Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 23:12:17 (2350)

1996-12-17 23:12:17# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[23:12]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst það engin rök að þetta hafi verið í lögum 1986. Aftur á móti hefði það verið í lögum 1886 þá hefði mér fundist það rök að halda því áfram. Ég satt að segja skil ekki af hverju menn hafa ekki hreinsað svona drasl út úr frv. úr því menn voru á annað borð að setja ný lög. Það er dálítið skrýtið, satt að segja, að það er alltaf verið að setja lög sem breyta kannski einstökum greinum en svo er annað látið halda sér og vera alveg óbreytt. Besta dæmið um það er þessi starfsmannabandormur þar sem greinilegt er að það á að láta standa alveg ótrúlega vitlaus ákvæði þó verið sé að krukka í viðkomandi lög.

En þetta er nú ekki aðalatriðið, hæstv. forseti, heldur hitt að ég gat því miður ekki látið sannfærast af ágætri ábendingu hv. þm. varðandi framsal á skattlagningarvaldi. Hér stendur, með leyfi forseta, efst á bls. 7, sem hv. þm. las upp: ,,Jöfnunargjaldið samkvæmt lögum þessum skal ákveðið árlega í upphafi hvers árs, í fyrsta skipti 1. janúar 1998.`` Þetta segir mér ekki neitt. Það er talað um að þetta gjald eigi að setja á hverju ári með reglugerð sem hæstv. ráðherra setur miðað við tiltekin viðmið sem eru tilgreind en þau eru rúm. Þess vegna finnst mér að það verði að fá skýrari svör um það hvernig menn rökstyðja að þetta sé ekki framsal á skattlagningarvaldi. Mér sýnist þetta vera framsal á skattlagningarvaldi og ég mundi í sporum meiri hlutans, til þess að leita af mér allan vafa í máli af þessu tagi, kanna það hvort Lagastofnun Háskólans eða einhver vildi fjalla um mál af þessum toga milli 2. og 3. umr. Því það má auðvitað ekki koma til þess, af því þetta er mikilvægur tekjustofn, að hann verði felldur á því að hann stangist á við grundvallaratriði stjórnskipunar landsins.