Skipulag miðhálendis Íslands

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 13:14:54 (2369)

1996-12-18 13:14:54# 121. lþ. 48.2 fundur 231. mál: #A skipulag miðhálendis Íslands# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[13:14]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Hv. 7. þm. Reykv. hefur borið fram fyrirspurn til mín í fjórum liðum og fyrsti liðurinn er: Hvað líður gerð svæðisskipulags miðhálendis Íslands? Um þetta hefur verið fjallað nokkrum sinnum áður og reynt að gefa skýringar á því hvað þessu líður en sjálfsagt að undirstrika það enn frekar. Drög að svæðisskipulagi miðhálendisins liggja nú fyrir og mun samvinnunefnd um svæðisskipulag m.a. taka afstöðu til draganna í byrjun febrúar nk. Að því loknu er stefnt að því að tillagan verði auglýst og kynnt í samræmi við þá kynningu sem svæðisskipulög skulu hljóta, samanber 16. gr. skipulagslaga, nr. 19/1964, með síðari breytingum. Samkvæmt því skal samvinnunefnd senda Skipulagsstjórn ríkisins tillögu um skipulag ásamt rökstuddri greinargerð. Falli Skipulagsstjórn á tillöguna skal tillagan send til umsagnar þeirra sveitarfélaga sem hún tekur til.

Rétt er að benda á að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í skipulagslögunum eins og þeim var breytt með lögum nr. 73/1993 skal fresta frekari afgreiðslu tillögunnar uns ný skipulags- og byggingarlög hafa verið samþykkt á Alþingi. Frv. til skipulags- og byggingarlaga er til meðferðar á Alþingi og þess að vænta að það nái fram að ganga á yfirstandandi þingi. Endanleg afgreiðsla tillögunnar mun því væntanlega ráðast af þeim ákvæðum í nýjum byggingar- og skipulagslögum sem fjalla um svæðisskipulag miðhálendisins.

Af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson skaut fram í áðan þegar fyrirspyrjandi var að bera upp fyrirspurn sína hver hefði komið þessu öllu af stað, þá er það vissulega rétt að það var í hans tíð sem sú breyting var flutt á lögunum um að fela sérstakri nefnd að fjalla um málið og eins upphafið að því að koma inn frv. til breytinga á skipulags- og byggingarlögunum sem er nú til meðferðar. En það kemur nánar fram í svari við 2. lið sem er svohljóðandi: Hverjir taka þátt í gerð skipulagsins og við hverja hafa þeir haft samráð? Samkvæmt þessu tilgreinda ákvæði til bráðabirgða, samanber lög nr. 73/1993, um breytingu á skipulagslögunum, skulu héraðsnefndir þær sem hlut eiga að máli skipa hver um sig einn fulltrúa í samvinnunefnd en ráðherra skipar einn fulltrúa í nefndina og skal hann vera formaður. Formaður þessarar nefndar er Snæbjörn Jónasson, fyrrv. vegamálastjóri, en auk hans eiga sæti í nefndinni fulltrúar héraðsnefnda Borgarfjarðar, Mýra, Vestur-Húnvetninga, Austur-Húnvetninga, Skagfirðinga, Eyfirðinga, Suður-Þingeyinga, Múlasýslna, Austur-Skaftfellinga, Vestur-Skaftfellinga, Rangæinga og Árnesinga.

Hver héraðsnefnd af þessum 12 á tvo fulltrúa í nefndinni þannig að það eru því samtals með formanni 25 einstaklingar sem skipa þessa nefnd. Samvinnunefndin hefur haft samráð við fjölmarga aðila sem tengjast skipulagsvinnu á einn eða annan hátt. Nefndin hefur haldið fjölmarga samráðsfundi auk funda með fulltrúum heima í héraði og með fulltrúum stofnana og félagasamtaka.

Það má skipta þessum samráðsaðilum í þrjá hópa:

1. Héraðsnefndir og heimamenn.

2. Stofnanir.

3. Félagasamtök.

Haldnir hafa verið 15 fundir í hlutaðeigandi héruðum þar sem leitað var eftir upplýsingum og ábendingum í upphafi starfsins. Þá fundi sóttu heimamenn, landeigendur, fulltrúar frá upprekstrarfélögum, sem og frá Vegagerð, náttúruverndarnefndum, skipulagsnefndum og ferðamálafulltrúar. Síðastliðið vor voru haldnir átta fundir með þessum sömu aðilum. Á þá fundi hafa komið samtals um 500 manns þannig að allmargir hafa nú þegar komið að þessari vinnu og fylgst með henni.

Þær stofnanir sem nefndin hefur haft samráð við eru Vegagerð, Orkustofnun, Landsvirkjun, Ferðamálaráð, Landgræðsla ríkisins, RALA, náttúruverndarráð, Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofa Íslands, Þjóðminjasafn Íslands, Landmælingar Íslands, veiðistjóri, veiðimálastjóri, umhverfisnefnd Alþingis, Samband ísl. sveitarfélaga og Skipulag ríkisins. Og þau félagasamtök sem sérstaklega hefur verið leitað til eru Landvarðafélag Íslands, Ferðaklúbburinn 4x4, Ferðafélag Íslands, Félag ísl. ferðaskrifstofa, Skotvís sem er félag skotveiðimanna, upprekstrarfélög og samtök eigenda hálendisjarða. Af því að stundum er sagt að það séu aðeins fulltrúar héraðsnefndanna sem hafa komið að þessu máli, þá er af þessari upptalningu ljóst að ýmsir aðrir hafa einnig lagt sitt af mörkum.

Þriðja spurningin var um kostnað við gerð skipulagsins en áætlaður kostnaður er um 30 millj. kr. og er þá ekki reiknað með vinnuframlagi Skipulags ríkisins. Erfitt er að meta þátt þeirrar stofnunar til fjár í þessu tilviki en segja má þó að einn starfsmaður sem sinnt hefur verkefnisstjórn hafi á starfstíma nefndarinnar nánast sinnt þessu starfi einu auk þess sem skipulagsstjóri sjálfur hefur tekið virkan þátt í meðferð málsins.

Fjórði liður spurningarinnar var um áform um stjórnsýslu á miðhálendinu. Má segja að fljótlega eftir að samvinnunefndin hóf störf kom í ljós að stjórnsýslumörk þeirra 40 sveitarfélaga sem hér eiga hlut að máli eru um margt óljós. Að fenginni beiðni nefndarinnar var því settur á fót starfshópur skipaður lögfræðingum tilnefndum af umhvrh., dómsmrh. og félmrh. sem falið var að fara sérstaklega yfir þau mál út frá þeirri forsendu að stjórnsýsla inn til miðhálendis yrði á vegum hlutaðeigandi sveitarfélaga, þ.e. þeirra sem þátt taka í starfi samvinnunefndarinnar og eiga stjórnsýslu á miðhálendinu. Það er því ljóst að stjórnsýsla sveitarfélaganna verður að ná til alls landsins en ekki aðeins til byggða og afrétta og þeirri hugmynd að miðhálendið verði eitt sveitarfélaga þar sem ríkisvaldið komi að málum má segja að hafi í raun verið hafnað af löggjafarsamkomunni. Vísa ég í því sambandi til frv. sem lagt var fram á Alþingi 1991 um slíkt fyrirkomulag en fékk ekki afgreiðslu þingsins.