Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 23:53:49 (2357)

1996-12-17 23:53:49# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A #, 150. mál: #A #, 151. mál: #A #, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[23:53]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir þessi vinsamlegu tilmæli hv. þm. Svavars Gestssonar. Það hefur áður í kvöld farið fram umræða um nauðsyn þess að það yrðu einhverjar samræður milli stjórnar og stjórnarliða og ég undirstrika það sérstaklega að menn mátu það hér í salnum sem kom fram af stóli forseta. Hæstv. forseti sem þá sat, Guðni Ágústsson, tók undir með þeim þingmönnum sem hér mæltu og taldi að það væri nauðsynlegt að freista þess að ná einhvers konar samstöðu um það hvernig ætti að haga þessari umræðu.

Herra forseti. Það er langt liðið á kvöld og eins og stundum hefur verið bent á úr þessum stóli megum við ekki níðast of mikið á hinu ágæta starfsfólki þingsins sem þarf auðvitað góða hvíld ekki síður en við, herra forseti. Það liggur fyrir að við eigum eftir mjög annasama daga það sem eftir lifir þessarar viku ef það á að takast að ljúka hér ýmsum mikilvægum málum, sem stjórnarandstaðan mundi fyrir sitt leyti gjarnan vilja leggja lið að næðist. Það er hins vegar alveg ljóst að til þess að svo verði, verður með einhverjum hætti að koma fram einhvers konar samkomulagsvilji af hálfu stjórnarliðsins. Það hefur komið fram eins og ég sagði, herra forseti, að a.m.k. stöku maður í liði stjórnarinnar, og þá vísa ég aftur til ummæla hv. þm. Guðna Ágústssonar, er þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að reyna að freista samtöðu um þetta mál. En ég sé ekki, herra forseti, að það gagnist mikið að við höldum áfram að ræða þetta mál meðan allt er í óvissu um það hvernig því verði náð niður að lokum sem og öðrum málum. Þess vegna mælist ég til þess að meðan menn kanna landið í þessum efnum þá verði gert hér örfárra mínútna hlé til að menn geti kannað til þrautar þá möguleika sem kunna að leynast í þessari stöðu sem er ekki mjög flókin.