Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 15:46:40 (2389)

1996-12-18 15:46:40# 121. lþ. 49.3 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[15:46]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég áttaði mig ekki alveg á tilefni hæstv. samgrh. til að koma hér upp til að tjá sig. Hann fjallaði um að mönnum hefði orðið eitthvað á í messunni og svo hefur hann þennan frasa sem hann virðist vera fastur í, þessi ,,nútímalegi jafnaðarmaður`` sem er eitthvert óskilgreint hugtak í huga hæstv. samgrh. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að hæstv. samgrh. getur komið hér upp, slegið sig til riddara og sagt sem svo: ja, tilskipanir Evrópusambandsins kveða bara á um að svona langt sé gengið. Menn geta sagt ýmislegt. En mikið asskoti hefði ég gaman af því --- fyrirgefðu orðbragðið, virðulegur forseti --- að hæstv. samgrh. kæmi með þessa tilskipun, sýndi okkur hana. Það væri ekki slæmt ef hann kæmi nú og sýndi okkur hvar kveðið er á um að svona gríðarlega langt þurfi að ganga. Menn geta komið hér upp og slegið sig til riddara í tveggja mínútna tali.

Virðulegur forseti. Það kom nú satt að segja ekkert fram í þessu andsvari sem í sjálfu sér gaf tilefni til að koma hér upp aftur. En það væri gaman að heyra, ef hæstv. samgrh. sér ástæðu til að koma upp aftur, hann leggja eitthvað málefnalegt til og jafnvel skilgreina hugtakið ,,nútímalegur jafnaðarmaður``. Það væri gaman að heyra þá skilgreiningu úr munni hæstv. samgrh. sem verður nú seint talinn nútímalegur jafnaðarmaður. (Samgrh.: Það eru ekki fjarskipti.)