Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 22:30:37 (2348)

1996-12-17 22:30:37# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[22:30]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hæstv. sitjandi forseta fyrir það hvernig hann tók undir þær ábendingar sem fram komu frá hv. þingmönnum áðan og sem helgast af því að hann hefur mikla reynslu af því að vera okkar megin við línuna og stóð sig oft hetjulega á síðasta kjörtímabili og þekkir vel til þess sem stjórnarandstæðingar verða við að una. Þó að ég verði að vísu að játa það að mér finnst pínulítið af honum dregið af og til í seinni tíð miðað við það sem var á síðasta kjörtímabili, þá get ég ekki sagt að hann hafi breytt verulega frá því sem þá var, en þá færðist hv. þm. allur í aukana og var eins og nýr maður frá því sem verið hafði í stjórnaránauð Framsfl. um áratuga skeið og var satt að segja alveg ótrúlegt að sjá suma þingmenn Framsfl. lifna við eftir þau ósköp að Framsfl. hafði verið í ríkisstjórn í áratugi.

Ég ætla, hæstv. forseti, líka að segja það út af þeim orðum sem hv. 1. þm. Vestf. og formaður samgn. sagði hér áðan að það er engin hemja hvernig þátttaka stjórnarliða hefur verið í salnum í dag. Ég tók t.d. mjög vel eftir því þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson var að tala í kvöld að þá var varla að það væri nokkur maður hér í salnum af stjórnarliðinu. Ég segi eins og er að ég geri þær kröfur a.m.k. til hv. þingmanna stjórnarflokkanna sem hafa fyrir þessu máli að segja, að þeir hlusti ekki síður á þá menn sem þekkja vel til eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerir. Mér fannst það afar sérkennilegt að þeir skyldu víkja af vettvangi einmitt þegar hann var að halda sína ræðu en þá tek ég fram að hæstv. samgrh. var reyndar á þeim tíma löglega afsakaður og hafði gert viðvart um fjarveru sína. Þetta sýnir ákveðinn hroka gagnvart málinu, þinginu, stjórnarandstöðunni og þjóðinni að halda á málum eins og hér hefur verið gert. Það sýnir dónaskap og hroka og ég spyr, hæstv. forseti: Til hvers er þetta þing? Til hvers er þetta tal? Til hvers er þetta þing? Er það ekki til þess að menn skiptist á rökum og gagnrökum og reyni að hafa áhrif hver á annan? Er það bara til þess að menn tali bara fyrir þingtíðindin og punktur? Auðvitað er upphafleg hugsun með þinginu og þingræðinu sú að menn talist við, að menn skiptist á rökum og hafi áhrif hver á annan og breyti málum og leyfi sér að láta sannfærast af nýjum rökum og nýjum sjónarmiðum sem eru borin fram á hverjum tíma. Það hefur hins vegar færst í vöxt og er alveg í hámarki í þessari hæstv. ríkisstjórn að hún ber enga virðingu fyrir því skapandi innihaldi lýðræðisins, að menn flytji mál sitt með þeim hætti að þeir beri fram rök og gagnrök og reyni þannig að komast að sameiginlegri niðurstöðu og allir reyni að láta nokkuð gott af sér leiða. Það er í raun og veru mjög alvarlegur hlutur sem hefur verið að þróast með núverandi hæstv. ríkisstjórn, það er fullkomið virðingarleysi fyrir þingræðinu að þessu leytinu til. Ég tel að það sé sérstaklega gagnrýni vert og sérstakt áhyggjuefni.

Ég tók eftir því að hv. 13. þm. Reykv., Jóhanna Sigurðardóttir, komst þannig að orði í einhverju máli, og var því mótmælt mjög harðlega af hæstv. forseta Alþingis, að þetta væri að verða framkvæmdarvaldsþing. Mér fannst það mikið sagt. Mér fannst það eiginlega harður dómur um þingið og ég held að hann sé ekki að öllu leyti sanngjarn. Ég held að þingmenn, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, reyni að umgangast hlutina með þeim hætti að ekki sé hægt að kalla þetta stimpilpúða eða framkvæmdarvaldsþing en þó verð ég að segja alveg eins og er að þetta kemur mér stundum í hug, þetta orð hv. þm. að hér sé um framkvæmdarvaldsþing að ræða og sérstaklega á svona stundum eins og núna í kvöld þegar hv. þingmenn stjórnarflokkanna nenna ekki að vera hér í salnum nema með örfáum undantekningum.

Ég ætla hér, hæstv. forseti, að fara nokkuð almennt yfir þetta mál. Ég ætla að byrja á því að vísa til ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds fyrr í kvöld og hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem gerðu mjög góða grein fyrir þeim sjónarmiðum sem við höfum verið með uppi í sambandi við þessi póst- og símamál. Í fyrsta lagi ætla ég að nefna í þessu sambandi þá umræðu sem hefur staðið yfir í þessu máli og í sambandi við aðrar ríkisstofnanir um réttindamál starfsmanna. Það hefur ekki verið vel á þeim málum haldið af hæstv. ríkisstjórn. Sem betur fer hafa dómstólarnir gengið í lið með starfsmönnunum í sumum tilvikum og nýlega féll dómur sem dæmdi starfsmanni biðlaun þvert á það sem ríkisstjórnin og fjmrn. hafði gert ráð fyrir. Við höfðum í umræðum um það mál aftur og aftur haldið því fram að það hlyti að fara þannig að starfsmennirnir ættu þennan biðlaunarétt. Það hlyti að fara þannig. Hæstv. fjmrh. neitaði alveg að hlusta á okkur um þau mál og sagði að við hefðum rangt fyrir okkur, starfsmennirnir mundu ekki geta átt þennan biðlaunarétt sem þarna var um að ræða, en annað kom í ljós. Bæði undirréttur og Hæstiréttur hafa kveðið upp dóma um það að starfsmennirnir áttu þann rétt þvert ofan í hin hrokafullu viðbrögð fjmrn. við okkar gagnrýni í þessu máli.

Í þessari umræðu hef ég oft haldið því fram að fjmrn. hefði átt að gera tilraun til þess að semja um réttindamál starfsmanna við breytingar á fyrirtækjunum þannig að fjmrn. gerði almennan samning um réttindamál þeirra ríkisstarfsmanna sem eru hjá fyrirtækjum sem breytt yrði í einkafyrirtæki eða hlutafélög. Ég komst einhvern veginn þannig að orði úr þessum ræðustól að auðvitað yrði að vera til leið til þess að einkavæða ríkisfyrirtæki. Auðvitað verður að vera til leið til þess. En hún hefur ekki verið til af því að fjmrn. hefur stíflað þessa leið, lokað henni af því að fjmrn. hefur ekki unnið sína heimavinnu. Þess vegna hafa þau mál sem lúta að starfsmönnunum verið í hreinu uppnámi. Það kemur í raun og veru mjög vel í ljós í þessu máli sem við alþýðubandalagsmenn bentum á á síðasta þingi að réttindamál starfsmanna eru í ólestri.

Í öðru lagi segjum við: Það getur verið eðlilegt að breyta rekstrarformi fyrirtækja ef þau hafa ekki veitt þá þjónustu sem óhjákvæmileg er, ef þau eru illa rekin og ef þjónustan er dýr. Niðurstaðan varð hins vegar sú með Póst og síma þegar símaþjónustan hér á landi var athuguð að hún reyndist vera ódýrari en nokkurs staðar annars staðar. Við reyndumst hafa ódýrari þjónustu en nokkurs staðar annars staðar þrátt fyrir það að við búum í einkar strjálbýlu og erfiðu landi og þess vegna mætti kannski búast við því að þessi þjónusta væri hér dýrari en víða annars staðar en það var eitthvað annað. Það er ótrúlegt afrek, verð ég að segja, hjá fyrirtækinu Póstur og sími að standa þannig að málum að þjónustan sé ódýrari í þessu dreifbýla landi sem við búum í og jafnframt er Póstur og sími að skila í ríkissjóð --- er það ekki milljarður kr. á ári, eða hvað, í tekjur sem skilað er frá þessu fyrirtæki inn í ríkissjóð? Þess vegna er það alveg á hreinu, hæstv. forseti, að rökin fyrir því að breyta Pósti og síma eru ekki þau að fyrirtækið hafi verið illa rekið, eru ekki þau að fyrirtækið hafi verið óhagkvæmt, eru ekki þau að starfsmennirnir hafi unnið illa og eru ekki þau að neytendur muni hagnast á breytingunni. Því reynir enginn maður að halda fram.

Hver eru þá rökin, hæstv. forseti, þegar upp er staðið í máli af þessu tagi? Það er umhugsunarvert. Þá er það rétt sem hér hefur verið bent á að þessi rök eru hluti af mjög víðtækri, pólitískri umræðu sem lýtur að því að selja SR-mjöl, að selja Sementsverksmiðjuna, að selja Áburðarverksmiðjuna, að selja helst öll ríkisfyrirtæki, öll opinber fyrirtæki, af því að það henti betur á markaðnum. Þau séu sveigjanlegri á markaðnum og geti þar af leiðandi betur staðið sig í að tryggja þjónustu og endurnýjun og nýsköpun fyrst og fremst. Það eru aðalrökin sem notuð eru og það eru rök sem ég t.d. segi fyrir mig að ég hlusta á. Ég hlusta líka á þau rök að aðalatriðið í máli af þessu tagi sé það hvernig fyrirtæki eins og Póstur og sími eða hvaða fyrirtæki sem er, kemur fram gagnvart almenningi.

Í raun og veru hefur það verið þannig, hæstv. forseti, að þau sjónarmið sem komið hafa fram til rökstuðnings því að selja Landsbankann, selja Búnaðarbankann, selja Sementsverkmsiðjuna, að selja Póst og síma, eru allt annars eðlis. Það er ekki vegna þess að það tryggi meiri nýsköpunar- og endurnýjunarkraft fyrirtækja en ella væri. Rökin eru allt önnur og aumingjalegri, verð ég að segja, hætsv. forseti. Rökin eru þau að við verðum að gera eins og aðrir og hafa okkar fyrirtæki á öllum sviðum eins og aðrir. Það er satt að segja næstum því grátbroslegt að heyra þessi rök koma frá hæstv. samgrh. sem er nú ekki sjálfur mikið fyrir það að vera eins og aðrir á öllum sviðum heldur fer sínar eigin leiðir eins og kunnugt er og les gjarnan hér í þingsalnum upp úr öðrum bókum en aðrir menn mundu gera. En líka hann er eins og grammófónplata með þessi rök: ,,Við verðum að vera eins og aðrir. Þetta eru rök minnimáttarkenndarinnar því að það getur verið þannig að það sé gott sem við höfum í landinu og menn þurfi ekki endilega að beygja sig fyrir því sem annars staðar er. En það má segja að það séu næstum að segja sjálfvirk viðbrögð íslensku þjóðarsálarinnar að ef eitthvað annað kemur að utan, þá sé það sjálfkrafa vont sem við erum með. Átakanlegasta dæmið um þetta í seinni tíð er umræðan um raungreinar í grunnskólum á Íslandi, átakanlegasta dæmið þar sem engum manni datt í hug að spyrja sig þeirrar spurningar: Er þetta kannski gott hjá okkur? Það er spurning t.d. sem menn spyrja sig, segjum í Bandaríkjunum eða í Svíþjóð þar sem menn hafa, mér liggur við að segja, þroskaðri sjálfskennd heldur en mér finnst stundum að Íslendingar hafi. Það er þessi minnimáttarkennd sem beygir menn inn á þessa braut, að gera eins og aðrir, meira að segja með fyrirtæki eins og Póst og síma og beygja sig þannig fyrir tískunni. Þannig er þetta, að þetta er eins og trúarbrögð að verða. Þetta geysist hér eins og logi yfir akur þannig að hvert fyrirtækið á fætur öðru verður að verða að einkafyrirtæki hvað sem tautar og raular af því að allir aðrir eru að gera þetta svona. Á okkur sem höfum verið að amla aðeins á móti og gagnrýna þessa bylgju og segja: Við skulum reyna að spyrja um hvert mál fyrir sig, vegna þess að þannig finnst mér að eigi að nálgast þetta, þá reyna menn að setja á okkur þann stimpil að við kunnum ekki að fylgjast með tímanum og annað eftir því sem ég er í sjálfu sér ekki viðkvæmur fyrir persónulega.

En ég segi alveg eins og er að mér finnst að í máli af þessu tagi eigum við að spyrja um hvert mál fyrir sig. Við eigum að spyrja: Hvernig þjónar fyrirtækið fólkinu? Er fyrirtækið hagkvæmt í rekstri? Skilar það þjóðinni arði? Er það þannig uppbyggt að það skili nýsköpunarkrafti inn í íslenskt atvinnulíf og íslenskt efnahagslíf á komandi árum eða hvað? Spyrjum um þetta. Þá getur það oft farið þannig að það eigi að breyta ríkisfyrirtækjum í einkafyrirtæki en það getur líka farið þannig að það ætti að breyta einkafyrirtækjum í ríkisfyrirtæki. Það getur allt verið til í þeim efnum og menn eiga ekki að umgangast þetta með orþódox, rétttrúnaðarhætti, eins og mér finnst að núverandi hæstv. ríkisstjórn geri.

Þau sjónarmið sem ég er að flytja hér, hæstv. forseti, voru oft flutt á undanförnum árum. Þau hafa ekki bara verið flutt af okkur alþýðubandalagsmönnum. Þau hafa verið flutt t.d. af þingmönnum Framsfl. og Alþfl. Það er satt að segja alveg ótrúlegt þegar maður hugsar til ræðuhaldanna á síðasta kjörtímabili af hálfu þingmanna Framsfl. Erum við búin að gleyma því? Ætli við séum búin að gleyma ræðum hv. þm. Guðna Ágústssonar? Hæstv. félmrh. Páls Péturssonar? Erum við búin að gleyma þessum ræðum? Hæstv. iðnrh. Finns Ingólfssonar? Erum við búin að gleyma þessum hástemmdu ræðum um félagslega þjónustu og félagslegan rekstur og að maðurinn sjálfur sé markmiðið en ekki formið á fyrirtækjunum sjálfum? Og hvað er það, hæstv. forseti, í okkar lýðræði sem gerir það að verkum að menn eru allt í einu eins og viðsnúningar um leið og þeir verða ráðherrar í stjórnum með íhaldinu og hætta að hugsa sjálfstætt? Þeir snúast algjörlega við og spila allt aðra grammófónplötu í þessum málum en þeir gerðu þegar þeir voru í stjórnarandstöðu? (Gripið fram í: Það er venjulega annað lag hinum megin á grammófónplötunni.) Það er nákvæmlega rétt. Það er út af fyrir sig rétt. En það er eins og hæstv. ráðherrar Framsfl. séu eins og umskiptingar í þessu máli, eins og það heitir í þjóðsögunum. Þeir breytast. Það er eins og þessir fimm ráðherrastólar verki eins og dóp á mennina því þeir eru eins og í allt öðrum heimi eftir að þeir urðu ráðherrar og settust í þessa stóla. (Gripið fram í: Þetta þekkjum við nú sjálfir.)

[22:45]

Síðan segja menn sem svo: Við verðum að gera þessa hluti eins og allir aðrir m.a. vegna þess að umhverfið krefst þess. Þá gleyma menn því mikilvæga atriði að á Íslandi búa 270 þús. manns eða svo. Ríkisrekstur á Íslandi hefur ekki orðið til af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi endilega viljað það. Heldur er það vegna þess að aðstæður á Íslandi hafa kallað á það að við leystum hlutina saman. Þannig hefur sundurvirkni gróðalögmálanna verið með þeim hætti að það hefur ekki dugað til að leysa vandamálin á Íslandi og þess vegna höfum við orðið að gera það saman á félagslegum samvinnugrundvelli. Það er þess vegna. Það er ekki vegna þess að það séu einhverjar göfugar hugsjónir sem hafi endilega borið menn uppi sem stofnuðu ríkisfyrirtæki fyrr á öldinni. Nei, það var vegna þess að það var engin önnur leið. Engin önnur leið en sú að við legðum saman krafta okkar hönd í hönd. Þetta er veruleikinn, hæstv. forseti. En núna horfumst við í augu við það að við erum með ríkisstjórn sem er að breyta þessu kerfi öllu eins og það leggur sig. Það er náttúrlega SR-mjöl og það er Sementsverksmiðjan og Áburðarverksmiðjan gær og í dag er það Póstur og sími og á morgun verða það skólarnir. Senda tékka í hvern skóla og láta svo bjóða í skólann. (Gripið fram í: Og fangelsin.) Bjóða út fangelsin, það er það næsta. Það hefur reyndar verið rætt í fullri alvöru af núv. hæstv. ríkisstjórn að bjóða út fangelsin og væntanlega að láta þá reka fangelsin sem hafa reynslu af því að vera þar eða hvað?

Veruleikinn í þessum efnum er alveg ótrúlegur. Hv. þm. Ögmundur Jónasson minnti á það í kvöld hvernig þessi þjóðfélagstilraun hefði verið framkvæmd á Nýja-Sjálandi þar sem hlutirnir hafa verið þróaðir t.d. í menntamálum með eiginlega nákvæmlega sama hætti og núv. hæstv. menntmrh. er að tala um hér á landi en forveri hans, við hvern undirritaður háði marga hildi, fór ekki inn á þá braut. Nú er verið að fara inn á alveg nýja braut, hægribraut, frjálshyggjubraut, í skólamálum. Samkeppni, losa um réttindakerfi kennara, losa um hverfaskipulagið, leyfa mönnum að velja, senda foreldrum heim tékka þannig að þau geti farið með tékkann í skólann sem veitir börnunum besta þjónustu og hallelúja. Birta svo einkunnir skólanna. Þannig að skólarnir í góðu og fínu hverfunum geti sýnt háar einkunnir en skólarnir í hinum hverfunum, þar sem fólkið býr við önnur kjör, sýni lágar og hraklegar einkunnir. Þetta er umræðan sem er að verða til á Íslandi. Þessir hæstv. ráðherrar sem núna beita sér fyrir þessu eru í raun og veru að undirbúa það að selja þær stofnanir sem verið er að tala um, eins og Póst og síma. Ég tel að það sé verið að taka ákvörðun og búið að taka ákvörðun um að einkavæða Póst og síma og selja hann. Menn vilji í raun selja hann. Það er verið að stíga þetta skref til að hægt verði að selja fyrirtækið.

Hæstv. póst- og símamálaráðherra hefur eitt hlutabréf. Eins og ég sagði fyrr í dag væri gaman að fá að sjá bréfið, hvernig það lítur út, þetta eina hlutabréf. En það er alveg augljóst mál að einkavæðingin og kerfisbreytingin á Pósti og síma skilar sér ekki að fullu að mati markaðssinnanna fyrr en búið er að selja eitthvað af hlutabréfunum. Þess vegna eru þeir auðvitað á þessari braut, hv. þm. Framsfl. og Sjálfstfl.

Við þekkjum að til eru sannfærðir markaðshyggjusinnar í þessu liði eins og gengur. Ég tel hæstv. samgrh. ekki í því liði. Ég held að hæstv. samgrh. hafi lært þessa rullu einhvern tímann á ungum aldri og haldi að hún eigi sæmilega vel við en ég tel að þegar hann hugsar um þessa hluti sjái hann að forsendur lífs í hans eigin kjördæmi byggjast á jafnaðarhugsjón á félagslegum grundvelli. Ég er alveg sannfærður um að hann hefur bein til að hrista af sér margt af því sem menn heimta af honum í þjónustu við markaðsöflin.

Ég get játað það hér líka, hæstv. forseti, að ég sé eftir því þegar ég horfi á jafngóðan dreng og hv. 3. þm. Vesturl. vera að stýra Pósti og síma inn í þetta kerfi. Ég er viss um að betra sé að hafa hann en suma aðra þarna og ég er alveg sannfærður um að til eru verri menn en hann. En það er leiðinlegt til þess að vita að góðir drengir og ungir þingmenn skuli lenda í þessu sem sínu fyrsta verki í forustu fyrir stjórnarflokk að stýra fyrirtæki eins og Pósti og síma inn í einkavæðingarheiminn. Það er leitt til þess að vita þó ég viti að hann eigi góðan bakgrunn að vestan sem stýri honum í gegnum erfiðustu brimskaflana í þessu efni. (Gripið fram í: Gleymdu ekki Magnúsi Stefánssyni.) Það er nákvæmlega hann, hv. 3. þm. Vesturl., sem ég er að tala um.

Nei, hæstv. forseti, þessi siður gengur yfir. Hann er eins og siðaskipti. Það er eins og verið sé að boða nýja trú á vegum þessara manna. Það verður allt að breytast, allt að breytast. Boðun Ólafs digra á trúnni fyrr á öldum og seinna Lúters bliknar í samanburði við trúarofstækið sem stendur stundum upp úr mönnum í sambandi við mál af þessu tagi og þó eru þetta góðir drengir, en þeir átta sig ekki á því stundum, þessir ágætu ungu menn og ágætu þingmenn margir, að þeir eru fangar. Þeir eru fangar pólitískra viðhorfa. Hæstv. samgrh., t.d. svo ég nefni dæmi og hv. þm. Magnús Stefánsson og hv. 1. þm. Vestf., formaður samgn. eru allir vænir menn. Þeir eru ekki að einkavæða vegna þess að þeim sé illa við þjóðina, það er langt frá því. (Gripið fram í: Þjóðinni verður illa við þá ef þeir gera það ekki.) En þeir sjá enga aðra leið af því að þeir hafa tekið þessa trú og þeir enda jafnvel með því að gera allt annað en þeir vita að er rétt af því að þeir eru orðnir partur af þessum trúarbrögðum. Þeir berast með þessum straumi.

Hv. þm. telja sig t.d. vera mikla talsmenn dreifbýlisins og skrifa lofgreinar um ráðherrana sem flytja Landmælingar upp á Akranes. En hver er veruleikinn? Hvað eru þeir sjálfir að gera í nafni einkavæðingarinnar og hægri stefnunnar þar sem þeir eru orðnir eins og tugthúslimir, með leyfi forseta, og geta enga björg sér veitt? Hvað er að gerast t.d. í rafmagnseftirlitsmálum í landinu? Það er verið að flytja tuttugu starfstækifæri utan af landi til Reykjavíkur í nafni hægri stefnunnar og einkavæðingarinnar. Hvað er verið að gera í vinnumarkaðsmálum á Íslandi? Það er verið að leggja niður vinnumarkaðsskrifstofurnar út um allt land og flytja þær allar til Reykjavíkur. Hvað er að gerast í raforkumálum í landinu? Það er verið að fella niður og brjóta á bak aftur verðjöfnun á raforku í nafni samkeppninnar sælu, í nafni þess að þetta verði að ganga yfir til þess að Íslendingar verði eins og allir aðrir, eins og Evrópa, eins og markaðsöflin, eins og þetta lið allt. Þess vegna er það þannig, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson orðaði það fyrr í kvöld og hv. þm. Ragnar Arnalds, að hér er verið að koma á samkeppni á kostnað jafnréttis, samkeppni sem mun brjóta niður það kerfi sem hjálpar til við að tryggja að fólk lifir enn þá sæmilegu lífi í hinum dreifðustu byggðum landsins. Svo ætla þessir menn, herra forseti, að koma til þingsins og þjóðarinnar og þvo sér með einni og einni landmælingaskrifstofu á einu og einu Akranesi þegar búið er að húrra öllu liðinu hingað suður í nafni markaðshyggjunnar. En þessir menn eru eins og bundnir á höndum og fótum, þeir geta enga björg sér veitt af því að þeir hafa játað þessu markaðsgoði trú sína og þeir verða að gera eins og búið er að gera í öllum öðrum löndum.

Ég held, hæstv. forseti, að þessi frv. sem verið er að fjalla um, sem eru framhald á markaðsvæðingarfrv. Pósts og síma, staðfesti það sem ég hef verið að segja. Það kemur ákaflega vel fram í umræðunum líka, eins og t.d. í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, hvernig hin félagslega atvinnusköpun á Íslandi er í dag. Hver er hún? Hún er eftirlitsiðnaðurinn. Það er ótrúlegt að sjá þetta fyrirbæri hér, Póst- og fjarskiptastofnunina. Það er ótrúlegt að lesa umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. um Póst- og fjarskiptastofnunina sem kostar milljónatugi. Til hvers? Til að hafa eftirlit með frelsinu. Þannig er verið að setja upp hverja stofnunina á fætur annarri til að hafa eftirlit með frelsinu. En það á að láta frelsið hafa sinn gang. Það á að loka pósthúsunum hér og þar um landið. (Samgrh.: Það þarf að passa upp á frelsið.) Þetta var athyglisvert frammíkall. Ég vek athygli á því, hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig rétt að það þarf nefnilega að passa upp á frelsið. Hæstv. samgrh. hefur fundið það út að til þess að þjóna flokki sínum með sem öruggustum hætti, þá sé best að láta hlutina líta þannig út að hann sé að einkavæða dálítið og selja eins og eina og eina skipaútgerð. Gera sig dýrðlegan og verður kannski þingmaður ársins einhvern tímann á vegum Heimdallar. (Gripið fram í: Því nær hann aldrei.) Nei, því nær hann sennilega aldrei sem eru meðmæli með þeim mæta manni, hæstv. samgrh. Hann verður örugglega aldrei þingmaður ársins á vegum Heimdallar. En hann vill þó hanga í þessum sólargeisla einhvers staðar. (Gripið fram í.) Hann áttar sig samt sem áður á því að þegar upp er staðið þá verður auðvitað að reyna að koma hlutunum þannig fyrir að um sé að ræða einhverjar reglur sem menn verði að lúta og líka t.d. verðjöfnun á þeirri þjónustu sem verið er að veita, eins og verið er að tala um í þessum frv. Samt sem áður finnst mér hann ekki sjá, frekar en margir aðrir stuðningsmenn stjórnarinnar, hlutina í eðlilegu samhengi. Markaðslögmálin eru að flytja þetta dót allt hingað á þéttbýlissvæðið, alla þessa þjónustu meira og minna. Og það dugir þessum mönnum ekki, hæstv. forseti, að þvo sér með landmælingaskrifstofum einu sinni á ári vegna þess að það er í hrópandi mótsögn við allt sem þeir eru að gera að öðru leyti.

Hvað varðar einstök atriði í frv., herra forseti, þá ætla ég að víkja að nokkrum og leggja fáeinar spurningar fyrir hæstv. samgrh. sem ég hef ekki heyrt svör við í dag. Það er fyrst 14. gr. frv. um póstþjónustu, 151. mál, þskj. 166. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Skylda til að bera út dagblöð, vikublöð og tímarit.

Samgönguráðherra er heimilt að mæla fyrir um að einkaréttarhafar annist póstmeðferð utanáritaðra dagblaða, vikublaða og tímarita á Íslandi samkvæmt sérstakri gjaldskrá, lægri en fyrir aðrar póstsendingar af sömu þyngd, stærð og umfangi að öðru leyti. Samgönguráðherra skilgreinir nánar í reglugerð hvað teljist til dagblaða, vikublaða og tímarita samkvæmt þessari grein.

Póst- og fjarskiptastofnun ber að bæta einkaréttarhafa upp mismun á burðargjaldi samkvæmt gjaldskrá hans og því gjaldi sem samgönguráðherra mælir fyrir um skv. 1. mgr. fyrir sambærilegar sendingar.``

Ég vil spyrja hæstv. samgrh. hvernig hann skilgreini þessa grein. Hvaða fjármunir eru hér á ferðinni? Með hvaða hætti og í samráði við hvern ætlar hann að úrskurða hvað er dagblað og hvað er vikublað og hvað er tímarit og við hvað er stuðst í þessu efni? Ég segi alveg eins og er að ég sé ekki að neitt vit sé í því að láta ráðherra um það á hverjum tíma að sortera hluti af þessu tagi niður í smáatriðum og þess vegna spyr ég.

Ég vek líka athygli, hæstv. forseti, á fjöldamörgum greinum í þessu frv. sem lýsa alveg ótrúlegri smásmygli og minna á ekkert annað en reglugerðarfrumskóga Evrópusambandsins þar sem alltaf er verið að setja reglugerðir svo að segja um alla skapaða hluti, um allt milli himins og jarðar. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson skemmti sér eina kvöldstund við að lesa upp greinar úr þessum frv. Um það má margt segja. Ég ætla ekki að fara út í það hér en ég ætla að lesa eina til fróðleiks. Það er 25. gr. sem heitir bréfakassar og bréfarifur:

[23:00]

,,Húseigendum er skylt að hafa bréfarifur á útihurðum eða setja upp bréfakassa í eða við hús sín á eigin kostnað.

Samgönguráðherra setur nánari ákvæði þar um í reglugerð.`` Þetta satt að segja er alveg ótrúlegt skriffinnskusamfélag sem Sjálfstfl. er að innleiða í landinu. (Samgrh.: Það er forsenda fyrir því að hægt sé að nota bréfarifur að einhver nenni að skrifa.) Þetta var skörp ábending. En skyldi það endilega vera ritað mál sem fer í gegnum bréfarifur? Það er alls ekki víst, þetta gætu líka verið aðrir hlutir sem færu þar í gegn. En það er greinilegt að hæstv. samgrh. hefur þegar búið sig undir að setja mjög glögga reglugerð um bréfarifur og það sem fer inn í þær. Mér þætti vænt um ef hæstv. samgrh. vildi kannski útlista það nánar fyrir þingheimi á eftir.

Það úir og grúir af svona hlutum og ég spyr samgrh. og formann samgn.: Af hverju var þessu drasli, svona dóti ekki hent út úr frv.? Hvað er verið að hafa þetta hérna?

Síðan vík ég að IX. kafla frv. sem heitir Greiðslur fyrir óarðbæra þjónustu. 30. gr. ber yfirskriftina Jöfnunargjald og þar segir svo í 6. mgr., með leyfi forseta:

,,Samgönguráðherra setur með reglugerð nánari fyrirmæli um fjárframlög og jöfnunargjöld í póstþjónustu, þar á meðal um útreikning á kostnaði við að veita þjónustuna, um útreikning rekstrartaps og um álagningu jöfnunargjalds á rekstrarleyfishafa.``

Þetta er næstsíðasta mgr. 30. gr. á bls. 7 í frv. og í framhaldi af þessu, hæstv. forseti, spyr ég hæstv. samgrh. og formann hv. samgn.: Kom það aldrei til tals að hér væri um framsal á skattlagningarheimild að ræða frá Alþingi til framkvæmdarvaldshafans? Mér satt að segja sýnist að það sé þannig. Ég held að það sé verið að framselja skattlagningarvald, sem er óheimilt samkvæmt stjórnarskránni og samkvæmt dómum sem gengið hafa eins og menn þekkja, m.a. frægum dómi um kjarnfóðurgjald, sem hæstv. samgrh. kannast við. En ég sé ekki betur en verið sé að opna fyrir það að hæstv. samgrh. hafi allmikla möguleika til þess að ákveða þetta gjald tiltölulega rúmt og ég vil spyrja: Var það kannað sérstaklega í hv. samgn. eða í samgrn. hvort hér er um framsal á skattlagningarvaldi að ræða? Ég spyr beint þeirrar spurningar, hæstv. forseti.

Þá ætla ég næst að víkja aðeins að meginefni frv. og grg. Ég vil þakka fyrir þessa grg., herra forseti. Hún er uppfull af fróðleik. Þar er heilmikið um það hvernig þetta er í Evrópusambandslöndunum og heilmikið um þróun póstmála í Evrópu og þróun sögu póstþjónustu á Íslandi. Stendur m.a.: ,,Saga póstþjónustu á Íslandi er löng.`` Þetta er afskaplega athyglisvert og kemur mjög mikið á óvart, verð ég að segja. Þó mér hefði fundist það vera líkara hæstv. samgrh. að hafa hér söguþætti landpóstanna til skemmtunar í grg. heldur en þessar Evrópusambandssögur þá kann ég ágætlega að meta grg. En á bls. 14 í grg. með frv. segir svo, með leyfi forseta, undir kaflaheitinu Meginstefna frv. og helstu nýmæli:

,,Fjölmörg nýmæli eru í frumvarpinu. Í fyrsta lagi má nefna að íslenska ríkið er skuldbundið til þess að tryggja landsmönnum reglulega póstþjónustu á sendingum sem taldar eru upp í 4. gr. frumvarpsins.``

Ég vil spyrja af þessu tilefni, hæstv. forseti: Hvað eru reglulegar póstsendingar? Hvað er regluleg póstþjónusta --- hvað er það? Hversu tíðar póstsamgöngur eru það sem menn eru þarna að tala um? Og áfram segir:

,,Í öðru lagi er tekin upp ný skilgreining á einkarétti ríkisins til póstmeðferðar nánar tilgreindra póstsendinga og er þar tekið mið af tilskipunartillögum Evrópusambandsins.``

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju gerir hann það? (Samgrh.: Nefndin hefur fallið frá þessu.) Hefur nefndin algjörlega fallið frá þessari viðmiðun? Og hefur það komið fram að svo sé? Og þessu ákvæði alveg sérstaklega? Þannig að ekki sé um að ræða beina tengingu, ef þær verða samþykktar, við tilskipunartillögur Evrópusambandsins? Ekki lengur? Það er þetta sem ég vildi spyrja um og þykir gott að hv. þm. og hæstv. ráðherra bregðast við í sal. Og áfram segir:

,,Í þriðja lagi er í frv. gert ráð fyrir því að ríkið geti falið einum eða fleiri póstrekendum með sérstöku rekstrarleyfi að annast rekstur þeirrar póstþjónustu sem ríkið skuldbindur sig til að veita öllum landsmönnum.`` --- Það er væntanlega alveg tryggt, spyr ég þá í framhaldi af þessu, að það sé hægt að setja verðjöfnunarkvaðir á þessa nýju aðila, póstrekendur, líka? Mér þætti vænt um ef hv. formaður samgn. gæti brugðist við þessari spurningu líka vegna þess að hún skiptir miklu máli.

Virðulegi forseti ég hef farið nokkuð almennt yfir pólitískan bakgrunn þessara mála. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að menn séu að rasa um ráð fram í þessu einkavæðingarævintýri. Að menn hefðu frekar átt að spyrja fyrst hvað er hægt að gera til þess að tryggja að þjónustan haldist jafngóð og verið hefur frekar en að ákveða endilega að breyta hlutunum í grundvallaratriðum eins og hér er stefnt að. Ég þykist einnig hafa sýnt fram á það að fyrir þessari kerfisbreytingu séu engin önnur rök en pólitísk trúarbragðarök hægri stefnunnar. Engin efnisleg rök --- engin. Eða hver eru þau? Hver eru hin efnislegu rök fyrir þessari breytingu á Pósti og síma? Fyrir fólkið í landinu? Ég er þá ekki aðeins að tala um dreifbýlið sem ég nefni enn sérstaklega, ég er líka t.d. að tala um Reykjavík þar sem þegar er farið að loka póstútibúum með skírskotun til þess að fyrirtækið sé að fara út úr því eignarformi sem verið hefur. Hver eru hin efnislegu rök? Hver er þörfin sem æpir á það að þessu fyrirtæki verði breytt. Ég þykist hafa sýnt fram á það í mínu máli að þessi þörf er ekki til. Það liggur ekkert fyrir í rökum um hana.

Loks hef ég, hæstv. forseti, spurt hæstv. samgrh. og hv. formann samgn. nokkurra spurninga og vænti þess að þeir svari þeim svo skýrt sem verða má á þessum kvöldfundi.