Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 21:43:18 (2335)

1996-12-17 21:43:18# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[21:43]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sá ástæðu til að tala vel um Póst og síma sem stofnun en er í sjálfu sér ekki að tengja það við neitt annað en það hversu gott starfsfólk er þarna og tilbúið í rauninni í þær breytingar sem eru nauðsynlegar þegar við lítum á allt sviðið, þegar við lítum á þær breytingar sem eru að verða á fjarskiptasviðinu, viðskiptasviðinu og almennt. Sú breyting hefur átt sér stað á Norðurlöndum eins og ég þarf ekki að endurtaka fyrir hv. þm. Ég sá út af fyrir sig ekkert misræmi í því.

Þegar ég tala um að ekki sé mikið um athugasemdir þá vil ég benda á álit minni hlutans þar sem í rauninni eru ekki gerðar neinar athugasemdir við þetta frv. aðrar en þær að best væri að draga löggildingu frv. fram á næsta ár. Að öðru leyti gerið þið, hv. minnihlutamenn, ekki miklar athugasemdir við þetta frv. Nema þá eins og ég talaði um varðandi þá stofnun sem er kölluð úrskurðarnefnd. Ég held að mér sé óhætt að segja að þá sé að mestu leyti upp talið.

Að öðru leyti snerist ræða hv. þm. um starfsmannamál að miklum hluta til sem ekki var út af fyrir sig á dagskrá. Þess vegna minntist ég aðeins á það hér áðan.

Ég ræddi það aðeins áðan hvers vegna ég teldi að það væri nauðsynlegt að ljúka þessari lagasetningu strax en draga það ekki fram á haust. Það væri fyrst og fremst vegna þess að við erum að sjá fram á það að samkeppnin sé að skella á og við erum komnir með Póst og síma sem hlutafélag. Þess vegna þurfa þessar stofnanir að þroskast saman.