Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 18:20:14 (2329)

1996-12-17 18:20:14# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, Frsm. minni hluta GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[18:20]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að sumir ættu að fara varlega í það að ræða hér um siðferði og um skipanir dómara. Ég held að við eigum ekki að eyða miklum tíma í það. Það kann auðvitað hver þá lexíu og þá sögu eins og hún er. Það skyldi þó aldrei vera nein tilviljun að allir héraðsdómarar og hæstaréttardómarar eru úr tveimur flokkum, flokki hæstv. ráðherra og flokki þeirra framsóknarmanna. Ég hefði ekki nefnt snöru í hengds manns húsi í þeim efnum.

Auðvitað er á því grundvallarmunur þegar um er að ræða úrskurðarnefnd á sama framkvæmdarstiginu og hæstv. ráðherra starfar sjálfur á. ,,Ég get orðið vanhæfur`` voru orð hæstv. ráðherra. Já, hann getur orðið vanhæfur. En samt er honum gert það að skipa þessa úrskurðarnefnd þó einn fulltrúi í henni sé sérstakur umboðsmaður hans sjálfs. Tengingin er fullkomlega augljós og fyrirliggjandi og á hvert barn að skilja það, virðulegi forseti, hver tenging er þarna á milli.

Hvað varðar stöðu starfsmanna Pósts og síma, þá hygg ég að það sé býsna sniðugt og klókt fyrir hæstv. ráðherra að taka ekki stórt upp í sig í þeim efnum. Hann hefur gullið tækifæri til þess á næstu vikum og mánuðum þegar hann setur saman skýrslu sína sem við þingmenn jafnaðarmanna höfum óskað eftir og fjallar einmitt um stöðu starfsmanna Póst- og símamálastofnunar og síðan Pósts og síma hf. Við skulum sjá þá, virðulegi forseti, hvor hefur rétt fyrir sér, hvort það sé himinlifandi lukka nú í jólamánuðinum hjá þessum hundruðum og þúsundum starfsmanna Póst- og símamálastofnunar með framgang mála, hvort þeir séu nú allir kátir og glaðir, sem hefur verið ýtt út um hliðardyrnar með starfslokasamningum, eða boðið upp á ný störf, hér og þar á landinu jafnvel. Við skulum gæta að því og gera síðan upp sakir þegar umræða um þá skýrslu fer fram, virðulegi forseti, þegar hæstv. ráðherra hefur barið saman einhver svör við þeim lykilspurningum sem þar á brenna. Við skulum sjá hver stendur uppi sem sigurvegari í þeim orðaræðum.