Samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 14:59:49 (2381)

1996-12-18 14:59:49# 121. lþ. 49.2 fundur 248. mál: #A samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[14:59]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru stórkostleg rök hjá hæstv. ráðherra og gott á meðan menn fara ekki að semja um lífið eftir dauðann. Auðvitað snýst þetta mál ekki um það. En það þýðir ekki að halda því fram af jafnreyndum manni og hæstv. utanrrh. er að það finnist ekki í alþjóðlegum samningum pínulítið flóknari formúlur heldur en töluliður 6.2 í bókuninni frá því í fyrra. Ætli hann sé ekki sjö línur, ákaflega ræfilslegur texti þar sem á frummálinu, enskunni, er talað um possible adjustments, mögulegar breytingar eða aðlögun. Það er nú allt og sumt sem við höfum. Ég segi alveg eins og er að mér er stórlega til efs að það hefði ekki verið betra að sleppa þessu og láta á það reyna með sjálfstæðum hætti þá á hverju ári við framlengingu bókunar eða samninga að laga hlutina til. Auðvitað var hægt að búa þarna miklu betur um hnútana í samningagerðinni heldur en gert var og það var þeim mun mikilvægara sem upphafsprósentan var okkur óhagstæðari. Það liggur í hlutarins eðli.

Þegar ég vitna til loðnusamninganna þá er ég að vitna til þess að um árabil hafa gilt tímabundnir samningar milli okkar, Norðmanna og Grænlendinga, frá einu og upp í þrjú ár í senn. Þeir samningar hafa nú í tvígang ef ekki þrígang verið endurnýjaðir við aðstæður þar sem frá undanförnum vertíðum hefur blasað við að Norðmenn hafa ekki haft möguleika á að veiða neina loðnu í sinni lögsögu, sem gaf þeim þó tilefni til að fá 11% hlutdeild í stofninum. Við höfum ekki við þá framlengingu notað þau rök sem Norðmenn að notuðu á okkur í síldinni og sagt: Niður með prósentuna, burt með ykkur af því að það hefur engin loðna veiðst í Jan Mayen lögsögunni nema sú sem þið veiðið innan íslensku lögsögunnar og skráið í Jan Mayen lögsögunni. Norðmenn eru duglegir við það eins og kunnugt er.

Að lokum, herra forseti, varðandi leiksýninguna frá því í fyrravor, þá liggur það allt saman fyrir. Menn geta bara flett upp í blöðum og farið yfir fjölmiðlana í frá í fyrra hvernig það var dregið fram í dagsljósið, eftir umræðuna í þinginu og svokallað samráð við nefndir þingsins, hvað hafði gerst á fundinum í London. Og mönnum var talin trú um að það væri verið að fara til Óslóar til að ganga frá eiginlegum samningum þegar öll aðalatriði málsins voru klöppuð og klár á leynifundinum í London. Ég fékk tölurnar frá austfirskum útgerðarmönnum fimm dögum áður en málið kom til umræðu á Alþingi. Það skakkaði ekki einu einasta tonni.