Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 18:40:39 (2331)

1996-12-17 18:40:39# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[18:40]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þau þrjú frumvörp sem hér eru til umfjöllunar, frv. um Póst- og fjarskiptastofnun, frv. um fjarskipti og frv. um póstþjónustu, eru í beinu framhaldi af lagasetningunni um að breyta Pósti og síma í hlutafélag sem við stóðum að í vor og einnig í beinu framhaldi af þeim breytingum sem eru fram undan í fjarskiptaumhverfi okkar 1. janúar 1998, en eins og menn vita gengumst við undir reglur Evrópusambandsins þegar við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og verðum því að hlíta þeim reglum sem þar gilda.

Frsm. minni hluta samgn. hefur gert mjög vel grein fyrir áliti okkar í minni hluta samgn. á þessum breytingum. Það er ekki meiningin að tefja þetta mál á nokkurn hátt, en það hefur komið fram að við teljum að í þessum frumvörpum sé ýmsu ábótavant og ýmsir þættir sem þyrfti að að skoða nánar.

Mig langar aðeins að byrja á því að minnast á frv. um Póst- og fjarskiptastofnun. Þar höfum við gagnrýnt hvernig staða samgrh. er gagnvart þeirri stofnun sem hér á að setja á laggirnar, Póst- og fjarskiptastofnun, sérstaklega með tilliti til þess að hann er æðsti yfirmaður Pósts og síma sem mun einnig heyra undir eftirlit þessarar stofnunar. Það sem við höfum gagnrýnt er að samgrh. er æðsti yfirmaður þessarar stofnunar. Hann skipar forstöðumann og er þá beinn yfirmaður æðsta yfirmanns þessarar stofnunar, hann skipar úrskurðarnefnd þá sem tekur til umfjöllunar kærur vegna ákvarðana og úrskurða Póst- og fjarskiptastofnunar. Reyndar eru tilnefndir tveir af þremur nefndarmönnum, einn frá Hæstarétti og annar frá stjórn Verkfræðingafélagsins en þriðji nefndarmaðurinn ásamt varamanni er skipaður af samgrh. sjálfum. Einnig hefur samgrh. allvíðtækt vald með því að hann hefur reglugerðarvaldið hvað varðar starfsemi þessarar óháðu stofnunar, Póst- og fjarskiptastofnunar.

Einnig kemur fram í 9. gr. frv. að samgrh. skuli setja gjaldskrá fyrir ýmsa þjónustu Póst- og fjarskiptastofnunar þannig að það er spurning hvort það samrýmist stjórnsýslulögum að samgrh. skuli fara með svona mikil völd þar sem hann er eini handhafi þessa eina hlutabréfs Pósts og síma. (Gripið fram í.) Þetta hlutabréf? Hæstv. samgrh. er kannski með það á sér.

[18:45]

Það er spurning hvort þessi stofnun sé þá nógu sjálfstæð því í tilskipun ESB á sviði fjarskipta og póstmála eru mjög skýr ákvæði um sjálfstæði úrskurðar- og eftirlitsaðila stofnana eins og þessarar.

Það kom fram í máli hv. formanns samgn. að úthlutunarreglur og allar reglur um þessa stofnun þyrftu að vera skýrar en við gagnrýnum það hér í okkar minnihlutaáliti að því miður virðast okkur þessar reglur ekki vera nógu skýrar. Einnig gagnrýnum við hvernig staðið er að eftirliti stofnunarinnar. Það kom fram hjá þeim sem sendu umsagnir um þessi frv. að þeir teldu óeðlilegt að eftirlitsaðilar gætu komið inn í húsakynni leyfishafa og krafist þar ýmissa upplýsinga og gætu komið án þess að gera boð á undan sér. Samkvæmt þessum lögum getur eftirlitsstofnunin krafist þess að leyfishafar láti stofnuninni í té ársreikninga, milliuppgjör, yfirlýsingar endurskoðanda og aðrar sambærilegar upplýsingar, telji Póst- og fjarskiptastofnunin að fjárhagsstaða leyfishafa sé slík að þeir geti ekki staðið við þær skyldur sem getið er um í rekstrarleyfinu.

Þessi gagnrýni okkar kemur mjög skýrt fram hér í minnihlutaáliti frá eokkur. Óskum við eftir að þetta mál komi aftur fyrir samgn. og farið verði betur yfir þessa þætti. Það liggur ekki svo á að afgreiða þessi mál að ekki sé hægt að fara yfir þá þætti sem hafa verið gagnrýndir og að við stöndum betur að þessari lagasetningu heldur en núverandi frv., með þeim breytingum sem meiri hlutinn hefur lagt fram, gerir ráð fyrir.

Ég held að ég sé ekki að lengja mjög þessa umræðu en ætla aðeins að minnast hér á frv. um fjarskiptin. Þar kemur fram m.a. í brtt. sem lögð var til hér við lokaafgreiðslu í nefndinni að það skuli vera sama verð á öllu landinu. Hún kemur í framhaldi af því að við í minni hluta samgn. lögðum fram í vor brtt. þar sem við lögðum til að sama gjaldskrá gilti fyrir allt landið um símtöl. Sú tillaga var felld en meiri hluti nefndarinnar kom með aðra tillögu þar sem lagt var til á sama hátt að sama gjald yrði tekið fyrir símtöl á öllu landinu en það skyldi ekki taka gildi fyrr en síðar. Við í minni hlutanum stóðum að þeirri tillögu og hún var samþykkt. Nú er tillagan komin hér inn í þessa lagasmíð en samkvæmt þeim umsögnum sem við höfum fengið frá ýmsum aðilum, m.a. samkeppnisráði og ég held fleirum, þá telja menn að það sé e.t.v. ekki unnt að standa við þetta vegna þess að það stangist á við samkeppnislög. En ég ætla nú að vona engu að síður að það verði hægt því þetta er jú vilji þingsins. En við bentum á það þegar við mæltum fyrir brtt. okkar hér í vor að það væru líkur á því, ef beðið yrði með þetta þangað til að rekstrarumhverfi í fjarskiptum yrði breytt eftir 1. janúar 1998, að okkur yrði ekki heimilt að breyta þessu. En það verður að koma í ljós. Við skulum sjá hvað setur.

Ég held að svo sé um fleira í þessum lögum, ég gæti trúað að menn þurfi að taka ýmsa þætti upp aftur og breyta ýmsu í þessum lögum áður en þetta rekstrarumhverfi breytist 1. jan. 1998.

Ég held að ég sé ekki að lengja þessa umræðu frekar en ítreka þá gagnrýni sem við höfum lagt fram hér í nál. okkar. Mig langar til að minnast á það vegna laga um póstþjónustu að það kom fram hjá Póstdreifingu, en umsögn póstdreifingarfyrirtækisins fylgir með nál. okkar hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni og þar kom fram í umsögn að það væru atriði í frv. sem gætu gert litlum fyrirtækjum erfitt að starfa við póstdreifingu en eins og menn vita eru fyrirtæki nú þegar í samkeppni við Póst og síma í þessum málaflokki.

Ég vil ítreka þá ósk okkar í minni hlutanum að farið verði betur yfir þessa þætti og málið skoðað betur. Það verði ekki flanað að neinu við þessa lagasetningu og að við fáum málin aftur inn í samgn. til að skoða betur ýmsa þætti málsins.