Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 22:26:16 (2345)

1996-12-17 22:26:16# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, ÁRJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[22:26]

Ásta R. Jóhannesdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil þakka forseta fyrir hvað hann er skilningsríkur á þetta ástand sem hér ríkir. En ég tek undir þá gagnrýni sem komið hefur fram hér á undan hjá þeim þingmönnum sem hafa rætt um fundarstjórn forseta og vil bæta við það sem kom fram hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur. Það er ekki aðeins í fjárlagaumræðunni sem stjórnarliðar hafa ekki verið viðstaddir. Hér höfum við verið að ræða þrjú stór mál sem hafa verið á dagskránni í dag og í kvöld og lengi vel var enginn stjórnarliði í salnum nema starfandi forseti. Þetta er lítilsvirðing og ekki boðlegt hér í þinginu að stjórnarandstaðan ... (Gripið fram í: Hvenær?) Það var hér núna áðan. (Gripið fram í.) ... að stjórnarandstaðan sé hér ein í salnum að ræða svo veigamikil mál eins og þau mál er varða fjarskiptin sem hafa verið hér til umræðu. Ég vil kalla eftir því að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar komi til þessarar umræðu og verði hér viðstaddir meðan er verið að ræða þessi mál. Við höfum verið að hliðra til hér stjórnarandstæðingar til þess að tefja ekki fyrir störfum þingsins og samþykktum það að okkar mál, sem hefðu átt að vera á dagskrá á morgun, yrðu ekki á dagskránni til þess að við getum haldið áfram með þau stórmál sem eru á döfinni, aðallega frá hæstv. ríkisstjórn. Og ég mótmæli því að stjórnarliðar sýni okkur þá vanvirðingu að vera ekki viðstaddir hér þó svo einn og einn hafi komið hér inn. Ég veit að einhverjir hafa þó verið á skrifstofum sínum eða e.t.v. frammi en það er mikilvægt að þegar menn eru að ræða þessi mál eigi þeir orðastað við þá þingmenn sem styðja þau mál sem eru til umfjöllunar og þeir hlusti á þá gagnrýni sem við höfum fram að færa á málin.