Samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 13:31:02 (2372)

1996-12-18 13:31:02# 121. lþ. 49.2 fundur 248. mál: #A samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[13:31]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um staðfestingu samninga um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 1997.

Samkvæmt þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningum um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 1997 sem gerðir voru í Ósló þann 14. desember sl. Í fyrsta lagi er sameiginleg bókun um niðurstöður fiskveiðiviðræðna um stjórnun veiða á norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafinu á árinu 1997 ásamt bókun um sérstakar verndunarráðstafanir með tilliti til stjórnunar veiða úr stofninum.

Í öðru lagi er samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á sama ári og í þriðja lagi er samkomulag milli Íslands og Noregs um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands, efnahagslögsögu Noregs og fiskveiðilögsögu Jan Mayen á árinu 1977. (Gripið fram í: 1997.) 1997, já. Ég biðst velvirðingar, ég hafði ekki hugsað mér að fara 20 ár aftur í tímann en þá var ástandið heldur verra í sambandi við þennan stofn.

Í fjórða lagi samkomulagið milli Íslands og Rússneska sambandsríkisins um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands á árinu 1997.

Aðilar að þessari bókun eru Evrópubandalagið, Færeyjar, Ísland, Noregur og Rússland. Samkvæmt bókuninni verður heildarafli þessara aðila á árinu 1997 1.498 þús. lestir en samkvæmt sérstakri bókun er Rússland skuldbundið til að veiða ekki 12 þús. lestir af þeim kvóta sem í þess hlut kemur.

Aflinn skiptist þannig að í hlut Íslands koma 233 þús. lestir, í hlut Færeyja koma 82 þús. lestir, í hlut Evrópusambandsins 125 þús. lestir og í hlut Noregs 854 þús. lestir og að síðustu í hlut Rússlands 192 þús. lestir.

Í bókuninni er gert ráð fyrir að aðilar komi sér saman í sérstökum tvíhliða samningum um frekara fyrirkomulag veiða, m.a. um heimildir til veiða í lögsögu hvers annars. Eins og ég hef áður gert grein fyrir voru gerðir samningar um slíkt.

Aðalatriðið í þeim samningi sem hér um ræðir er að tekist hefur í fyrsta sinn að ná heildarstjórnun á veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum, þ.e. samkomulagi allra þeirra aðila sem stundað hafa veiðar úr stofninum. Eins og kunnugt er tókst ekki samkomulag við Evrópusambandið um veiðar skipa aðildarríkjanna á árinu 1996. Það er alveg augljóst að Ísland á mjög mikið undir því að síldarstofninn taki sem fyrst um fyrra göngumynstur en eins og vitað er skiptu þessar veiðar gífurlegu máli í efnahagslífi Íslands fyrir nokkrum áratugum. Við eigum mikið undir því að vel takist til um uppbyggingu stofnsins og má því segja að sá samningur, sem tókst að ná á síðasta ári, skipti sköpum í þessu sambandi. Sá samningur sem hér hefur verið gerður er algerlega sambærilegur við hann og eina breytingin sem hefur orðið á honum er sú, þótt hún sé mikilvæg, að Evrópusambandið kemur nú inn í veiðarnar með þeim hætti sem hér er samið um, þ.e. þeir fá heimild til að veiða 125 þúsund lestir. Við hefðum vissulega viljað sjá þessar veiðar Evrópusambandsins minni en hér hefur orðið niðurstaða milli allra þessara aðila og höfðu þeir mismunandi áherslur í samningunum. Þrátt fyrir að ég hefði viljað sjá veiðar Evrópusambandsins minni en hér er gert ráð fyrir, þá tel ég þennan samning vera mjög mikilvægan fyrir Íslendinga og verður til þess að nú ríkir enn meiri von um að það takist að byggja upp stofninn þannig að norsk-íslenski síldarstofninn verði á nýjan leik stærsti fiskstofn á Norður-Atlantshafi.

Í samningnum er svonefnt þróunarákvæði sem miðast við að veiðar breytist í framtíðinni þegar göngumynstur síldarinnar breytist en síðan síðasti samningur var gerður hafa ekki orðið nein efni til að fara út í slíkar breytingar því að síldin hefur því miður lítt sem ekkert gengið inn í efnahagslögsögu Íslands en vonandi verður þar mikil breyting á á næstu árum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð í upphafi um þessa þáltill. Ég vitna til ítarlegrar greinargerðar með henni. Ég vitna jafnframt til allmikillar umræðu sem varð um þessi mál fyrr á þessu ári þegar gengið var frá samkomulagi um síldveiðarnar sem fóru fram á því ári sem nú er að líða. Ég tel að sá samningur hafi verið til heilla og skipt miklu máli fyrir uppbyggingu stofnsins. Eins tel ég þennan samning mjög mikilvægan og vænti þess og legg til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til seinni umræðu og hv. utanrmn.