Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 21:48:59 (2338)

1996-12-17 21:48:59# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[21:48]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vakti máls á nokkrum atriðum í ræðu minni fyrr í kvöld sem ég tel brýnt að fá svör við frá talsmönnum ríkisstjórnarinnar, hæstv. ráðherra eða hv. formanni samgn. En áður en ég kem að þessum efnisatriðum aftur langar mig til að fara örfáum orðum um það sem hv. þm. Kristján Pálsson sagði áðan um starfsmannamál. Hann sagði að talað hefði verið um það sl. vor að frá lífeyrismálum yrði gengið þannig að réttindi manna yrðu á engan hátt skert og það sem lögin ekki heimiluðu, um það yrði samið. Ég vil aðeins upplýsa það hér og nú að frá þessum málum hefur ekki verið gengið enn á þann hátt sem hv. þm. nefndi en frá samningum hefur yfir höfuð ekki verið gengið þannig að það á enn eftir að koma á daginn hver niðurstaðan verður í þeim málum. En ég geri ekki annað en að fagna þessari afstöðu hv. þm. því það kann að reyna á hana í verki síðar.

Annað í máli hans vil ég leyfa mér að gagnrýna nokkuð. Hann vék að ferð þingmanna fyrir réttu ári þegar þingmenn sem eiga sæti í samgn. fóru til Noregs og Danmerkur til að kynna sér rekstur pósts og síma á Norðurlöndum. Hv. þm. sagði að allir þeir sem íslensku þingmennirnir hefðu hitt að máli hefðu verið sammála um að óhjákvæmilegt væri að stíga það skref sem síðar var stigið, þ.e. að breyta Pósti og síma í hlutafélag. Ég vil aðeins halda því til haga, á sama hátt og ég gerði við umræðuna sl. vor, að þeir sem þingmennirnir hittu í þessari för voru einvörðungu æðstu stjórnendur þeirra sömu stofnana sem voru mjög eindregið á þessari skoðun, á hinni pólitísku skoðun. Vegna þess að hér erum við að tala fyrst og fremst um pólitík. Við erum að tala um stjórnmálastefnu. Og það var athyglisvert að hlýða á mál lagaprófessors sem var hér á landi yfir helgina og hélt mjög fróðlegt erindi í gærmorgun um einkavæðingu á Nýja-Sjálandi og víða um lönd en í hennar máli kom einmitt fram að einkavæðingin byggðist fyrst og síðast á því að stjórnmálamenn væru að reyna að laga heiminn að sinni hugmyndafræði. Að sinni hægrisinnuðu hugmyndafræði.

Í því sambandi langar mig til að vitna í bréf sem hv. þm. hefur borist frá ungum hægrisinnum á Íslandi. Þeir skrifuðu nefnilega þingmönnum bréf, þar á meðal hæstv. samgrh., Halldóri Blöndal, og þeir eru að segja okkur hvernig við getum glatt litlu börnin fyrir jólin. Þeir eru að skrifa hæstv. samgrh. og benda honum á hvernig hann getur glatt litlu börnin. ,,Þessa dagana`` segja heimdellingar í bréfi til hv. þm. og þar á meðal Halldórs Blöndals samgrh. með leyfi forseta, svo ég vitni í þetta bréf ,,eru litlu börnin skiljanlega farin að hlakka til jólanna. Jólasveinarnir eru að tínast til byggða og heimilið og umhverfið allt tekur á sig jólalegan blæ. Öll viljum við gleðja börnin um jólin og færa þeim góðar gjafir. Besta jólagjöfin sem hægt er að færa börnunum í þessu landi er björt framtíð.`` Og hvað vilja ungu heimdellingarnir að hæstv. samgrh. og aðrir þm. færi litlu börnunum og landsmönnum öllum og framtíðinni í jólagjöf? Jú, þeir senda hæstv. samgrh. pappahönd Heimdallar til aðstoðar við atkvæðagreiðslu og svo ég vitni orðrétt í þetta bréf: ,,Við hvetjum þig til að segja nei við auknum ríkisumsvifum, hærri ríkisútgjöldum og fjárlögum með halla. Á sama hátt hvetjum við þig til að segja já við minni ríkisumsvifum, lægri ríkisútgjöldum og hallalausum fjárlögum.`` Svo mörg voru þau orð. (Gripið fram í: Er eitthvað fleira?) Þetta er óskaplega einfaldur heimur.

En það sem mér verður umhugsunarefni er hvort sú stefna sem hæstv. samgrh. og ríkisstjórnin öll fylgir þessi missirin er í raun í þessum anda. Við erum að tala um stofnun, Póst og síma, sem gaf ríkissjóði, skattborgurunum, á annan milljarð króna á hverju ári. Hvert verða þessir peningar sóttir þegar fram líða stundir? Þeir verða sóttir ofan í vasa skattborgarans nema menn ætli að auka hallann á fjárlögum. Og hafa menn velt því fyrir sér hvaða afleiðingar þessi einkavæðingarstefna ríkisstjórnarinnar hefur haft? Lyfjaverslun ríkisins, svo eitt dæmi sé tekið, gaf ríkissjóði um 30 millj. kr. á ári hverju. Hvernig voru þessir peningar notaðir? Þeir voru t.d. notaðir í bólusetningar fyrir fullorðið fólk. Það er áfram verið að bólusetja fullorðið fólk. Hvernig er það fjármagnað? Að sjálfsögðu með skattpeningum. Hvernig öðruvísi? Eru menn virkilega svo blindir að trúa því að einkavæðingarstefnan leiði til minni halla á fjárlögum? Hún gerir það alls ekki.

En það er ekki nóg með það að einkavæðingin hafi þær afleiðingar í för með sér að fjárstreymi til ríkissjóðs verði minna heldur er núna verið að boða stofnun rándýrra stofnana til þess að hafa eftirlit með einkavæðingunni. Nú er farinn að bólgna út hér á landi sá iðnaður sem hefur hvað best rekið sig í Bretlandi og öðrum einkavæðingarlöndum, þ.e. eftirlitsiðnaðurinn. Og hvað skyldi Póst- og fjarskiptastofnun eiga að gera? Hvað skyldi hún eiga að gera? Hér er talið upp í 17 liðum verkefni sem Póst- og fjarskiptastofnun á að sinna. Og fyrir hvað mikla peninga? Jú, það kemur fram í umsögn um frv. frá fjmrn. 58 millj. kr. á þessu ári, 85--87 millj. kr. á ári er reiknað með eða trúir því einhver að þeir peningar muni duga til? Trúir því einhver? Til að gera hvað? Jú, til að gefa út og veita leyfi til fjarskipta og póstþjónustu samkvæmt lögum um fjarskipti og lögum um póstþjónustu. Að hafa eftirlit með því að leyfishafar uppfylli og virði þau skilyrði og aðrar kvaðir sem rekstrarleyfunum fylgja. Að hafa eftirlit með því að ákvæði laga um fjarskipti og laga um póstþjónustu, auk reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim, séu virt. Að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og ráðuneyti á sviði fjarskipta- og póstmála og hafa eftirlit með því að Ísland uppfylli á hverjum tíma þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í alþjóðlegum samningum á sviði fjarskipta- og póstmála. Að gera áætlanir um notkun tíðnirófsins í samræmi við alþjóðlegar reglur og úthluta tíðnum til einstakra leyfishafa og fyrir mismunandi þjónustu, þar með talið útvarpsþjónustu. Að setja reglur um tæknilega eiginleika kapalkerfa og hafa eftirlit með því að þeim sé framfylgt. Að hafa eftirlit með viðskiptaskilmálum leyfishafa, gjaldskrám og bókhaldi, þar sem það á við. Ég er ekki hálfnaður. Ég er ekki hálfnaður að lesa upp þau verkefni sem þessi stofnun á að sinna. En ég stoppa við síðasta atriðið sem ég nefndi. Að hafa eftirlit með viðskiptaskilmálum leyfishafa, gjaldskrám og bókhaldi. Hver skyldi nú verða niðurstaðan í þessu þegar fram líða stundir? Hvað skyldi nú gerast í þessu efni þegar fram líða stundir?

[22:00]

Ég vitnaði áðan í fræðimann sem kom hingað frá Nýja-Sjálandi og flutti mjög fróðlegt erindi á opnum fundi á Hótel Loftleiðum í gær. Eitt af því sem þessi fræðimaður, Jane Kelsey, sem er lagaprófessor frá Auckland á Nýja-Sjálandi, sagði, var að þegar kæmi að því að hafa eftirlit með heilbrigðiskerfinu á Nýja-Sjálandi, sem að sjálfsögðu er búið að einkavæða og gera að sjálfstæðu fyrirtæki á þjónustusamningum við ríkið, þá væri ekki lengur hægt að hafa eftirlit með og aðgang að þessu sama bókhaldi. Hvers vegna? Og ég vitna, með leyfi forseta, í viðtal í Morgunblaðinu í dag við þennan sama lagaprófessor, dr. Jane Kelsey. Í viðtalsgreininni segir:

,,Í umræðum á eftir sagði hún [og er þá vísað til Jane Kelsey] m.a. að erfitt væri að meta áhrif sem breytt skipulag á rekstri heilbrigðiskerfisins hefði haft í för með sér, mikilvægar tölulegar upplýsingar væru ekki aðgengilegar þar sem þær gætu verið viðskiptaleyndarmál. Stofnanirnar eru reknar á grundvelli einkafyrirtækis.``

Þetta er næsti bær við. Við erum að stefna þangað.

Að vísu er það lögbundið hér að hinn opinberi eftirlitsaðili eigi að geta haft aðgang að bókhaldinu og ekki bara það því í 5. gr. frv. um Póst- og fjarskiptastofnun segir, með leyfi forseta:

,,Til að framfylgja eftirlitsskyldu sinni samkvæmt lögum þessum er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt, án sérstakrar tilkynningar eða dómsúrskurðar, að fara eftirlitsferðir í húsakynni leyfishafa.``

Það er heimilað að gera húsleit. Hvert erum við eiginlega komin? Var ekki verið að opna á aukna samkeppni? Átti ekki að keppa um verðlag? Átti ekki að keppa um verð? Átti ekki að bæta þjónustuna? Það sem við erum að koma hér upp með eru sovéskar eftirlitsstofnanir. Þetta er sovéskt kerfi. Þetta er hluti af kerfi sem menn hafa verið að leggja af. En þetta er hin nýja Evrópa. Þetta er Evrópa Evrópustaðlanna. Enda þarf ekki að lesa lengi í greinargerðum með þessu frv. til að sjá að að hluta til eru þeir að hlíta Evrópustöðlum, kvöðum sem EES og Evrópa leggur á okkur. En þeir eru líka að gera eins og allir hinir, eins og Kristján Pálsson, hv. þm., sagði áðan. Við erum að gera eins og allir hinir. Það er óhjákvæmilegt að aðlaga íslenskan veruleika frjálshyggjuhugmyndafræðinni. Og svo láta allir teyma sig áfram og búa til eftirlitsbáknin sem geta ætt inn í fyrirtækin og gert þar húsleit til að vita hve mikið er svindlað hverju sinni. Ég hélt að menn hefðu lagt upp í allt aðra för í upphafi. Menn alla vega sögðu þjóðinni að þeir væru að gera þetta til að efla samkeppni á sviði fjarskiptamála. Það var okkur sagt. Við sem vissum hvert stefndi, við sem þekktum þennan veruleika og höfum kynnt okkur hann bentum á að þetta yrði niðurstaðan, að sjálfsögðu yrði þetta niðurstaðan.

Eins og ég gat um áðan er mjög fróðlegt að fylgjast með þessari umræðu allri, að fylgjast með því hvernig þessi umræða hefur öll smám saman verið að taka breytingum. Skref fyrir skref og stig fyrir stig hefur hún verið að taka breytingum. Smám saman hætta menn að tala um þjónustu við notandann, símaþjónustu, póstþjónustu og við erum farin að ræða bissniss. Og í þeim anda og samkvæmt þeirri hugsun er náttúrlega ekki einu sinni kallað á Neytendasamtökin, ekki Samband íslenskra sveitarfélaga, ekki Samband sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, sem núna er að mótmæla öðru einkavæðingarruglinu sem er að koma frá hæstv. ríkisstjórn, á Rafmagnseftirliti ríkisins, eða Samband sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, sem er að koma með sams konar mótmæli, eða Samband íslenskra sveitarfélaga sem var að senda frá sér erindi þess efnis í dag um Rafmagnseftirlit ríkisins. Nei, það er ekki kallað á þessa aðila. Það er kallað á fulltrúa Verslunarráðsins. Þeir koma í stórum spyrðum á hvern fund, tjá sig og úttala sig um hvað þurfi að gera fyrir viðskiptin. En hvers konar viðskiptasjónarmið eru þetta eiginlega? Hversu smá hugsun er hér eiginlega á ferðinni, að það eina sem menn sjá bitastætt í íslensku efnahagslífi er það sem þjóðin hefur þegar búið til og þurfa að reyna komast yfir þá eign? Þess vegna var meiri hluti þingsins að samþykkja í fjáraukalögum aukið framlag til einkavæðingarmannanna sem eru að vinna fyrir hæstv. forsrh. og þeir eru að skáka þeim verkefnum á milli ráðuneyta. Þar erum við að tala um milljónir króna til að halda áfram á sömu braut.

En þær spurningar sem ég vildi fá svör við frá hinum áköfu lýðræðissinnum sem fylla sali hæstv. Alþingis úr liði ríkisstjórnarinnar --- ég sé nú ekki einn einasta en salurinn er hins vegar vel skipaður stjórnarandstæðingum. (Gripið fram í: Forseti er við skyldustörf.) Forseti er við skyldustörf. Ég skilgreini nú menn eins og mér líkar. Þó ég efist ekki um að hæstv. forseti standi með sinni ríkisstjórn þá er ég jafnsannfærður um það að þar á bæ eru ekki allir jafnsáttir við allt sem menn eru að gera, sem betur fer. En þar sem hæstv. samgrh. er í þinginu og hefur verið hér --- mér var kunnugt um að hann þurfti að sinna brýnum skyldustörfum um stundarsakir --- og þar sem hv. formaður samgn. er hér einnig, þá vil ég ítreka þær spurningar sem ég setti fram í ræðu minni fyrr í kvöld og óska eftir svörum við þeim. Það væri fróðlegt líka að heyra hvernig hæstv. samgrh. ætlar að sannfæra heimdellingana, ungu sjálstæðismennina sem voru að skrifa honum bréf í dag og senda honum svokallaða pappahönd til aðstoðar við atkvæðagreiðslur þar sem hann er hvattur til að grípa ekki til neinna þeirra aðgerða sem koma til með að auka á ríkishallann og skuldir ríkissjóðs. Hér hafa verið færð rök fyrir því að einkavæðingin muni þegar fram líða stundir skerða tekjur ríkissjóðs stórlega á sama tíma og verið er að blása út sovéskar eftirlitsstofnanir sem hafa leyfi til húsleitar til að grafa upp það óhreina mjöl sem kann að leynast í mjölpokum þessara fyrirtækja sem koma til með að starfa í framtíðinni á þessum markaði eða þannig virðist hugsunin alla vega vera. Við erum komin langan veg frá þeirri stefnu sem var boðuð í vor, þ.e. að verið væri að einkavæða þetta til að taka þátt í markaðssamkeppni. Við bentum á það þar þá. Við bentum þá á það úr liði stjórnarandstöðu, og ekki síst úr þingflokki Alþb. og óháðra, að niðurstaðan yrði sú að upp mundu spretta eftirlitsstofnanir. Ég gafst nú upp á að lesa eftirlitshlutverkið á 7. lið en vék aðeins að því að eftirlitsaðilarnir hefðu leyfi til að fara án sérstakrar tilkynningar eða dómsúrskurðar í eftirlitsferðir inn í húsakynni leyfishafa til rannsóknarstarfa. Þessar millifyrirsagnir segja í rauninni allt sem segja þarf: Eftirlit með leyfishöfum. Eftirlitsúrræði Póst- og fjarskiptastofnunar og viðurlög. Þagnarskylda. Kvartanir. Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála, nefnd á nefnd ofan. Gjaldtaka o.fl. Skýrsla. Reglugerðir. Það er verið að búa til nýtt sovéskt eftirlitskerfi í anda hins evrópska reglugerðarveldis. Það er það sem verið er að gera. Og svo eru menn alltaf að stæra sig af einhverjum frjálsum viðskiptaháttum. Þetta mál snýst ekkert um það. Þetta mál snýst um það að undirbúa þessar stofnanir fyrir sölu. Þetta er arðvænlegasti bissniss í heiminum núna, þ.e. póst- og símastofnanir, þ.e. almannaþjónustan. Vatnsveitan í Yorkshire t.d. Það er nú komið svo þar að starfsmenn vatnsveitunnar í Yorkshire eru orðnir svo óvinsælir að þeir þora ekki að láta sjá sig á götum úti í einkennisbúningum. Þetta er ein svona einkaþjónustan, einokunarfyrirtæki sem var einkavætt. Ég held að það sé hótelkeðja í Suður-Frakklandi sem á það. Þetta er það sem er að gerast. Allt saman er þetta að gerast undir fölsku flaggi frjálsrar samkeppni, opins samfélags, opins þjóðfélags. Hvenær skyldi koma að því að þetta verði mönnum umhugsunarefni? Og svo fáum við ræður frá hv. þingmönnum úr stjórnarliðinu í kvöld sem segja þetta gamalkunna: ,,Allir eru að gera þetta. Það er alls staðar verið gera þetta.`` En það er líka alls staðar verið að gera þetta. Það er alls staðar verið að blása þennan eftirlitsiðnað út.

Ég spurði nokkurra spurninga fyrr í kvöld og það væri gaman að fá útskýringar fulltrúa ríkisstjórnarinnar á þeim atriðum.