Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 18:13:52 (2326)

1996-12-17 18:13:52# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[18:13]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Í sjálfu sér kemur ræða hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar ekki á óvart. Öðrum þræði fjallaði ræðan um að reyna ætti að draga málið á langinn eftir því sem hægt væri. Það er í samræmi við afstöðu Alþfl. til þessa máls frá upphafi. (Gripið fram í: Hvaða vitleysa.) Í síðustu ríkisstjórn stóð Alþfl. gegn því að Pósti og síma yrði breytt í hlutafélag. Það var yfirlýst stefna Alþfl. fyrir síðustu kosningar að hvorki Pósti og síma né ríkisbönkunum yrði breytt í hlutafélög og á meðan við áttum stjórnarsamstarf, Sjálfstfl. og Alþfl., reyndi Alþfl. með öllum ráðum að tefja fyrir málinu og spilla fyrir því. Það var ekki fyrr en Framsfl. kom í ríkisstjórn í stað Alþfl. sem málið náði fram að ganga. Enda, herra forseti, endurspeglaði ræða hv. þm. andúð hans og ég vil segja ónot út í það að Pósti og síma skuli nú breytt í hlutafélag. Á hinn bóginn hlýt ég að þakka hv. þm. fyrir hversu lofsamlegum orðum hann fór um það hversu miklu umhyggju ég beri fyrir fyrirtækjunum Pósti og síma. Og ég vil þakka honum fyrir að hann skuli treysta mér fyllilega til að sjá hagsmunum Pósts og síma borgið og mun reyna eftir megni að standa þannig að þeim málum að ekki verði hallað á þá stofnun eða það fyrirtæki. Ég hafði raunar talið að það væri skylda allrar ríkisstjórnarinnar og raunar Alþingis einnig og þeirra sem eru kjörnir til trúnaðar fyrir íslensku þjóðina hingað inn á Alþingi að reyna að sjá til þess að sæmilega væri séð fyrir þeim hagsmunum sem þjóðin og Alþingi á í sambandi við Póst og síma og það ætti ekki að vera sérstakt keppikefli okkar eins og hv. þm. komst að orði svo að þær yrðu afskiptalausar um hagsmuni Pósts og síma.