Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 17:32:21 (2319)

1996-12-17 17:32:21# 121. lþ. 47.94 fundur 145#B Schengen-samstarfið# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[17:32]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan að ég hefði verið óheppinn að nefna fíkniefnavandann í umræðunni. Ég álít að þeir aðilar sem ég vitnaði til, sem eru tollyfirvöld á Keflavíkurflugvelli, viti mun betur um það hvernig best er að haga eftirliti með fíkniefnum um Keflavíkurflugvöll en hv. þm. Þeirra mat er að samtenging tölvukerfa toll- og útlendingaeftirlitsins í þessum löndum muni styrkja þá mjög í öllu eftirlitsstarfi á Keflavíkurflugvelli þannig að mat þeirra er einfaldlega það, hvað sem hv. þm. hefur um það að segja. Könnun og leit í töskum og pökkum sem koma með flugvélum verður óbreytt frá því sem verið hefur þannig að ég skil ekki almennilega hvaðan hv. þm. hefur þessar upplýsingar. Ég tel í rauninni að meðan hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er að tala um óheppni hvað mig varðar, þá hafi hann verið sérstaklega óheppinn að gera lítið úr því vandamáli sem fíkniefnin eru almennt.