Samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 14:55:47 (2379)

1996-12-18 14:55:47# 121. lþ. 49.2 fundur 248. mál: #A samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[14:55]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er rangt að ég hafi nokkurn tíma haldið því fram að engin önnur niðurstaða hefði verið ásættanleg fyrir okkur en sú að við fengjum að fullu tekið tillit til sögulegrar dreifingar stofnsins eins og hún var fyrir þremur, fjórum áratugum hvað varðar hlutdeild í upphafi samninga nú, enda má nú talsvert á milli vera þess og hins sem hér er niðurstaðan.

Ég bendi á það að til viðbótar hlutfallinu sem við byrjuðum með þá skipti mjög miklu máli hver samningsumgjörðin var og að það væri tekið á málinu í samningsumgerðinni með hliðsjón af því að verði þróunin sú sem við vonum, þá er það fyrst og fremst Ísland sem á að eiga tilkall til hækkandi hlutdeildar og auðvitað átti þá að búa um það í samningnum að við hefðum hald í sérstökum prósess í leiðréttingarformúlum sem tryggðu okkur þessa auknu hlutdeild í takt við breyttar aðstæður. Það er ekki. Það er algerlega í lausu lofti hvernig okkur gengur að sækja okkar rétt á grundvelli breyttrar hegðunar stofnsins. Og ég minni á að í loðnusamningum höfum við Íslendingar á hinn bóginn fallist á að Norðmenn haldi hlutdeild sinni í loðnu upp á 11% árum saman þó að engin loðna hafi verið veiðanleg í þeirri lögsögu sem gaf þeim á sínum tíma tilkall til þessara 11%. Það hefur ekki kvikindi veiðst í Jan Mayen lögsögunni árum saman en samt hafa Norðmenn haldið sínum 11% og samningar verið framlengdir af okkar hálfu um það vegna þess að við höfum viðurkennt þá stöðu sem var lögð til grundvallar á sínum tíma. Ef málið hefði byrjað þannig að við hefðum haft 22--24% plús sjálfvirka eða bundna leiðréttingarformúlu inni í samningsumgjörðinni hefði verið talsvert öðru til að dreifa.