Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 22:18:13 (2341)

1996-12-17 22:18:13# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[22:18]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að votta sitjandi forseta alveg sérstakt traust og lýsi yfir ánægju með það að einmitt hann skuli vera hér í stólnum þegar við erum að ræða þessi mál.

Hv. þingmenn hafa tekið eftir því og ég hef líka orðið var við það í almennum umræðum m.a. í fjölmiðlum að haustið hafi borið þann svip hér í þinginu að þar hafi hlutirnir verið rólegri og dálítið öðruvísi heldur en oft áður. Fyrir því eru ákveðin rök. Meginrökin eru þau að hæstv. ríkisstjórn hefur í raun og veru verið með tiltölulega lítið af miklum deilumálum á dagskrá haustþingsins fyrr en núna alveg síðustu dagana. En hin rökin eru þau, og það skiptir kannski ekki síður máli, að það hefur tekist óvenjulega gott samstarf á milli forsætisnefndarinnar, forseta Alþingis annars vegar og stjórnarandstöðunnar og formanna þingflokkanna hins vegar. Og ég leyfi mér að segja miðað við þann tíma sem ég hef setið hér að ég man ekki eftir því að menn hafi lagt sig eins fram um það að reyna að ljúka þingmálum, m.a. ýmsum umdeildum málum, með skikkanlegum og eðlilegum hætti innan þess ramma sem þingsköpin segja til um. Þannig að svipurinn á haustþinginu hefur verið betri og hefur verið annar heldur en oft áður. Við sem höfum átt dálítinn hlut að þessu með formönnum þingflokkanna og forsætisnefndinni höfum verið ánægð með þetta mál og við höfum verið að gera okkur vonir um það að þinginu ljúki núna fyrir jólin með þessum hætti, að það væri auðvitað ágreiningur, staðfestur, eins og eðlilegt er en að menn reyndu að komast frá málunum með myndugum hætti sem væri Alþingi og öllum aðilum hér til sóma.

Nú ber hins vegar nýrra við á þessu kvöldi. Nú hefur það komið í ljós að það á að fara að beita gömlu aðferðunum sem voru tíðkaðar í ráðhúsinu fyrir allmörgum árum og hefur verið reynt að úthýsa héðan úr þessu húsi og tekist allvel í raun og veru, m.a. með ágætri samstöðu ýmissa þingmanna Sjálfstfl. og Framsfl. En núna virðist eiga að fara að beita þessum gömlu aðferðum aftur. Nú virðist vera meiningin á nýjan leik að reyna að berja stjórnarandstöðuna til hlýðni og beygja hana. Og út af orðum hæstv. forseta vil ég segja að það hefur engin tilraun verið gerð til þess á þessu kvöldi eða síðustu daga að ná neinu samkomulagi. Ég tek undir það með hæstv. forseta að það þarf að tryggja að það náist samkomulag um lok þingsins fyrir jól en það hefur engin tilraun verið gerð til þess. Það eina sem hér hefur komið fram, hæstv. forseti, er það að Heimdallur hefur sent okkur kveðju þar sem það kemur fram að hann vonast til þess að pappahönd Heimdallar verði til þess að leiða okkur á rétta braut, pappahönd Heimdallar. Mér sýnist að það sé hins vegar hönd hæstv. forsrh. sem því miður er ekki pappahönd í þessu tilviki sem er að reyna að berja stjórnarandstöðuna til hlýðni með óvenjulegri ósanngirni á þessu kvöldi.