Þingstörf fram að jólahléi

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 21:07:59 (2395)

1996-12-18 21:07:59# 121. lþ. 49.95 fundur 146#B þingstörf fram að jólahléi# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[21:07]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð þeirra þingmanna sem kvöddu sér hljóðs áðan um fundarstjórn forseta, bæði hv. 5. þm. Suðurl. og hv. 5. þm. Reykn. og þakka einnig forseta fyrir þær undirtektir sem fram komu í máli hans. Ég vil þó bæta við einni spurningu í safnið til hæstv. forseta og hún er þessi: Hvenær gerir hæstv. forseti ráð fyrir að þinginu ljúki fyrir jól? Ég held að það sé æskilegt að menn geti áttað sig á því hvort það verði á föstudag, laugardag eða mánudag. Ég geri ekki ráð fyrir að menn treysti sér til að vera með þingfundi á þriðjudag en ég held að nauðsynlegt sé fyrir þá þingmenn sem eiga um langan veg heim að fara að fá að vita sem fyrst hvenær þeir geta skipulagt heimferðir sínar. Venjan er reyndar sú frá undanförnum árum sem ég þekki til að menn hafa getað sagt fyrir með örfárra sólarhringa fyrirvara hvenær þeir yrðu hugsanlega lausir og ég held að mikilvægt sé að halda þeirri góðu venju.

Ég vil einnig láta það koma fram, hæstv. forseti, út af ummælum hæstv. forseta áðan að alveg liggur fyrir og hefur legið fyrir nú um nokkurt skeið af hálfu þingmanna stjórnarandstöðuflokkanna og þingflokksformanna stjórnarandstöðuflokkanna að við erum tilbúin til þess að halda þannig á málum að öll þau mál sem er óhjákvæmilegt að afgreiða vegna fjárlaganna eða í tengslum við fjárlögin verði afgreidd og mínúturnar sem eftir eru til þingfrestunar verði skipulagðar í samræmi við það. Og við höfum sagt að við værum tilbúin til að taka þátt í því. Ríkisstjórnin hefur hins vegar kosið að stilla þinginu upp við vegg og það er útilokað annað en segja það fullum fetum að ríkisstjórnin er að stilla þinginu upp við vegg og gerir kröfur til þess að þingið á örfáum sólarhringum ljúki þungum, erfiðum og flóknum málum sem engin nauðung rekur okkur til að ljúka einmitt á þessum sólarhringum. Þetta er óhjákvæmilegt að segja hér, hæstv. forseti, um leið og ég endurtek það sem áður hefur komið fram af hálfu míns þingflokks, þingflokks Alþb. og óháðra, að við erum tilbúin til þess að ganga í það verk með hæstv. forseta að skipuleggja þær klukkustundir sem eftir eru þangað til jólaleyfi þingmanna hefst þannig að þær mættu nýtast þinginu sem best.