Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 23:16:11 (2353)

1996-12-17 23:16:11# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A #, 150. mál: #A #, 151. mál: #A #, SJS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[23:16]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef hugsað mér að leggja lítillega orð í belg um þennan frumvarpabunka sem tengist fjarskiptamálum, Pósti og síma, póstþjónustunni og fjarskiptalöggjöfinni. Það hefur víst orðið sá hátturinn á að ræða þetta allt í belg og biðu, ef ég hef tekið rétt eftir, virðulegur forseti. Það er kannski þar af leiðandi ekki hægt um vik eða ástæða til að fara djúpt ofan í efni einstakra greina í einstökum frv. af þessum þremur þar sem talsvert er liðið á umræðuna. En nokkur meginatriði í málinu vildi ég staldra við. Auðvitað er sú umræða ekki að öllu leyti ókunnug mönnum því að breytingarnar á Pósti og síma og breytingarnar í fjarskiptamálum og póstmálum hafa verið hér til umræðu áður, í öðru samhengi að vísu.

Ég vil gjarnan byrja, eins og ég hef stundum áður gert, á því að varpa fram þeirri spurningu hvers vegna Póstur og sími mátti ekki vera í friði. Af hverju er ekki hægt að láta það sem hefur gefist vel og þjónað sínu hlutverki vel vera í friði? Þurfa menn ekki að leggja svolítið á sig við að rökstyðja breytingar þegar verið er að kasta fyrir róða fyrirkomulagi sem sannarlega hefur gefið mjög góða raun? Er það svo að einhverjir meginstraumar í breytingum sem menn telja að séu uppi aðallega utan úr heimi eða eingöngu, vegi svo þungt og séu rétthærri en önnur rök í málum að menn verði að láta undan þeim? Af því bara, af því að það sé verið að gera þetta eða hitt einhvers staðar annars staðar, þá verði Íslendingar að gjöra svo vel og gera slíkt hið sama. Ég velti því svolítið fyrir mér hvernig við stæðum í dag ef menn hefðu alltaf og á öllum tímum hugsað svona á Íslandi. Ef menn hefðu aldrei þorað að taka íslenska hagsmuni og íslenskar séraðstæður fram yfir annað og segja: Hvað sem öðru líður þá ætlum við að gera þetta eða hafa hitt svona. Við þorðum t.d. á sínum tíma að færa út landhelgina þótt það væri alveg þvert á það sem þá var verið að reyna að festa í sessi og öll helstu stórveldi í okkar heimshluta væru á móti. Þá vorum við ekki að hirða upp einhverja línu frá Bretlandi, Þýskalandi eða Brussel eða einhvers staðar annars staðar frá. Ég spyr mig t.d. hvort ekki séu næg rök í séríslenskum aðstæðum hvað varðar landfræðilegar aðstæður, fámenni þjóðarinnar, strjálbýlið í landinu, til þess að þora a.m.k. að hugsa þá hugsun til enda að það geti hentað Íslendingum að hafa að einhverju leyti annað skipulag í þessu heldur en milljónaþjóðirnar á meginlandinu. Ætli það sé ekki þannig að það sé og verði lengi vel dálítið annað að reka fjarskipti á Íslandi, t.d. á Vestfjarðakjálkanum, en að reka símann í Bonn, Berlín eða London? En það hefur ekki komist mikið inn í umræðuna að það geti átt rétt á sér að við Íslendingar þorum að hafa okkar eigið skipulag í þessum efnum. Það eru færð fram sem rök, sem ekki þurfi að ræða frekar að þetta sé að breytast annars staðar. Það er vissulega rétt að víðast hvar er þetta að breytast á ýmsan hátt. Það eru að koma hér alls konar fínar tilskipanir o.s.frv. En jafnvel það er ekki þar með sjálfkrafa röksemd fyrir því að breyta hlutunum, a.m.k. ekki svona. Mér vitanlega hefur ekki verið farið yfir hvaða ráðstafanir hefðu nægt af okkar hálfu til að uppfylla að lágmarki þær samningsskuldbindingar sem menn telja að verði að gera varðandi aukna samkeppni á þessum sviðum. Ég hef hvergi séð það sannað að óhjákvæmilegt hafi verið að breyta Pósti og síma í hlutafélag til að uppfylla fjárskiptaákvæði EES-samningsins eða viðaukana sem þar eru að koma til sögunnar. Ég hef hvergi séð það. Einkaréttinn hefði sjálfsagt orðið að afnema og skilgreina samkeppnisforsendur sem fengjust staðist. Það er ekki þar með sagt t.d. að það þurfi að gera þær breytingar á Pósti og síma og stöðu þess fyrirtækis sem hefur verið ákveðið að gera. Ég held að menn séu þar líka að hluta til að þjóna pólitískri lund sinni. Ég held að það sé nefnilega þannig. Það hefur enginn sýnt fram á t.d. að Póstur og sími eða sambærilegt fyrirtæki sem sjálfstætt óháð ríkisfyrirtæki, ekki hreint ríkisfyrirtæki með ótakmarkaðri ábyrgð eigandans á bak við sig, eins og það er í dag, heldur sjálfstætt ríkisfyrirtæki með eigin fjárhag, með stöðu hliðstæða t.d. því sem Landsvirkjun hefur eða stöðu hliðstæða því sem sjálfseignarstofnanir hafa, hefði ekki getað eftir sem áður starfað á þeim vettvangi.

Herra forseti. Ég tel það hafa verið einkennandi í þessu máli að menn hafa ekki haft fyrir því að rökstyðja almennilega nauðsyn þeirra breytinga sem verið er að leggja til og þá hvers vegna nákvæmlega þær. Hvers vegna breyta þessu nákvæmlega svona? Þá er ástæða til að fara aðeins yfir það hvernig Póstur og sími hefur staðið að málum, hvaða árangri starfsemi þeirrar stofnunar hefur skilað fyrir Ísland á umliðnum árum og áratugum. Ég ætla þó ekki alveg aftur til þess tíma þegar síminn tók land á Seyðisfirði heldur láta nægja síðustu 10--20 árin. Á þeim tíma hefur eins og kunnugt er margt verið að gerast og mikið að breytast í fjarskiptamálum almennt. Á ég þá ekki aðallega við þessi rekstrarlegu eða stofnanalegu mál heldur tæknina og hvernig henni hefur fleygt fram og nýir möguleikar opnast.

Herra forseti. Eins og kunnugt er búa um 270 þús. hræður í landinu sem er 103 þús. km² ef mig misminnir ekki og það mundu vera um 39 þús. fermílur ef mönnum er tamara að taka þá viðmiðun. Það gæti verið að breskmenntaðir menn væru vanari að mæla flatarmál í fermílum. Þá hafa þeir það, að Ísland er 39 þús. fermílur. Á þessum bletti búa 270 þús. manns tæplega. Þar af búa næstum 60% á einu landshorni og afgangurinn á því sem eftir er af landinu. Samt hefur þessari fámennu þjóð tekist í gegnum þessa stofnun sem hún hefur átt saman, Póst og síma, að byggja upp að mörgu leyti einhverjar nútímalegustu og bestu fjarskiptasamgöngur, ef svo má að orði komast, sem þekkjast í heiminum. Það sem meira er: Þær eru með því ódýrasta sem gerist í heiminum. Er það þá ekki nokkuð til að gleðjast yfir, herra forseti, að við skulum geta stært okkur af því og notið þess að staðan skuli vera svona? Við urðum t.d. fyrstir þjóða til að gera símkerfið algjörlega stafrænt. Ég held ég megi fullyrða að önnur þjóð hafi ekki náð að vera fyrr á ferðinni með þá hluti. Við vorum í allra fremstu röð og auðvitað þarf ekki að fara yfir það fyrir alþingismenn sem eru tæknilega sinnaðir og vel að sér yfirleitt um þau mál hversu miklu það breytir þegar kerfið er orðið að fullu og öllu leyti stafrænt. Þá nýtast mönnum allir þeir miklu möguleikar sem þar með opnast í símkerfinu að nota það á fjölþætta vegu fyrir alls konar tæki og tól sem byggja á stafrænni tækni, fyrir skilaboð og annað slíkt. Þessu náðum við sem sagt fyrstir þjóða, stafrænu símkerfi í öllu landinu.

Við vorum í fremstu röð að byggja upp farsímakerfið sem tók í grófum dráttum til alls landsins. Við slógum reyndar næstum því heimsmet í leiðinni í farsímaeign. En það hefur gjarnan fylgt okkur að vera nýjungagjarnir og kaupglaðir, Íslendingar, þegar slíkt er í boði allt frá fótanuddtækjum upp í farsíma. Við höfum hringtengt landið með ljósleiðurum, við höfum hafið breiðbandavæðingu í mörgum þéttbýlisstöðum og á Íslandi hefur verið lagður grunnur að fleiri tækninýjungum nokkurn veginn samtímis því sem þær eru að koma til sögunnar í heiminum. Við höfum átt það öfluga stofnun sem hefur haft það góðan rekstur og sterkan fjárhag að eiga sitt fjarskiptakerfi og dreifikerfi og póstþjónustukerfi skuldlaust. Ég held að ég megi fullyrða að svo sé enn í dag að Póstur og sími eigi sínar fjárfestingar skuldlausar nema vera kynni að lítils háttar lán hafi verið tekin vegna eignarhluta Pósts og síma í alþjóðlegum fyrirtækjum um lagningu sæstrengs. (Gripið fram í.) Ekki man ég það nákvæmlega en ég get út af fyrir sig aflað þeirra upplýsinga fyrir hv. þm. Þær skipta vissulega máli í þessu samhengi. Það sem meira er, herra forseti, Pósti og síma hefur verið gert hin seinni ár með batnandi afkomu fyrirtækisins, og ég viðurkenni alveg að fyrir því hafa verið nokkur rök, að greiða umtalsverðar og myndarlegar fjárhæðir í ríkissjóð og menn geta sagt að það samsvari arði sem fyrirtækið sé þarna að greiða í formi hagnaðar inn í ríkissjóð upp á hátt í 1 milljarð kr. nú um nokkurt árabil. En auk þess hefur Póstur og sími getað fjármagnað með tekjum sínum fjárfestingar í nýjungum í fjarskiptakerfinu svo nemur svipuðum upphæðum og jafnvel rúmlega það. Með öðrum orðum, fjármunamyndunin út úr rekstri Pósts og síma hefur verið í kringum 2 milljarðar kr. eða jafnvel rúmlega það undanfarin ár. Það er ekki lítið. Þess vegna spyr ég einu sinni enn, herra forseti: Af hverju má ekki slíkt fyrirkomulag vera í friði? Af hverju er það ekki pólitískt markmið og keppikefli allra hugsandi manna að verja það eins og kostur er, að við getum haldið áfram að byggja upp og þróa nútímaleg fjarskipti og póstsamgöngur í gegnum eina sterka einingu sem við eigum og ráðum sjálfir af þessu tagi? Mér finnst dapurlegt að einhverjar erlendar kreddur og trúarbrögð utan að skuli blinda mönnum sýn og bera rökhugsun manna þannig ofurliði, að þeir láti glepjast af slíku í staðinn fyrir að horfa á hina raunverulegu stöðu málsins.

Það er alveg morgunljóst að aðstæður á Íslandi eru þannig að allt þetta samkeppnishjal t.d. í símaþjónustu er meira og minna bull. Það er meira og minna bull vegna þess að aðstæður í landinu bjóða ekki upp á það nema þá hugsanlega að einhverju leyti á einum bletti, suðvesturhorni landsins. Það þarf enginn maður að segja mér að nokkur einkaaðili leggi á næstu árum í að byggja upp sambærilegt fjarskiptakerfi eða grunnnet sambærilegt að gæðum og Póstur og sími á í dag til að halda uppi fullri samkeppni á öllum sviðum um land allt. Það þarf enginn að segja mér að það verði gert. Það mundi taka í hjá miklu stærri aðilum heldur en til eru á Íslandi að snara út um 20 milljörðum kr. eða hvað við eigum að giska á að gæti orðið endurstofnverð fjárfestinga sem til þess þyrfti. Það gæti tekið nokkurn tíma að ná þeim arði úr úr slíkum fjárfestingum svo einhver glóra væri í því.

Hitt er alveg augljóst mál, og það er aðalhættan í þessu máli, að einkaaðilar, að aðrir aðilar gætu séð sér hag í því að bjóða upp á tiltekna afmarkaða þjónustu á tilteknum afmörkuðum svæðum í landinu með það að markmiði að fleyta þar rjómann af en skilja aðra eftir með undanrennuna. Þannig yrði sá samyrkjubúskapur, ef til hans kæmi, að einkaaðilarnir mundu þá fyrst og fremst hugsa sér slíkt.

[23:30]

Herra forseti. Það er fróðlegt í þessu sambandi að bera aðeins saman reynslu annarra þjóða af einkavæðingu á starfsemi af þessu tagi við það sem hér gæti orðið í vændum. Það er dálítið merkilegt að svo sterk hefur frjálshyggjukreddan og trúarbrögðin í sambandi við einkavæðinguna verið að það hefur nánast aldrei tekist að ná upp neinum umræðum um afleiðingar einkavæðingarinnar þar sem þær hafa orðið verstar. Menn gáfu sér það fyrir fram að þetta væri hin 100% eina rétta skoðun og hafa aldrei fengist til að ræða það neitt meira. Nú blasir það þó við, t.d. í Bretlandi sem er aldeilis búið að finna fyrir þessum hlutum, að reynslan af einkavæðingu á tilteknum sviðum er skelfileg. Hún er ekki alls staðar þannig. Sums staðar má segja að hún hafi verið góð. Sums staðar hafa kannski þeir sem vöruðu við og voru hræddir við þetta sem betur fer haft rangt fyrir sér og það hafi tekist skaplega að færa starfsemi frá opinberum aðilum, ríki og sveitarfélögum, yfir til einkaaðila og ekki ástæða til annars en viðurkenna það þá. En reynslan er sums staðar annars staðar svo sannarlega skelfileg, svo sannarlega slæm. Yfirleitt er það niðurstaðan hjá þeim sem hafa lagt í það einhverja vinnu að skoða þetta að einkavæðingin hafi nánast undantekningarlaust leitt til ófarnaðar þar sem í hlut á starfsemi sem annaðhvort beint eða í eðli sínu er fákeppnis- eða einokunarstarfsemi. Það er niðurstaðan og það er svo sem ekkert flókið að skilja hvers vegna það hefur farið þannig, hvers vegna reynslan t.d. af einkavæðingu veitufyrirtækjanna í Bretlandi var jafnhörmuleg og raun ber vitni. Það er ekki flóknara en það, herra forseti, að ef einn maður á vatnslögnina heim í húsið þitt og hann fær síðan einn aðstööu til þess að selja þér vatn, þá er hann í prýðisaðstöðu til að hafa gott upp úr því því hann skrúfar fyrir vatnið ef þú borgar ekki það sem hann vill fá. Það er málið í hnotskurn.

Samkeppni er tómt mál. Hún er út í loftið gagnvart aðstæðum sem þannig eru og þannig liggja og fjarskiptin eru að þó nokkru leyti af þessum sama toga, a.m.k. þar sem aðstæður eru þannig og uppbyggingunni háttar þannig til að eingöngu einn aðili hefur möguleika á því að veita fullkomna þjónustu. Það er bara einn aðili sem á vatnslögnina, í þessu tilviki grunnnetið.

Það er líka fleira sem þarf að hugsa í þessum efnum ef út í samkeppnina kemur á annað borð, herra forseti, og það er hverjir eru líklegir til að koma inn í þá mynd. Það eru fyrst og fremst örfáir risastórir aðilar í heiminum sem hafa verið að leggja hann að fótum sér og kaupa sig inn í símfyrirtæki í þeim löndum sem hafa opnað þau upp og einkavætt þau. Það eru stóru amerísku risafyrirtækin og það eru einn til tveir aðilar á meginlandi Evrópu. Einhverjir peningar kunna að hafa komið í þetta líka, a.m.k. í Asíu frá Japan, en fyrst og fremst eru þetta stóru amerísku símafyrirtækin, risastór, og fjársterkir amerískir auðhringar sem hafa lengi grætt á því furðulega fjarskiptakerfi og símkerfi sem Ameríkumenn hafa rekið með glæsilegum árangri eins og kunnugt er og er gaman fyrir menn að prufa að hringja í síma í Bandaríkjunum t.d. á sumum flugvöllum þar sem þjónustan er hvað glæsilegust og þurfa að rata á réttan aðila til þess að eiga von til þess að ná til tiltekinna borga o.s.frv.

Nýsjálendingar urðu fyrir þeim hamförum sem alkunnugt er að 1984 komst þar til valda svokölluð verkamannastjórn sem í raun og veru var ósvikin og hreinræktuð frjálshyggjustjórn sem nánast framdi valdarán í landinu í tvöföldum skilningi. Hún rændi völdunum í nýsjálenska verkamannaflokknum og landsstjórninni í leiðinni. Eitt af mörgu sem þar var gert var að einkavæða símann. Það leiddi síðan til þess á skömmum tíma að eignarhaldið fluttist úr landi, að gjaldskrárnar hafa rokhækkað og hin einkavæddu fyrirtæki hafa orðið að skila nýjum eigendum arði, uppfylla mjög háar arðsemiskröfur og sá arður hefur að langstærstum hluta runnið úr landi. Reynslan af þessari einkavæðingu var svo slæm eftir fyrstu fjögur til sex árin að Ástralir frestuðu því að einkavæða símann hjá sér einfaldlega vegna þess að reynsla nágrannanna var svo slæm, hún var svo hroðaleg. Það var alveg sama hvar borið var niður, þjónustan hafði versnað og orðið mikið dýrari. Nánast allri þjónustu á vegum símans í minni byggðarlögum og minni þéttbýliskjörnum var lokað, t.d. til sveita í Nýja-Sjálandi sem er mikið landbúnaðarland eins og kunnugt er og byggðin byggir mikið á litlum þjónustukjörnum í sveitahéruðum Nýja-Sjálands. Þar var öllu meira og minna lokað og kerfið er þannig að menn sitja þar uppi með draugabæi í stórum stíl. Það er eins og að keyra í gegnum yfirgefna gullgrafarabæi að fara þar um sveitir nú um stundir er mér sagt. Það er nokkuð um liðið síðan ég hef verið þar á ferð en stendur til bóta. En þannig er það. Þar sem áður voru pósthús, sími, bankar og annað slíkt, er allt lokað og læst og menn þurfa að keyra hundruð kílómetra til þess að komast í þjónustu af þessu tagi eða komast í viðskipti við banka. Síðan er kerfið þannig að þú getur ekki fengið greiddan út ellilífeyri nema hann sé borgaður inn á bankabók og það er búið að loka bankanum í þínu byggðarlagi þannig að þú verður að keyra, eða hjóla eða ganga eða hvernig sem þú berð þig að, kannski hundruð kílómetra til þess að ná aurunum út, því litla sem eftir er af þeim. Það er niðurstaðan í frjálshyggjunni þar.

Þó að við förum ekki í úttekt á því, herra forseti, að svo stöddu nema að þessu leyti sem snýr að símanum, þá er alveg nóg til þess að staldra aðeins við. Það er eins og mig minni, herra forseti, að einhverjir menn hafi farið á vegum Alþingis til Noregs til þess að skoða hvernig Norðmenn hyggist breyta símanum hjá sér, gott ef bara ekki mestöll eða öll samgöngunefnd þingsins. Ég verð að segja alveg eins og er, þó að það þyki kannski ábyrgðarleysi að hvetja til slíkra langferðalaga, að ég held að það ætti að senda þá til Nýja-Sjálands og láta þá læra svolítið af ósköpunum sem þar urðu. (GÁ: Heyr.) Það getur vel verið að ýmsa langi þá til fararinnar, herra forseti, og erfiðara verði að velja í hópinn en þegar farið var í Noregsferðina. En að öllu gamni slepptu þá held ég að þessi Noregsferð hafi verið hálfmislukkuð því að á þeim tíma voru Norðmenn helst á því að þeir mundu reyna að verja sinn síma án þess að breyta honum í hlutafélag og ætluðu sér að fara í eins konar sjálfseignarstofnunarfyrirkomulag en gáfust síðan upp á því. Þeir létu undan. Þeir voru það hallir undir frjálshyggjuna, enda eru þeir með svona hægri krataflokk þar við völd því miður, einn af þessum sem hefur tekið sýkina að allt of miklu leyti sem nánast lagði nýsjálenska verkamannaflokkinn í gröfina, þ.e. trúnað á þessi ósköp. Þeir gáfu eftir og enduðu víst með því að breyta símanum þar í hlutafélag. En vilji menn virkilega sjá víti til varnaðar, þá gætu þeir t.d. farið til þessa ágæta lands sem heitir á máli frumbyggja langa hvíta skýið.

Herra forseti. Ég vil svo gera hér að umtalsefni aðeins einn þátt í þessu máli og hann varðar spurninguna um þær reglur, þau skilyrði sem lögð verði á þá aðila sem hyggjast þá fara að veita þjónustu á þessu sviði þegar og ef það verður opnað upp fyrir svokallaðri samkeppni. Verði þau ósköp yfir menn að koma, þá skiptir náttúrlega alveg úrslitamáli hvernig leikreglur verða þá lagðar til grundvallar þeirri starfsemi. Það er alfa og omega þessa máls sem hér er til umræðu og þá er spurningin um það hvernig þau ákvæði sem hér er verið að leggja til um svonefnda alþjónustu í fjarskiptunum verða skilgreind og hvernig þau verða útfærð. Þar kemur inn á hluti eins og gjaldskrármál, eins og jafnræði landsmanna gagnvart slíkri þjónustu o.s.frv.

Ég viðurkenni að það örlar hér á þó nokkurri viðleitni til að reyna að ganga þannig frá þessum málum að við fáum ekki verstu útgáfuna strax, ég viðurkenni það, í þessum tilburðum til þess að reyna að skilgreina eitthvað sem heitir alþjónusta eða hvað það nú er og að setja kvaðir um að hver og einn þjónustuaðili skuli þá bjóða sína þjónustu á sama verði, t.d. um allt land, innan tiltekinna tímamarka. En spurningin er þá: Hvers konar þjónustu og heldur þetta, herra forseti.?

Sá sem hér stendur sat á sínum tíma og situr reyndar enn í efh.- og viðskn. Alþingis og kom að því að ganga frá frv. til samkeppnislaga sem mikil vinna var lögð í á sínum tíma af hálfu Alþingis. Það var til meðferðar tvo vetur í röð og tók miklum breytingum vegna mikillar vinnu í þinginu. Ég hef oft hugsað um það síðan, herra forseti, hvort við höfum kannski að einhverju leyti misskilið eða feilreiknað okkur þegar við vorum að ganga frá þeirri lagasetningu og ég held að það hafi aldrei verið farið almennilega yfir það á þingi hvort framkvæmdin og túlkun þessara laga hafi síðan í reynd orðið sú sem fyrir mönnum vakti að öllu leyti. Ég er ekki viss um það og ég segi þetta vegna þess að mig hafa stundum undrað niðurstöður og úrskurðir hinnar ágætu Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs. Mér hefur stundum fundist að menn hafi orðið þar svo kaþólskir í þessum samkeppnismálum að það hafi borið menn ofurliði og það komi jafnvel beinlínis niður á almannahag að alræði samkeppninnar og markaðarins skuli í öllum tilvikum vera algert. Það er ekki í mínum skilningi andi samkeppnislaganna að svo sé. Andi samkeppnislaganna er fyrst og fremst að tryggja almannahag gagnvart þeirri starfsemi sem fellur undir lögin og það þýðir ekki endilega að alltaf og í öllum tilvikum skuli samkeppni og markaður ráða. Það þýðir nefnilega ekki það.

Lögin segja: Þar sem forsendur eru fyrir hendi, þar sem samkeppnin er besta tækið til að tryggja verðið og gæði þjónustunnar, þar skal hún ráða, það er rétt. En það er bara ekki alls staðar. Þess vegna spyr ég mig að því þegar Samkeppnisstofnun kemst að niðurstöðu eins og þeirri sem hún hefur sent virðulegri nefnd þingsins, þegar í hlut á starfsemi sem enn er einokunarbundin og sem í eðli sínu hlýtur að verða fákeppnisstarfsemi langt inn í framtíðina, eru menn þá ekki á villigötum að beita þröngri túlkun upphafs\-ákvæða samkeppnislaganna gagnvart slíku ástandi? Ég segi: Jú. Vegna þess að það er að mínu mati þannig að það er langt í land að hægt sé að sýna fram á að einhver raunveruleg samkeppni verði til staðar á þessum sviðum. Og þó að hér komi annað farsímakerfi eða GSM-kerfi, herra forseti, á næstu árum hugsanlega, og þau verði tvö, er þá að mati Samkeppnisstofnunar orðin fullnægjandi samkeppni? Telja menn það? Hvað heitir það á erlendum málum? Nei, það er fákeppni. Það er næsti bær við einokun. Það er það sem Jónas Kristjánsson kallar í leiðurum Dagblaðsins fáokun til þess að tengja það við hugtakið einokun. (Gripið fram í: Tryggingar og olíumarkað.) Og ætli það sé nú ekki alveg rétt, herra forseti, eins og hér er bent á í vinsamlegu frammíkalli að íslenski viðskiptaheimurinn er meira og minna undirlagður af svona fákeppni, fáokun, á sviði tryggingastarfsemi, bankastarfsemi, olíudreifingar o.s.frv. En samt eru menn nú svo heilagir í þessum efnum að þeir láta eins og þeir séu hér staddir í fullkomnu samkeppnisumhverfi og verði það kannski innan tíðar einnig í fjarskiptum. Ég held að þetta sé misskilningur, óraunsæi og draumórar.

Með því er ég ekki að segja að það geti ekki verið fullkomlega réttmætt hjá Samkeppnisstofnun að koma með ábendingar, t.d. gagnvart því hvernig gengið er frá orðalagi um þessa alþjónustu og mér sýnist í sjálfu sér að brtt. meiri hluta á þskj. 373 horfi til bóta í þeim efnum, þ.e. að rétt sé að taka af öll tvímæli um það að þegar talað er um sömu gjaldskrá alls staðar á landinu þá sé rétt að gera það skýrt að átt er við sömu gjaldskrá hjá hverjum og einum rekstraraðila. Þá er að sjálfsögðu ekki verið að banna mönnum að hafa mismunandi verð. Það er eingöngu sagt: ,,Þeir skulu bjóða þjónustuna til allra á sama verði, öllum á sama verði.`` Það er annar hlutur. Það er alls ekki verið að segja að einhverjir framtíðarsamkeppnisaðilar Pósts og síma eða Póst- og fjarskiptastofnunarinnar sem þetta á að heita samkvæmt lögunum, geti boðið þjónustu sína á öðru verði eða að mismunandi rekstraraðilar geti boðið þjónustu sína á mismunandi verði, Póstur og sími hf. eða hvað það nú er og svo einhverjir aðrir.

[23:45]

Það sem ég hef aðallega áhyggjur af er að tryggt verði að þetta haldi, að ekki verði lúffað með þetta skilyrði og að skilgreiningin á þjónustunni verði fullnægjandi. Og af hverju er ástæða til að hafa áhyggjur af þessu? Það er vegna þess að það eru þegar í gangi í dag tilraunir til að brjóta sömu hluti niður. Ég minni þar t.d. á útboð núna um annað GSM-kerfi. Hver er umræðan í kringum það útboð? Jú, það eru komnir fram aðilar sem nöldra yfir því að það sé verið að gera of stífar kröfur. Það eru auðvitað komnir af stað aðilar sem vilja fá að bjóða upp á þessa þjónustu eingöngu á suðvesturhorni landsins. (Gripið fram í.) Við getum rætt um það hv. þm. en hvað þá með alþjónustuna? Hvert er hún þá komin? Nú var ekki gengið lengra í þessum útboðsskilmálum, ef ég hef tekið rétt eftir, heldur en að segja að þessa þjónustu ætti að veita um allt land og í öllum byggðarlögum þar sem væru þúsund íbúar eða fleiri. Með öðrum orðum var opnað fyrir það að þetta farsíma- eða GSM-kerfi nr. 2 yrði verulega götótt strax frá byrjun. En því una menn ekki, því mótmæla menn. Og inn í hvaða framtíð teiknar það annað en það að við verðum að búast við því þegar við afgreiðum þessa hluti að það verði í gangi tilraunir til að brjóta þetta niður strax frá byrjun. Það verði í gangi tilraunir af hálfu aðila sem hafa til að mynda engan áhuga á því að bjóða upp á einhverja alþjónustu á fjarskiptasviðinu á Vestfjörðum, ætla ekkert að vera að púkka upp á Árneshrepp á Ströndum eða annað því um líkt. Þannig að menn skulu ekki láta sér detta annað í hug heldur en það að svona verður þetta og við því verða menn að vera búnir. Þess vegna skiptir miklu máli að hér sé reynt að ganga þannig frá hlutunum að þeir leki ekki í stórum stíl, herra forseti.

Ég er þess vegna, herra forseti, algjörlega sammála því sem hér kemur fram í áliti minni hlutans í nefndarálitum við þessi frumvörp að það er ótímabært að afgreiða þessi mál nú. Þau mundu bíða sér til mikilla bóta fram yfir nýárið og til frekari umfjöllunar á þingi eftir áramót. Það er alls engin tímanauð sem rekur til þess að afgreiða þetta nú, ekki nokkur, og það væri full ástæða til að vanda betur frágang ýmissa hluta hér, bæði tæknilega en líka pólitískt.

Ég segi þetta líka vegna þess, herra forseti, að ég er svo ótrúlega mikill bjartsýnismaður þrátt fyrir allt, og ekki síst svona þegar klukkan er að nálgast miðnætti og hillir undir nýjan dag í lífi okkar allra, að ég trúi því að þetta einkavæðingarfár, þessi mikla sefasýki sem hefur tröllriðið Vesturlöndum um nokkurt árabil, sé nú að lenda á undanhaldi og það sé einungis tímaspursmál hvenær þessi mál komast á nýjan leik í raunsærra ljós og menn fara að meta þetta meira eftir eðli máls og kosti og göllum í hverju tilviki. Þá held ég að væri til nokkurs unnið fyrir okkur Íslendinga ef við næðum að bíða þetta fár og þessa hrotu af okkur, og gætum á nýjan leik leik farið að setjast yfir það að skoða hlutina efnislega út frá okkar sjónarhóli og aðstæðum í landinu, hvernig væri skynsamlegast og best að hafa skipulagið á málum hér hjá okkur. Og að sjálfsögðu þurfum við þá í leiðinni að verja stjórnskipulegan og fullveldislegan rétt til þess að ráða einhverju um það sjálf hvernig við höfum hlutina.

Þessi óskaplega nauðhyggja, herra forseti, nauðhyggja undir tískustrauminn, einkavæðingarbylgjuna og fárið, og svo hitt að það verða allir að apa allt upp eftir öllum, hún er þreytandi og dapurleg og hefur auðvitað ráðið hér allt of mikið ferðinni, herra forseti, á undanförnum árum. Það er leitt til þess að vita ef við náum ekki að standa af okkur það sem vonandi eru síðustu missirin, kannski árin, af þessari bylgju áður en hún fer að hjaðna verulega, áður en meira og meira kemur upp úr kafinu, kemur fram í dagsljósið um mistökin sem hafa verið gerð, um hinar skelfilegu afleiðingar sem orðið hafa víða af þessu ofstæki. Þá er alveg ljóst að það yrði eingöngu tímaspursmál hvenær menn tækju þessi mál til skoðunar á nýjum og heilbrigðari forsendum en hefur verið nú um skeið. Þannig að ég, herra forseti, tel að það séu afar góð hollráð sem hér eru ráðin að fresta afgreiðslu þessara frumvarpa.