðum utan Schengen og það verður miklu meira eftirlit gagnvart ferðamönnum t.d. frá Ameríku hingað en hefur verið þannig að þetta er langt því frá einhliða jákvætt, eins og sumir virðast halda og ber allt að sama brunni, herra forseti, að það er auðvitað til skammar og vansa hversu litlum upplýsingum hefur verið miðlað um þetta mál og bítur auðvitað höfuðið af skömminni af þessum ljóta hluta þess að leynisamkomulaginu um samstarf leyniþjónustunnar og um njósnirnar hefur verið algerlega haldið utan við alla umræðu. Ég skora á hæstv. ráðherra að svara einhverju um það á eftir.