Þingstörf fram að jólahléi

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 21:14:07 (2399)

1996-12-18 21:14:07# 121. lþ. 49.95 fundur 146#B þingstörf fram að jólahléi# (um fundarstjórn), GL
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[21:14]

Guðmundur Lárusson:

Herra forseti. Ekki er ég viss um að allir hv. þingmenn geti tekið undir þá skoðun hæstv. forseta að þeir hafi verið að leggja sig af og til í dag og notið hvíldar. Flestallir hv. þingmenn hafa unnið baki brotnu, a.m.k. þeir sem stunda nefndastörf. Meginregla þeirra laga sem ég vitnaði til áðan, þ.e. laga nr. 46 frá 28. maí 1980, gerir ráð fyrir tíu tíma hvíld. Þó megi stytta samfelldan hvíldartíma í átta klukkustundir þegar um er að ræða vaktavinnu, störf að landbúnaði eða björgun verðmæta frá skemmdum. Það er auðvitað spurning hvort hæstv. forseti er að túlka lögin með þeim hætti að verið sé að bjarga verðmætum frá skemmdum. Ég lít svo á að svo sé ekki heldur eigi meginreglan við, þ.e. um tíu tíma hvíld, eigi hér að gilda og mér finnst ómaklega vegið af hæstv. forseta að hv. þingmönnum sem hafa flestir starfað hér af fullum heilindum og mikilli atorku frá því kl. átta í morgun.