1996-12-19 00:31:44# 121. lþ. 49.3 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[24:31]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur verið ákveðið að hluthafafundur verði haldinn 27. desember, það er í fyrsta lagi. Í öðru lagi fór ég nokkrum orðum um það áðan að skipuð hefur verið sérstök eftirlitsnefnd sem fer með seinna stjórnsýslustigið. Ég vakti athygli á því sérstaklega áðan og gerði að umræðuefni að það verður ekki í höndum samgrh. heldur hjá sérstakri eftirlitsúrskurðarnefnd, þannig að í málefnum Póst- og fjarskiptastofnunar verður samgrh. ekki með hið æðra stjórnsýslustig. Og það svarar þeirri spurningu sem hv. þm. beindi að mér í sambandi við hæfi mitt eða vanhæfi í þessum málum og svarar raunar einnig því sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson spurði að hér áðan. Þessari úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála er ætlað að starfa á stjórnsýslustigi og er endanlega á því stigi en kemur auðvitað hvorki Samkeppnisstofnun né dómstólum við, því að það er hægt að áfrýja úrskurðum hennar.

Ég vil í öðru lagi segja að það er auðvitað eðlilegt að nokkur tími líði áður en frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun verður að lögum til þess að hægt sé að undirbúa stofnunina, ganga frá nauðsynlegum reglugerðum og öðru sem þar að lýtur. Það er gert ráð fyrir því að samkeppni á GSM-sviði hefjist á miðju næsta ári eins og fram hefur komið í útboðum. Og ef spurt er um það til hverra alþjónustan á að ná, þá er um það að segja að hér á landi eru tvenns konar farsímar. Það er gamli farsíminn sem nær til alls landsins. Síðan er GSM-síminn. Það er gert ráð fyrir því í útboðinu að hann skuli taka til 80% þjóðarinnar. Sá nýi keppinautur sem inn kemur skal hafa búið sig tæknilega undir það að síminn nái til 80% þjóðarinnar á næstu fimm árum, en ég skal jafnframt láta þess getið að GSM-síminn hjá Pósti og síma nær þegar til rúmlega 81% þjóðarinnar. Þessi GSM-sími, ef ég man rétt, hefur svið fyrir 20--25 km. Síðan er að koma enn einn fjarsími sem aðeins hefur held ég 5 km radíus, ef ég kann þetta rétt, og það er auðvitað óhugsandi að slíkur sími geti tekið til alls landsins en rekstur á slíkum síma hefur ekki hafist hér á landi.