1996-12-18 00:02:31# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A #, 150. mál: #A #, 151. mál: #A #, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[24:02]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég held að ég tali fyrir hönd a.m.k. stjórnarandstöðunnar þegar ég segi að við metum þessa viðleitni forsetadæmisins til þess að ná ágætu samkomulagi um það hvernig þessu kvöldi er ráðið til lykta. Það er alveg ljóst að stjórnarandstaðan vill fyrir sitt leyti reyna að ná samkomulagi við stjórnina um það hvernig þinghaldi verði háttað hér fyrir jólahátíðina og hvernig hægt er að ná farsælli niðurstöðu, þannig að þau mál sem þarf að samþykkja fyrir jól verði samþykkt. Það er alveg ljóst að stjórnarandstaðan ætlar ekki að halda hér uppi neinu málþófi til þess að tefja mál en hitt er líka alveg jafnljóst að til þess að hægt sé að ná samkomulagi verður að vera vilji til þess líka af hálfu stjórnarliðsins. Sá vilji hefur birst með afskaplega takmörkuðum hætti það sem af er þessa dags, a.m.k. þangað til að forsetar tóku e.t.v. völdin af stjórnarliðinu í þessum efnum hérna áðan og sýna það að auðvitað eru það þeir sem eiga að ráða en ekki endilega þeir sem fara með meiri hluta hverju sinni. Það skiptir öllu máli fyrir traust þingsins til forsetanna að þeir taki á málum eftir því sem þeim þykir réttsýnast og sanngjarnast.

Það er nú svo, herra forseti, að þegar liðið er á þennan tíma ársins þá gerist það yfirleitt þegar menn líta augum persónu hæstv. samgrh. að það vekur með þeim jákvæðar kenndir, sennilega vegna þess að fas allt og látæði hæstv. ráðherra er með þeim hætti að ósjálfrátt kemur upp í huga þeirra mynd þeirrar persónu sem á þessum tíma árs er yfirleitt talinn besti vinur barnanna, þ.e. jólasveinsins. Nú er það hins vegar svo að viðbrögð hæstv. ráðherra í kvöld gagnvart ýmsum ummælum þingmanna, ég á þá sérstaklega við orðaskipti hans og hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar, hafa verið þannig að það er af og frá að það sé hægt að gefa honum sæmdarheitið jólasveinn ríkisstjórnarinnar á þessu kvöldi. Og vera kynni að ýmislegt sem hann lét sér um munn fara sé þess eðlis að það rifjar upp í huga manns fjarskyldan ættingja þeirrar ágætu stéttar, sem í minni sveit var nú kallaður Leppalúði. Ég vona að hæstv. forseti ávíti mig ekki fyrir þetta því hér er ég að vísa til minna úr þjóðsögum sem ég veit að við höfum allir mikla ást á, ég, hæstv. forseti og auðvitað hæstv. ráðherra.

En þetta mál sem hérna er til umræðu er auðvitað umdeilt. Ég vil hins vegar leiðrétta það strax sem hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra þegar hann átti hér orðaskipti við hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson úr mínum flokki, að Alþfl. hafi jafnan lagst gegn þeim breytingum sem hafa orðið á högum Pósts og síma. Ég vil rifja það alveg sérstaklega upp að þó að stjórnarandstaðan hafi á þessu kvöldi sameinast um að óska eftir því að þessu máli verði frestað, þá eru auðvitað skiptar skoðanir innan stjórnarandstöðunnar. Ég vil sérstaklega rifja það upp, herra forseti, að ég lýsti því alveg skorinort yfir hér á síðasta vori að ég teldi að það ætti og væri farsælt að gera Póst og síma að hlutafélagi. Og ég deildi skoðunum nákvæmlega með hv. þm. og varaformanni samgn., Magnúsi Stefánssyni, þegar hann kom hér líka upp og sagði að hann teldi að það ætti að gera fyrirtækið að hlutafélagi, en það væri eitt og hins vegar allt annað að einkavæða það. Þetta er alveg nauðsynlegt að komi skýrt fram. Það er ekki hægt að segja að menn séu á móti eðlilegum breytingum á ríkisfyrirtækjum vegna þess að þeir séu á móti frv. sem kunna að lúta að viðkomandi málum ef ástæðan, eins og hefur verið rakið hér í skýru máli stjórnarandstöðunnar í kvöld, er sú að þeir einfaldlega telja málið vera allt of losaralegt af hálfu ríkisstjórnarinnar. Og ég verð að segja að jafnskýr og hv. þm., formaður samgn., jafnan er og vandaður í vinnubrögðum, þá fyllist ég auðvitað nokkurri samúð með honum að þurfa að leggja nafn sitt við það sem hér er. Eins og ég mun rekja í ítarlegu máli hér á eftir er auðvitað að finna í frv. afskaplega margt sem a.m.k. meðal Íslendingnum mun ganga erfiðlega að skilja, og jafnvel jafnskýrum mönnum og þeim hæstv. ráðherra og hv. formanni líka. Það er einfaldlega svo að í frv. eru skilgreiningar sem ekki ganga upp og ákvæði sem virðast ganga gegn hvert öðru. Það eru mikilvæg ákvæði eins og t.d. það sem varðar alþjónustu sem ég mun ræða hér á eftir.

En fyrst, herra forseti, vil ég segja það út af orðum hæstv. ráðherra um afstöðu Alþfl., að það er nauðsynlegt að fara aðeins aftur í söguna þótt ég ætli ekki að eyða of miklum tíma í það, en það er bara nauðsynlegt að rétt sé haldið á málum og hið rétta komi fram.

Hæstv. ráðherra sagði að Alþfl. hefði jafnan lagst gegn því að fyrirtækið Póstur og sími yrði gert að hlutafélagi og hefði komið í veg fyrir að svo væri gert í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þetta er rétt hjá hæstv. ráðherra. En það er hins vegar rangt hjá honum að halda því fram að Alþfl. sem heild hafi verið á móti því að hlutafélagavæða Póst og síma. Við töldum einfaldlega á sínum tíma að vinnubrögðin við það og þær hugmyndir sem þá voru uppi væru þess eðlis að það væri afskaplega erfitt fyrir framfarasinnaðan, nútímalegan jafnaðarmannaflokk eins og Alþfl. var og er, að gangast undir það jarðarmen sem fólst í því frv. Og ég verð að segja það líka, herra forseti, og tala þá frá sjónarhóli talsmanns frjálsrar samkeppni, að ég líð önn fyrir að lesa ýmislegt í þeim frv. sem hérna liggja fyrir og ég nefni þá sérstaklega 8. gr. í frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun sem varðar úrskurðarnefnd fjarskipta og póstmála og líka 7. gr. í frv. til laga um fjarskipti --- raunar 7., 8. og 9. gr. og kannski sérstaklega þá grein sem varðar útboð. Þar verð ég að segja, herra forseti, að ég tel að ekki sé nándar nærri nógu fast að orði kveðið t.d. um útboð. Ég kem nú að því síðar í þessari ræðu minni eða þá þeim ræðum sem ég á síðar eftir að flytja um þetta mál. En með nákvæmlega sömu rökum er það þannig, herra forseti, að á síðasta þingi treysti Alþfl. sér ekki til að styðja það frv. sem hæstv. ráðherra lagði fram um að gera Póst og síma að hlutafélagi.

Og af því ég sé nú hæstv. forsrh. reka sitt hrokkna höfuð hér inn um gættina, þá veit ég það líka að ef hann mundi skoða þetta mál grannt þá væri hann mér sammála vegna þess að hann var a.m.k. á sínum frægu sokkabandsárum sannur talsmaður frjálsrar samkeppni. En sem stuðningsmaður þessa frv. hlýt ég að draga í efa að hann sé það enn þá, því miður. Hann virðist sem sagt hafa tapað því með e.t.v. ýmsu öðru, kílóunum. En, herra forseti, þetta frv., sem hæstv. samgrh. kvartaði undan að Alþfl. hefði ekki stutt í fyrra, var að mörgu leyti losaralegt. Ég gat þess sérstaklega, þá og tel rétt að rifja upp þá afstöðu mína, að samhliða því sem ég taldi sjálfsagt að íhuga það að gera Póst og síma að hlutafélagi benti ég á að það voru mjög erfið ákvæði í frv. sem var mjög erfitt fyrir Alþfl. að fallast á. Það voru þau ákvæði sem vörðuðu réttindamál starfsmanna. Enda var það svo að það þurfti mikla umræðu hér í þinginu og nokkra yfirferð af hálfu samgn., breytingar á þeim ákvæðum, til þess að stjórnarliðið treysti sér til að samþykkja þau ákvæði en þau gengu að mínum dómi alls ekki nógu langt. Það var auðvitað ýmislegt fleira. Ég minnist þess að mönnum þótti skrýtið í því frv., t.d. það að hæstv. samgrh. vildi fara sjálfur með hlutafélagið en þurfti samt sem áður sjö manna stjórn sem hann ætlaði skipa alla sjálfur. Svo ætlaði hann auðvitað að halda aðalfund og hverjir fara á aðalfund? Það eru auðvitað þeir sem fara með hlutaféð. Með öðrum orðum, það var ákvæði í lögum um að halda skyldi aðalfund með þessum eina tiltekna ráðherra. Það er sennilega einsdæmi í sögunni að einn tiltekinn ráðherra sé skilgreindur sem fundur.

Herra forseti. Ég vil líka, sögunnar vegna, geta þess að ég taldi að það væri margt sem mælti með því að fyrirtækið Póstur og sími yrði gert að hlutafélagi. Ég er enn þeirrar skoðunar að það sé hið eðlilega form á þessu fyrirtæki. Og ég er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að hlutafélagsformið sé notað fyrir miklu fleiri ríkisfyrirtæki. Ég vil líka, vegna þeirrar umræðu sem spannst hér fyrr í kvöld, rifja það upp að ég held að vel flestir flokkanna sem hafa staðið að ríkisstjórnum síðustu ára, ég held að allir hinir svokölluðu fjórflokkar sem standa á gömlum merg hafi komið að því, ekki bara að því að gera fyrirtæki að hlutafélögum heldur að því að einkavæða þau með einum eða öðrum hætti. Það er t.d. alveg ljóst að Alþfl. kom að því í síðustu ríkisstjórn og þeirri næstsíðustu og Framsfl. hefur komið að því og vitaskuld Sjálfstfl. En menn mega heldur ekki gleyma því að það var einn af mínum gömlu pólitísku fósturfeðrum, hv. þm. Svavar Gestsson, sem sagði það hér í umræðu um Sementsverksmiðjuna árið 1992, að ég hygg, þegar menn voru að gera Sementsverksmiðjuna að hlutafélagi, að það þyrfti að vera leið til þess að einkavæða ríkisfyrirtæki. Og það er auðvitað merkilegt að einn af talsmönnum Alþb. hefur látið sér þetta um munn fara en það er kannski ekki merkilegt þegar maður horfir til þess að Alþb. tók líka þátt í því, sennilega 1990, að ekki bara hlutafélagsvæða heldur einkavæða Ferðaskrifstofu ríkisins. Og ég man ekki betur en að í sömu ríkisstjórn sem Alþb. átti sæti í hafi menn líka einkavætt Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg. Þannig hafa allir bergt á þessum kaleik. Og ég held að það sé alveg ljóst að allir flokkar eru þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að hafa einhvern farveg til þess að gera ríkisfyrirtæki bæði að hlutafélögum og líka að einkavæða þau. En menn verða að gera það skynsamlega. Og þegar ég segi að farveginn skorti, þá er það auðvitað svo að ríkisstjórnum, bæði þeirri sem nú situr og líka fyrri ríkisstjórnum, hefur gengið brösuglega að finna þennan farveg. Og það er sérstaklega einn steinn sem steytt hefur á, það eru réttindamál starfsmanna.

Ég rifja það upp að ég tók sjálfur þátt í því í góðri trú og með ráðleggingum fjölda lærðra lögspekinga árið 1992, að koma hér í gegn tveimur frv. sem hlutafélagavæddu merk ríkisfyrirtæki, annars vegar Sementsverksmiðjuna og hins vegar Síldarverksmiðju ríkisins. Ég taldi að þá væri rétt staðið að því hvernig unnið var að réttindamálum starfsmanna. Það hefur komið í ljós að ég hafði rangt fyrir mér. Sú ríkisstjórn sem þá sat hafði rangt fyrir sér vegna þess að það hafa fallið dómar sem sýna fram á það. Og menn verða auðvitað að læra af reynslunni, herra forseti, og taka mið af því þegar þeir leggja fram mál sín. Þetta var ástæðan fyrir því, herra forseti, að ég treysti mér ekki til þess að styðja með atkvæði mínu frv. sem hæstv. samgrh. lagði fram í fyrra um að gera Póst og síma að hlutafélagi. En ég er þeirrar skoðunar að það sé af hinu góða og geti verið gott. Það er í fyrsta lagi nauðsynlegt að gefa ríkisfyrirtækjum oft og tíðum meiri sveigjanleika heldur en þau hafa og það var nauðsynlegt fyrir Póst og síma að hafa þessa sveigju. Það er ljóst að það er sennilega enginn geiri atvinnulífsins sem sætir jafnörum breytingum. Framvinda tækninnar er slík að við getum í dag ekki séð fyrir þá hörðu samkeppni sem þetta fyrirtæki mun þurfa að taka þátt í á næstu árum. Það er alveg ljóst að þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum axlað t.d. með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, setja fyrirtækin í þá stöðu að það þarf að geta brugðist mjög hratt og skjótt við breytingum og það er það sem ég á við að sveigjanleiki hlutafélagaformsins er fyrirtækinu nauðsynlegur.

[24:15]

Það hefur réttilega komið fram fyrr í kvöld að Póstur og sími er vel rekið fyrirtæki. Það hefur verið undanfari annarra svipaðra evrópskra símafyrirtækja um upptöku nýrrar tækni, samanber hina stafrænu símatækni og það má auðvitað nefna ýmislegt fleira. Það má nefna að í sumum efnum er ekkert símafyrirtæki í öllum heiminum, eða a.m.k. ekki í Evrópu, sem getur boðið þjónustu fyrir jafnlágt verð. Það í sjálfu sér eru ekki rök fyrir því að það megi ekki gera fyrirtækið að hlutafélagi heldur eru það ekki síður rök fyrir því að til þess að gera fyrirtækinu kleift að halda þessari stöðu, þá þarf að brynja það þeim tækjum og vopnum sem það þarf á að halda í samkeppni komandi ára og að mínu viti er hlutafélagaformið bæði sverð og skjöldur í slíkri baráttu. Það gerir fyrirtækinu kleift líka að mæta öðrum hlutafélögum á jafnréttisgrunni og það er alveg ljóst að upp munu koma fyrirtæki, fyrirtæki sem e.t.v. eru ekki til í dag, sem munu reynast skæðir keppinautar.

Ég tala líka sem skattborgari, herra forseti, þegar ég segi að það er ágætt og æskilegt að gera svona ríkisfyrirtæki að hlutafélögum oft og tíðum vegna þess að mér finnst t.d. þægilegt sem skattborgari að vita til þess að í hinum harða heimi samkeppninnar sem við vitum að er á næstu grösum, takmarkast ábyrgð ríkisins, míns ríkis, ekki lengur við ótakmarkaða ábyrgð eins og áður fyrr heldur einungis við hlutaféð og það skiptir auðvitað máli. Ég er líka þeirrar skoðunar og tek undir með þeim sem segja að hlutafélagaformið setur vissan aga, setur meiri ábyrgð á stjórnendurna. Ég ítreka það hins vegar sem hv. varaformaður samgn., Magnús Stefánsson, sagði hér í fyrra. Það er eitt að gera ríkisfyrirtæki að hlutafélögum og það er annað að einkavæða þau. Menn mega ekki einkavæða í blindri trú. Þó það hafi verið hv. þm. Svavar Gestsson sem sagði einmitt í umræðu um Sementsverksmiðjuna 1992: ,,Við verðum að hafa leiðir til þess að einkavæða ríkisfyrirtækin``, þá er það samt sem áður þannig að einmitt í tengslum við Sementsverksmiðjuna hf. birtist okkur á síðustu dögum blind trú á nauðsyn einkavæðingar.

Við heyrðum það í fréttum fyrr í kvöld að nú vill ríkisstjórnin selja 25% af Sementsverksmiðjunni. Gott og vel. Það má rifja upp að margir úr liði stjórnarinnar sem komu þessu í gegn, þar á meðal ég og ýmsir úr liði Sjálfstfl. komu upp og sögðu að það kæmi ekki til mála að selja þetta hlutafé. En það gæti samt sem áður verið réttlætanlegt ef um væri að ræða einhverja fjárfesta sem væru að koma inn í fyrirtækið og hefði með sér nýja tækni, nýtt hugvit og umtalsvert fjármagn, en því er ekki að heilsa. Það á að selja 25% í Sementsverksmiðjunni af því að einhverjum strákum úti í bæ dettur það í hug. Þeim finnst að það sé í stíl við einhverja stefnu sem þeir hafa barist fyrir árum saman innan einkavæðingarnefndar, en það er ekkert sérstakt tilefni. Það er bara einhver tala sem var búin til á einhverri fjárlagaskrifstofu fjmrn. sem segir: Við þurfum að selja þetta mikið af hlutum í ríkisfyrirtækjum til þess að ná þessu tiltekna marki. Það er ekkert sem knýr á um það, herra forseti, að núna nákvæmlega séu seld 25% í Sementsverksmiðjunni. Það sést best á því að hæstv. ráðherra, sem reifaði þetta í sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum í kvöld, sagði að auðvitað ætti að gefa starfsmönnum verksmiðjunnar forkaupsrétt. Bíðum nú við, herra forseti. Starfsmönnum verksmiðjunnar? Á hvaða launum eru þeir? Hverjir eru þessir hálaunamenn hjá Sementsverksmiðju ríkisins sem hafa færi á því að notfæra sér þennan forkaupsrétt? Það eru kannski örfáir forstjórar og stjórnendur en það eru ekki þeir sem eru að aka sementinu, sem eru að sekkja sementið, sem eru að vinna hörðum höndum í verksmiðjunum, mennirnir sem hafa milljón til 11/2 millj. í tekjur á ári. Það eru ekki þeir sem geta séð af naumum launum sínum til þess að fjármagna hlutabréfakaup í slíku fyrirtæki.

Herra forseti. Af því að ég sé að hæstv. samgrh. hefur nú hætt lestri þessarar annars mjög góðu bókar sem fyrir framan hann liggur þá ég vil nota tækifærið og reyna að upplýsa hann í þessum efnum. Þetta er dæmi um blinda trú á einkavæðingu. Þetta er einkavæðing einkavæðingarinnar vegna en ekki endilega vegna þarfa fyrirtækisins, vegna þess að það skiptir engu máli fyrir starf þessa fyrirtækis eða framtíð þó að t.d. fjórðungur þess verði seldur starfsmönnum fyrirtækisins.

Þetta vildi ég nú segja um það sem ég kalla oftrú á einkavæðingu. Samhliða því sem ég lýsi því alveg skorinort yfir að ég tel að það eigi að beita hlutafélagaforminu í ríkari mæli á ríkisfyrirtæki, ítreka ég aftur sameiginlega skoðun mína og hv. varaformanns samgn. að það er eitt að hlutafélagavæða og allt annað einkavæða. (Samgrh.: Hvað segir þingmaðurinn um bókina? Er þetta er góð bók?) Herra forseti. Hæstv. samgrh. skýtur hér að mér spurningu um það hvort ég sé kunnugur skáldskap Jónasar Guðlaugssonar. Svarið er: Já. Og ég mætti þá kannski biðja hann um að lesa kvæðið sem byrjar svo:

  • Þú ert eins og kirkja á öræfatind
  • svo auð sem við hinsta dauða.
  • Framhaldið veit ég að hæstv. ráðherra kann.

    En ég lofaði því í upphafi ræðu minnar að sýna hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fram á að sitthvað er í þessu frv. sem maður með hans atgervi, og sem sannarlega er enginn aukvisi að andlegum burðum, á ekki að leggja nafn sitt við. Ég gríp til að mynda niður, herra forseti, í 2. gr. frv. til laga um fjarskipti, orðskýringar. Og af því að ég veit að hæstv. ráðherra er unnandi orðsins mennta og ber óvanalega gott skyn á íslenskt mál, þá langar mig aðeins að velta fyrir mér tiltekinni skilgreiningu sem þar er af því að ég veit að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er að hlusta hér í hliðarherbergi, þ.e. skilgreiningunni á ,,alþjónustu.`` Það er lykilhugtak í þessu frv. og skiptir verulega miklu máli þegar kemur að jafnmikilvægum þætti og t.d. útboðum á miklum hlunnindum eins og t.d. tíðnisviðum og fjarskiptarásum sem fela í sér mjög mikil fémæt réttindi. Þar segir svo, herra forseti:

    ,,Alþjónusta: Afmarkaðir þættir fjarskipta, sem boðnir eru öllum notendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra.``

    Ég þori að fullyrða, herra forseti, að hæstv. samgrh. veit ekki hvað í þessu felst. Það er ómögulegt fyrir venjulegan Íslending að skýra hvað í þessu felst og það er meira að segja ómögulegt fyrir óvenjulegan Íslending eins og hæstv. samgrh. Hæstv. samgrh. sem leggur fram þetta frv. getur ekki komið hingað upp og skýrt út fyrir mér hvað felst í orðinu ,,alþjónustu``. Og jafnvel sá svinni Vestfirðingur sem þarna situr, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, formaður samgn., getur ekki heldur skýrt út fyrir mér hvað í þessu felst. Og hvers vegna, herra forseti, leyfi ég mér að fullyrða þetta? Það er vegna þess að í frv. sjálfu kemur fram, að enn þá veit enginn Íslendingur hvað í alþjónustu hæstv. samgrh. felst. Það kemur nefnilega fram að varðandi þetta lykilhugtak í frv., á enn eftir að skilgreina hvað í því felst. Það segir nefnilega, herra forseti, að í alþjónustu felist eins og ég sagði áðan, með góðu leyfi forseta: ,,Afmarkaðir þættir fjarskipta.`` Hvaða þættir fjarskipta eru þetta? Þeir eru ekkert skýrðir frekar. Það er ekkert á þá minnst. Það er einungis sagt að síðar eigi að mæla fyrir um það í reglugerð sem samgrh. setur hvað í þessu felst, hvað felst í alþjónustu sem er eitt af þeim skilyrðum sem hæstv. ráðherra getur t.d. sett þeim sem vilja sækja um rekstrarleyfi fyrir afar mikilvægri starfsemi. Þeir menn sem hafa hug á því í dag eiga það á hættu að hæstv. ráðherra segi að þeir verði að geta sinnt alþjónustu án þess að hann geti skýrt út fyrir þeim hvað í því felst.

    Herra forseti. Þetta er óskaplega merkilegt. Þetta er lykilhugtak sem kann að vera ráðandi um það hverjir fá úthlutað miklum verðmætum í formi fjarskiptarása og líka hverjir fá niðurgreidda starfsemi sína í gegnum þetta jöfnunargjald sem einnig er að finna í frv.

    Þegar einfaldur Íslendingur eins og sá sem hér stendur skyggnist dýpra í þetta hugtak og reynir að gera veikburða tilraun til þess að tengja það við aðra þætti frv. sem það varða, þá tekur heldur ekki betra við. Ég vek athygli á því, herra forseti, að hugtakið segir eins og fyrr er sagt að þetta þýði afmarkaða þætti fjarskipta, með leyfi forseta: ,,sem boðnir eru öllum notendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra.``

    Herra forseti. Hér vakna strax tvær spurningar um það hvernig beri að skilja mælt mál. Hvað er t.d. viðráðanlegt verð? Hvernig geta menn sett svona inn í skilgreiningu á lykilhugtaki. Hvað er viðráðanlegt verð? Ég get ekki skýrt það, herra forseti. Og hæstv. samgrh. getur heldur ekki skýrt það. Og það sem meira er, frv. gefur honum ekki færi á að setja reglugerð um það vegna þess að orðalag þessarar greinar um reglugerðarheimild ráðherra er slíkt að það er alveg ljóst að hann á ekki að setja neina gjaldskrá í þeirri reglugerð. Þetta er því hálfkarað og óskýrt. Það getur enginn í dag metið hvað í þessu felst.

    Hin spurningin sem vaknar þegar ég les bara þessa skilgreiningu, a.m.k. í krafti þess hvernig ég skil mælt mál, er hvort hér sé ekki fortakslaust verið að kveða upp úr með það að alþjónustan, hvernig sem hún er að öðru leyti skilgreind, verði að ná til alls landsins. Ég spyr: Hvernig ber öðruvísi að skilja orðin ,,öllum notendum`` og síðan orðin ,,óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra``? Í mínum huga er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að þegar upp er staðið verði ekki annað hægt en að alþjónustan eigi að ná til alls landsins án tillits til þess hvar menn eru staðsettir.

    Ég vek sérstaka athygli hv. formanns samgn. á því að í þessari grein og við þessa skilgreiningu er ekkert sem mælir fyrir um það að framkvæmdarvaldið eigi að takmarka þennan skilning á orðinu við starfssvæði viðkomandi rekstrarleyfishafa. Það segir ekkert um það í þessari skilgreiningu. Það hlýtur auðvitað að verða mjög mikilvægt þegar menn fara að skilgreina hvað í þessu felst í framtíðinni. Þetta er mikilvægt, segi ég, vegna þess að í 7. gr., sem fjallar um skylduna til að veita alþjónustu, þá allt í einu skýtur upp kolli ákvæði þar sem segir að Póst- og fjarskiptastofnun geti mælt svo fyrir að sá sem uppfyllir skilyrði greinarinnar á undan um forsendur rekstrarleyfis, verði líka að veita alþjónustu á starfssvæði sínu. Og ég spyr, herra forseti: Er sá sem er skyldur til þess að veita alþjónustu, skyldur til þess að veita hana öllum alls staðar á landinu? Það er ekki hægt að skilja orðskýringarnar með nokkru öðru móti. Eða er til eitthvað allt annað sem heitir starfssvæði?

    Herra forseti. Þarna hafa menn í besta falli ekki unnið nógu vel og í versta falli rekast þessar tvær greinar á. Jafnvel þingmaður sem er góðviljaður bæði hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, formanni samgn., og hæstv. ráðherra, getur ekki fallist á að þetta sé skýrt. Þetta er mjög óskýrt og ég segi það, herra forseti, að ef menn ætla að halda því fram að hér sé skýrt að orði kveðið, hvernig tala þessir menn þá þegar þeir tala loðið? Ég, herra forseti, ver löngum tíma í þetta mál til að rökstyðja þá fullyrðingu sem kemur fram í niðurlagi álits minni hlutans og kom fram í ítarlegri og merkri ræðu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar, að frv. án tillits til meginefnis þess sé tæknilega svo vanbúið enn þá, sé hálfkarað og því sé nauðsynlegt, herra forseti, að skoða málið miklu betur, taka það aftur inn til nefndar og vinna betur úr því. Ég vek athygli á því að það kemur ekki fram í áliti minni hlutans í fagnefndinni um þetta tiltekna frv. að hann leggist gegn frv. Það kemur einfaldlega fram að minni hlutinn er reiðubúinn að taka þátt í að fullvinna frv. og skjóta byttu undir leka á borð við þennan, en þeir eru vitaskuld margir fleiri, herra forseti.

    [24:30]

    Það er alveg ljóst að það væri hægt að halda mjög langa ræðu til að mynda um það hvernig menn fara með úthlutun rekstrarleyfa. Ég vek athygli á því að í 6. gr. frv. sem ég er að ræða um núna, frv. til laga um fjarskipti, er talað um að til að fá rekstrarleyfi þurfi að uppfylla tilteknar forsendur. Upp eru taldar 15 forsendur og síðan segir bókstaflega efnislega í aðfara þeirrar upptalningar að rekstrarleyfishafar þurfi að uppfylla öll, eitt eða ekkert þessara 15 skilyrða og þetta er satt að segja dálítið skondið. Enn skondnara verður þegar maður les síðan áfram og þá kemur í ljós undir lokin að þar fyrir utan, fyrir utan þessi 15 atriði, má ráðherra líka setja frekari skilyrði með reglugerð. Í 7., 8. og 9. gr. er líka talað um að hann geti, ef svo vill verkast, skilyrt þá líka til þess að þeir verði að takast á hendur alþjónustu án þess að hann geti skýrt út hvað það er.

    Herra forseti. Þetta skiptir mjög miklu máli þegar kemur t.d. að úthlutun þeirra fémætu réttinda sem felast í tíðnisviðum og fjarskiptarásum. Þegar menn ætla að fara að úthluta takmörkuðum auðlindum eins og til að mynda GSM-rásum eða rásum fyrir svipaða tækni sem enn hefur ekki numið land á fjörum Íslands en er þegar orðin a.m.k. hálffleyg og komin í notkun í Evrópu og mun knýja dyra uppi á Íslandi innan skamms, þá er það alveg ljóst að það verður sérhverjum ráðherra mikill vandi á höndum að úthluta þessum miklu réttindum. Þess vegna er, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði í sinni fyrstu ræðu í kvöld, alfarið nauðsynlegt til að þessi lög nái tilgangi sínum að reglurnar eins og hann orðar það, séu hlutlausar og gegnsæjar. Þessar reglur eru ekki gegnsæjar. Ég get ekki heldur fullyrt að þær séu hlutlausar. Ég er sannfærður um að frumvarpshöfundar höfðu það að leiðarljósi sínu að gera þær hlutlausar. En ég get ekki fullyrt það vegna þess að reglurnar eru mér ekki ljósar, vegna þess að hæstv. ráðherra á enn eftir að setja þær í formi reglugerðar.

    Ég verð líka að segja það, herra forseti, að það rennur mér til rifja að sjá jafnvaskan víking og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson standa að frv. eins og þessu og þá á ég sérstaklega við ákvæðin sem varða það hvernig menn koma rekstrarleyfum í hendur þeirra sem þau munu fá þegar upp er staðið, með öðrum orðum hvernig þeim er úthlutað. Ég veit það að hæstv. ráðherra hefur verið hálfvolgur í afstöðu sinni til frjálsrar samkeppni. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var hins vegar volgur vel hér á árum fyrri. Ég segi þetta núna vegna þess að það liggur fyrir að þau fémætu réttindi sem felast í þessum mikilvægu rásum eru mjög takmörkuð. Þetta eru takmarkaðar auðlindir og það þarf að vera alveg ljóst að þegar þeim er úthlutað, þá verði sú úthlutun hafin yfir allan vafa. Þá skiptir engu hver það er sem situr í stóli hæstv. samgrh. Það þarf bara að vera alveg ljóst að þarna sé allt hafið yfir allan vafa. Besta leiðin til þess væri auðvitað að bjóða þessi réttindi út.

    Nú viðurkenni ég það fúslega að í 7. eða 8. gr. þessa frv. er sagt að framkvæmdarvaldið geti boðið þetta út. Útboð er hins vegar eina sanngjarna og réttmæta lausnin á þessu máli, eina lausnin sem tryggir það að allir geti vel við unað og þá ekki síst skattborgararnir vegna þess að eðlilega hlytu þeir sem mundu bjóða í þetta fá úthlutað rásum í krafti þess hversu hátt þeir byðu fyrir þessi fríðindi. Það er svo, herra forseti, að það erum við skattborgararnir, þegnarnir í landinu sem eigum þessi réttindi og það er í okkar þágu að þau séu nýtt sem best fyrir okkur. Þess vegna ætti fortakslaust að vera inni ákvæði um það að fjarskiptarásir, sem eru gríðarlega verðmæt réttindi, væru boðnar út og ég hefði talið að a.m.k. Sjálfstfl., flokkur einstaklingsframtaksins og frjálsrar samkeppni, hefði beitt sér fyrir þessu. En það er Sjálfstfl. sem leggur fram þetta frv. sem ég get ekki sagt annað um en að sé nokkur afturför frá þeim gömlu hugsjónum um frjálsa samkeppni sem sá flokkur varð frægur fyrir fyrr á tíð.

    Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri en ég áskil mér auðvitað allan rétt til þess að rökstyðja þetta í miklu ítarlegra máli í næstu ræðu minni sem væntanlega verður á morgun.