Atvinnuleysi og vinnumarkaðsaðgerðir

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 13:03:09 (2364)

1996-12-18 13:03:09# 121. lþ. 48.1 fundur 224. mál: #A atvinnuleysi og vinnumarkaðsaðgerðir# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[13:03]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Sem svar við fyrstu spurningunni: Á árinu 1995 var skráð atvinnuleysi í landinu öll 6.538 manns að meðaltali eða 5% af mannafla. Síðastliðna 12 mánuði, nóvember 1995 til og með október 1996, var skráð atvinnuleysi 5.870 eða að meðaltali 4,4%.

Liður tvö: Skráð atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu 1995 var 3.945 manns eða 5,1% af mannafla eða einu prósentustigi hærra en á landinu öllu. Síðastliðna 12 mánuði var atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu 3.903 eða 5% sem er 0,1 prósentustigi lægra en árið 1995 en 0,6 prósentustigum hærra en á landinu öllu síðastliðna 12 mánuði. Sundurliðað eftir kynjum lítur það þannig út að atvinnulausir karlar á landinu öllu voru 3.063 eða 4% af mannafla árið 1995 en 2.549 eða 3,3% síðastliðna 12 mánuði, sem er lækkun um 0,7 prósentustig. Á höfuðborgarsvæðinu voru atvinnulausir karlar 1.898 eða 4,3% af mannafla 1995 en 4% síðastliðna 12 mánuði sem er lækkun um 0,3 prósentustig. Atvinnulausar konur voru á landinu öllu 3.476 eða 6,4% af mannafla 1995 en 3.322 eða 6% á síðustu 12 mánuðum sem er lækkun um 0,4 prósentustig.

Innan félmrn. hefur verið mörkuð sú stefna að vinnumarkaðsaðgerðir á vegum ráðuneytisins miði að því að hjálpa atvinnulausu fólki til sjálfshjálpar. Þetta felur í sér að einstaklingum sem hafa verið atvinnulausir um lengri tíma hefur í mörgum tilfellum verið boðið upp á endurhæfingu í því skyni að gera þá samkeppnishæfa á vinnumarkaði að nýju. Reynslan hefur sýnt að þeir sem hafa verið án atvinnu svo missirum eða árum skiptir eiga orðið erfitt með vinnu beinlínis vegna langtímaatvinnuleysis.

Það má nefna nokkrar tilraunir sem gerðar hafa verið á árinu. Ráðuneytið hefur verið beinn þátttakandi í sumum þessara verkefna og styrkt önnur og viðræður standa yfir um þátttöku í a.m.k. einu verkefni. Það er í fyrsta lagi námskeið í fiskvinnslu fyrir atvinnulausa. Þetta námskeið gaf góða raun og var í samráði við fræðsluaðila í fiskiðnaði og Verkamannasamband Íslands og Samband fiskvinnslustöðva. Þetta gaf góða raun og 3/4 komust strax í vinnu. Það var komið á fót tilraunaverkefni til eins árs milli félmrn. og Reykjavíkurborgar, vinnuklúbbaverkefni. Þriðjungurinn var borgaður af Reykjavíkurborg, þriðjungurinn af félmrn. og þriðjungurinn af Atvinnuleysistryggingasjóði. Þetta er gert að erlendri fyrirmynd og hefur skilað mjög góðum árangri. Yfir 60--70% þeirra sem þátt tóku hafa fengið vinnu. Atvinnumálanefnd Kópavogs hefur verið í samstarfi við okkur og það er líka mjög athyglisvert verkefni og árangur er 60--70% hjá þeim hópi sem hefur staðið að því. Það standa yfir viðræður milli ráðuneytisins og Kópavogsbæjar um frekari útfærslu á því verkefni.

Þá höfum við styrkt námskeið á vegum Sóknar og Reykjavíkurborgar í heimilishjálp en sem kunnugt er vantar mjög starfskrafta til heimilishjálpar hér í borginni. Þá er að geta um skrifstofu EURES-vinnumiðlunarinnar á Íslandi sem var opnuð á þessum vetri. EURES-vinnumiðlunin er sett á stofn til þess að auðvelda fólki að nýta sér frjálsan atvinnu- og búseturétt innan EES. Þessi vinnumiðlun á Íslandi er staðsett hjá Vinnumiðlun Reykjavíkur en kostuð af félmrn.

Herra forseti. Tími minn er búinn og hér verð ég að ljúka máli mínu.