Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 23:58:34 (2360)

1996-12-17 23:58:34# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A #, 150. mál: #A #, 151. mál: #A #, RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[23:58]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það var ekki alveg orðið kvöldsett þegar við hófum umræðu um fundarstjórn forseta. Klukkan var aðeins um 22, það eru tveir tímar síðan. Þá kölluðum við eftir áformum forseta og bentum á hversu mörg mál biðu, hversu fáir dagar væru eftir til jólahlés og við þingmennirnir sem erum hér að störfum höfum áhyggjur af þessu og hvernig eigi að ná fram þeim málum sem eru svo brýn fyrir ríkisstjórnina. Fyrir okkur er það undarlegt að ekki skuli vera reynt að koma til móts við þau góðu áform sem við höfum með því að gera samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu um starfsáætlun fram til jólahlés. En það er alveg greinilegt á störfum forseta að ekkert slíkt liggur fyrir og annað hitt að ekki hefur verið leitað eftir því eins og svo oft hefur verið gert að þingflokksformenn kæmu til fundar við forseta til að ræða hvernig skuli halda áfram þingstörfum þann dag sem verið er að fjalla um mál. Nú er miðnætti og við erum búin að vera að síðan kl. átta í morgun. Okkur er að sjálfsögðu engin vorkunn en þannig mun þetta væntanlega verða næstu daga líka og dagar eiga eftir að verða langir. Ekki má haga málum þannig að hætta sé á vondum vinnubrögðum eða mistökum í lagasetningu af því að þingmenn séu ekki alveg skýrir í kollinum. En forseti orðar það svo að hann kysi að gera ekki fundarhlé en halda áfram fundi til kl. eitt. Ég vil gera þá málamiðlunartillögu til forseta hvort ekki sé ásættanlegt að við höldum þessum fundi áfram svona fram undir hálfeitt. Miðað við þann litla vilja til samstarfs sem kemur fram í upplýsingum forseta held ég að það væri mjög gott að við sameinuðumst um það að vera ekki mikið lengur en til hálfeitt og þá lykjum við þessum fundi. Og svo hljótum við að vona að á morgun verðum við vör við meiri samstarfsvilja heldur en í ljós hefur komið á þessum degi og þessu kvöldi.