Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 17:38:54 (2322)

1996-12-17 17:38:54# 121. lþ. 47.94 fundur 145#B Schengen-samstarfið# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[17:38]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er fróðlegt í þessari umræðu að hlýða á þegar hv. 4. þm. Austurl. upplýsir um niðurstöður í atkvæðagreiðslu í norska Stórþinginu um spurningu sem ekki einu sinni hefur verið lögð fyrir þingið (Gripið fram í.) og er nú býsna athyglisvert hvernig ákvarðanir eru teknar þar á bæ. Ég held að það sé fullkomlega eðlilegt og annað væri órökrétt í þessu samhengi annað en að undirrita þann samning sem Norðurlöndin hafa sameiginlega undirbúið í þessu efni. Síðan kunna þjóðirnar, bæði Norðmenn og Íslendingar, að þurfa að taka afstöðu til þess síðar ef nýjar ákvarðanir verða teknar um þessi efni á vettvangi Evrópusambandsins.

Varðandi fyrirspurn hv. 8. þm. Reykv. um það hvort rætt hefði verið við Flugleiðir í þessu efni, þá hefur það áður verið upplýst í umræðum um þessi efni að farið hafa fram mjög ítarlegar viðræður við Flugleiðir og var alger forsenda af hálfu ríkisstjórnarinnar að það væri unnt að leysa tæknilega öll þau mál varðandi afgreiðslu á farþegum Flugleiða. Að öðrum kosti hefði ekki verið farið í þessa samninga, en fyrir lá að unnt var að leysa þau mál með viðunandi hætti fyrir Flugleiðir.

Hvað varðar þá fullyrðingu hv. 4. þm. Norðurl. e. þá kannast ég ekki við sérstaka leynisamninga á milli leyniþjónusta þeirra ríkja sem hafa slíka starfsemi með höndum og samningamenn Íslands kannast ekki við slíkt. Slíkar stofnanir hafa ekki samkvæmt samningnum aðgang að þessu upplýsingakerfi heldur þar til bærar stofnanir sem um er fjallað í samningnum.