Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 18:22:52 (2330)

1996-12-17 18:22:52# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[18:22]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni um að enn er margt óljóst varðandi starfsmannahald, réttindi og kjör starfsmanna. Ég mun ekki gera það að umræðuefni núna en að sjálfsögðu fylgjast grannt með framvindu mála.

Það sem hér er til umræðu eru þrjú lagafrumvörp sem öll tengjast þeirri breytingu sem ákveðin var sl. vor á Pósti og síma, að gera þá stofnun að hlutafélagi. Í fyrsta lagi er um að ræða frv. til laga um fjarskipti þar sem lögbundinn einkaréttur Pósts og síma er afnuminn, en einnig settar um það reglur hvernig samkeppni skuli hagað á þessu sviði. Þá er um að ræða frv. til laga um póstþjónustu þar sem brugðist er við þessum sömu breytingum á rekstrarformi Pósts og síma og í þriðja lagi er um að ræða frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun sem á að fylgjast með því að þær reglur sem settar eru í hinum frumvörpunum verði virtar.

Það sem vekur fyrst athygli er að öll umfjöllun um þessi mál er að færast úr þeim farvegi þar sem menn ræddu fyrst og fremst um þjónustu við notendur yfir í umræðu um viðskipti. Það er athyglisvert að skoða hverjir hafa verið kvaddir til fundar hjá samgn. til að segja álit sitt á málum, t.d. um póstþjónustu. Þar koma fulltrúar frá samkeppnisaðilum, þar koma fulltrúar frá Pósti og síma hf., frá Interneti á Íslandi hf., Póstdreifingunni ehf. og síðan eru að sjálfsögðu kvaddir til fundar fulltrúar Verslunarráðsins. Þetta finnst mér segja ákveðna sögu og þá ekki síður hitt hverjir ekki eru kvaddir til fundar. Það koma engir fulltrúar almannavalds aðrir en að sjálfsögðu hv. þingmenn sem eru í nefndinni, en ekki t.d. fulltrúar sveitarfélaga til þess að fjalla um þá þjónustu sem um er að tefla, póstdreifingu á landinu. Þetta er fyrsta atriðið sem mig langaði til að benda á.

Annað sem ég vildi nefna er í ætt við það sem krakkarnir segja stundum: Við sögðum ykkur það. Það sem er að gerast með þessari lagasmíð er nákvæmlega það sem spáð var fyrir um sl. vor við umræðu um hlutafélagavæðingu Pósts og síma. Þá var bent á það að alls staðar þar sem farið væri út á þessa braut þá sprytti upp nýr iðnaður, eftirlitsiðnaður, nýjar stofnanir, eftirlitsstofnanir. Hér er ein slík stofnun að líta dagsins ljós. Póst- og fjarskiptastofnun skal hún heita. Samkvæmt fyrstu fjárlögum sem hún á að starfa eftir er ætlað til hennar 58 millj. kr. Í umsögn um frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun kemur þetta einmitt fram en einnig hitt að ætla megi að kostnaður vegna reglubundinnar starfsemi stofnunarinnar verði 85--87 millj. kr.

Nú er það samviskusamlega tíundað að sjálfsögðu í greinargerð fjmrn. að það verði fyrirtækin sem komi til með að standa straum af þessum kostnaði. En auðvitað vitum við öll að þegar upp er staðið, þá verður það að sjálfsögðu notandinn sem borgar brúsann. Þetta er mjög í sömu veru og við höfum séð í Bretlandi. Þar eru óteljandi stofnanir með heiti á borð við ,,oftel`` og of þetta og of hitt. Það eru eftirlitsstofnanirnar með hinni einkavæddu starfsemi. Hér eru líka að líta dagsins ljós alls kyns nefndir, ráð, jöfnunarsjóðir og tilfæringarsjóðir margvíslegir til þess að hafa eftirlit með öllu hagræðinu, eða allri samkeppninni. Og það dugar ekki minna náttúrlega en að Hæstiréttur skipi í allar þessar nefndir, verkfræðingafélög og hinir og þessir aðilar, til þess að hafa eftirlit með öllu hagræðinu.

Í 4. gr. í frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun segir, með leyfi forseta: ,,Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með starfsemi leyfishafa. Með leyfishöfum í lögum þessum er átt við þá aðila sem hafa rekstrarleyfi til fjarskiptaþjónustu og þá sem rekstrarleyfi hafa eða eru skráningarskyldir samkvæmt lögum um póstþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun er jafnframt heimilt að hafa eftirlit með fjárhagsstöðu leyfishafa.``

Í 3. gr. þessa sama frv. eru rækilega tíunduð verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar. Það er að gefa út öll leyfin, að setja margvíslegar reglur og í 7. lið segir: ,,Að hafa eftirlit með viðskiptaskilmálum leyfishafa, gjaldskrám og bókhaldi, þar sem það á við.`` Það er þetta sem hefur gerst þar sem þessar risavöxnu einokunarstofnanir hafa verið einkavæddar, eins og það hefur verið kallað, að þegar allt kemur til alls, hafa þær ekki ráðið við samkeppnina betur en svo að setja hefur þurft á fót sérstakar eftirlitsstofnanir til þess að hafa eftirlit með verðlaginu einnig. Hér er þetta að gerast líka. Hér á eftirlitsstofnun að hafa eftirlit með gjaldskrám þessara stofnana. Með öðrum orðum hafa þeir sem trúðu því að kostirnir við einkavæðingu eða breytingu á stofnuninni í hlutafélag væru einmitt markaðskostirnir, samkeppnin, verið í blekkingu vegna þess að auðvitað á ekkert að keppa. Þessi einkavæðingarárátta á sér allt aðrar orsakir. Þetta er þrýstingur sem kemur frá fyrirtækjum og fjárhagsaðilum um að komast á spenann hjá þessari starfsemi. Það eru hinar raunverulegu ástæður fyrir því að almannaþjónusta um heim allan er einkavædd, það er ástæðan. Það hefur aldrei verið markmiðið að nýta kosti markaðarins, það hefur aldrei staðið til, það hefur aldrei átt að gera það, enda kemur á daginn að þegar eftirlitsstofnunin er sett á fót, þá á hún að hafa eftirlit með öllu því sem markaðurinn gerir alla jafna. Það er mergurinn málsins.

[18:30]

Nú fer því fjarri að ég sé að mæla gegn því að haft sé eftirlit með gjaldskránni. Ég er ekki að gera það. Ég er einvörðungu að sýna fram á þær mótsagnir sem menn gerðu grein fyrir við umræðu um hlutafjárvæðingu Pósts og síma sl. vor. Allt saman er þetta að koma á daginn. Ég ítreka að ég er síður en svo að mæla gegn því að eftirlit sé haft með gjaldskránni.

Ég minnist þess að þegar þessi mál voru til umræðu sl. vor hafi stjórnvöld fullyrt að þeir sem kæmu til með að sinna þessari þjónustu, og þá er ég bæði að tala um símþjónustu og póstþjónustu, yrðu að vera í stakk búnir til að sinna landinu öllu vegna þess að menn sáu fram á það, bæði varðandi fjarskiptaþjónustuna og einnig varðandi póstþjónustuna, að tilteknir aðilar mundu velja úr þau svæði sem hagstæðast væri að þjóna, t.d. póstinn á Reykjavíkursvæðinu eða fjarskiptaþjónustu þar sem auðvelt væri að sinna henni, en láta skattborgarann um aðra hluta landsins og aðra landsmenn. Þá vildu menn fremur búa svo um hnútana að hagnaðinum af þessari starfsemi á þéttbýlustu svæðunum yrði varið til að niðurgreiða þjónustu við aðra landsmenn. Nú kemur hins vegar á daginn að þessar fullyrðingar um að svo yrði staðið að málum munu alla vega ekki eiga stoð í lögum. Það er að vísu ekkert sem mælir gegn því þar að þessi háttur verði hafður á, en þetta er alla vega ekki lögbundið.

Í b-lið 6. gr. í frv. til laga um fjarskipti segir t.d., með leyfi forseta, þar sem rætt er um skilyrði fyrir rekstrarleyfisveitingum að rekstrarleyfishafi veiti þá þjónustu sem leyfið nær til á öllu landinu eða á tilteknum landsvæðum og hún nái til tiltekins hluta landsmanna innan tímamarka sem Póst- og fjarskiptastofnun ákveður. Með öðrum orðum er ekki verið að gera það að skilyrði að þjónustan nái til landsins alls.

Sama kemur fram í frv. til laga um póstþjónustu. Þar segir í 11. gr. að samgrh. sé heimilt að mæla fyrir um það í reglugerð að einstakir þættir grunnþjónustu skuli undanþegnir rekstrarleyfi. Ég fæ ekki betur séð en þarna sé opnað á heimild til ráðherra til þess að veita leyfi til samkeppni, t.d. í póstdreifingu, sem ég fyrir mitt leyti hef mjög miklar efasemdir um nema í undantekningartilvikum sem kunna að vera uppi en sem almenna reglu að láta fyrirtæki taka arðinn af póstdreifingunni, þar sem hún er auðveldust á þéttbýlissvæðinu, en láta síðan skattborgarana um að greiða fyrir póstdreifinguna á landsbyggðinni finnst mér ekki góð og ekki heppileg hagfræði og ekki heppileg pólitík og ekki heppileg stefna. Mér finnst þetta ganga þvert á það sem hér var rætt sl. vor þegar þessi mál voru til umfjöllunar og vildi gjarnan fá skýringar hæstv. ráðherra eða hv. formanns samgn. um þessi efni, um þær yfirlýsingar sem gefnar voru hér sl. vor þess efnis að það yrði skilyrt að þjónustan tæki til landsmanna allra og þá er ég bæði að tala um póstdreifinguna, fjarskiptaþjónustuna og símaþjónustuna.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða mjög um þessi frumvörp. Þau eru að mörgu leyti rökrétt framhald af því sem gerðist sl. vor. Ég sé á þessum málum ýmsa agnúa og ég vil taka undir þá gagnrýni sem hér kom fram varðandi ýmsa þætti eftirlitsins af hálfu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar. Ég er ekki sammála honum um alla þætti, t.d. varðandi póstdreifinguna. Ég er ekki sammála 1. minni hluta um það atriði eins og hefur komið fram í mínu máli en vek enn og aftur athygli á því að hér er farinn að blómstra undir handarjaðri þeirra sem kenna sig við frjálsa samkeppni nýr, ríkisrekinn eftirlitsiðnaður. Það er blekking þegar sagt er að það verði ekki notandinn eða skattborgarinn, landsmenn allir, sem verði látnir standa straum af kostnaði við þá starfsemi því að að sjálfsögðu þurfum við öll, landsmenn allir, að borga þann brúsa.