1996-12-19 00:04:00# 121. lþ. 49.3 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[24:04]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá held ég að hv. þm. ætti líka að beita sér fyrir því að það orðalag verði lagfært þar sem í textanum stendur krafist, en hann leggur þann skilning í orðið krafist að það þýði það sama og orðin óska eftir. Ég hef hingað til lagt annan skilning í það þegar veitt er heimild til þess að krefjast opinberrar rannsóknar eða saksóknar en þegar rætt er um það að heimild sé að fara fram á opinbera rannsókn eða saksókn, enda er það meira í samræmi við þau lög sem vitnað er í í þessari grein, þ.e. lög nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Þar er skýrt tekið fram að opinber rannsókn og saksókn og ákvörðun um slíkt sé í höndum til þess bærra aðila sem þar eru nefndir. Fyrst hv. þm. er loksins búinn að fallast á að ástæða sé til að skoða betur textann í þessu frv., þá ætti hann að taka þetta líka til endurskoðunar og ekki síður það sem ég spurði hann að og hann hafði ekki tíma til að gefa mér svar við, ákvæði 2. mgr. 9. gr. þar sem menn eru að tala um bókfærða veltu og skilgreina hana síðan sem rekstrartekjur. Ég held að hv. þm. hljóti að gera sér það ljóst að líka þarna er þörf á að Alþingi geri nánari grein fyrir hvaða skilning beri að leggja í þann lagatexta sem Alþingi er að samþykkja. Þó að svona handarbakavinnubrögð kunni að vera ástunduð af þeim sem frv. sömdu eða samdi, þá má hv. Alþingi að sjálfsögðu ekki láta svona athugasemdalaust frá sér fara. Hv. þm. ætti að sjá sóma sinn í því að leiðrétta svona mállýti og rökleysur eins og er að finna mjög víða í textanum að þessum frumvörpum og hef ég þó aðeins haft tíma til að fara í nokkur dæmi þar að lútandi.