Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 21:40:52 (2334)

1996-12-17 21:40:52# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, Frsm. minni hluta GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[21:40]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var kúnstug ræða um margt og mótsagnakennd. Hv. þm. hóf hana á því að lýsa aðdáun sinni á Póst- og símamálastofnun til margra ára. Hann vitnaði sérstaklega til ferðar sinnar til Norðurlandanna í því sambandi hversu mjög yfirmenn póst- og símamálastofnana þar í löndum hefðu lokið miklu lofsorði á uppbyggingu og verðskrárpólitík Póst- og símamálastofnunar. Hann leiddi síðan af því nauðsyn þess að hlutafélagavæða fyrirtækið. Ég fékk ekkert samhengi í þetta, bara nákvæmlega ekki neitt. Vonandi getur hv. þm. fengið samhengi í þetta tvennt.

Í öðru lagi kom hv. þm. inn á að ekki hefðu sérstaklega margar athugasemdir heyrst við umfjöllun málsins í samgn. en bætti síðan jafnharðan við að hann væri sammála ýmsum þeim ábendingum sem fram hefðu komið af hálfu minni hluta nefndarinnar í nál. og umræðum um þessi mál hér. Enda væri það þannig, eins og hann orðaði það, að það þyrfti væntanlega að endurskoða þessi lög á hverju ári. Menn gætu strax í upphafi nýs árs farið að undirbúa endurskoðun þessara laga sem menn ætla að festa í lög á næstu dögum. Ekki er nú mikil trú hv. þm. á eigin verkum í þessum hópi meiri hluta samgn. og væri líka fróðlegt að hann gerði okkur grein fyrir samhengi þessara hluta sem ég fæ ekki til að ganga upp.

Auðvitað er staðreyndin sú að þegar við erum að reyna að gera tiltölulega ítarlega rammalöggjöf fyrir framtíðina þá gerum við ekki út á það að við endurmetum hana á hverju ári. Það kann að koma til þess en vissulega er affarasælla að gera það nú þegar þegar á það hefur verið bent með gildum rökum að í þessari löggjöf eru slík göt að ekki er unnt að skilja við málið með þeim hætti sem hér um ræðir.

Í bláendann spyr ég hv. þm. hreint út: Hver er þörfin á því að lögfesta þessi frv. 1. janúar nk.? Hver er hin brýna þörf í þeim efnum? Það hefur ekki komið fram í þessum umræðum.