Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 18:18:14 (2328)

1996-12-17 18:18:14# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[18:18]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur verið skýrt hér rækilega áður að sérstök úrskurðarnefnd (GÁS: Þú átt að skipa hana.) mun fjalla um þau málefni Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem talið er að samgrh. geti orðið vanhæfur. Það er alveg rétt að samgrh. á að skipa hana, alveg eins og dómsmrh. t.d. skipar hæstaréttardómara og hefur ekki verið að fundið. Það ætti kannski að biöja Alþfl. um það.

Ég vil jafnframt segja að því gefna tilefni að hv. þm. sagði áðan um starfsmenn Pósts og síma að þeir séu í uppnámi. Hann efndi til sérstakrar utandagskrárumræðu um daginn þar sem ég upplýsti að þau ummæli hans væru úr lausu lofti gripin um að tugir starfsmanna yrðu atvinnulausir, sérstaklega á Austurlandi. Ég upplýsti í þeim umræðum að þetta væri úr lausu lofti gripið. Síðan er þannig brugðist við af hv. þm. að hann endurtekur ósannindin í málgagninu, Alþýðublaðið, endurtekur það sem hann hafði sagt hér í ræðustólnum og hafði ekki einu sinni blaðamaðurinn fyrir því að reyna að kynna sér það hjá póst- og símamálastjóra hvort þingmaðurinn hefði rétt fyrir sér.

Það er náttúrlega alveg sérstakt pólitískt siðferði sem er í því fólgið að stjórnmálaflokkur skuli gefa út málgagn af þessu tagi þar sem endurtekin eru þau ósannindi sem höfð eru uppi í þingsölum þó leiðrétt séu af ráðherrum eða öðrum þingmönnum og satt að segja varla við því að búast að menn telji siðferði slíkra þingmanna eða slíks stjórnmálaflokks upp á marga fiska.