Þingstörf fram að jólahléi

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 10:05:17 (2413)

1996-12-19 10:05:17# 121. lþ. 50.91 fundur 147#B þingstörf fram að jólahléi# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[10:05]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur það verið reglubundið fyrir jól og að vori að það hefur safnast upp mikill fjöldi mála og hefur iðulega verið þannig ástand hér í þessari stofnun að það hefur stundum verið þinginu til lítils sóma hvernig um mál hefur verið farið vegna þess að menn hafa reynt að hella í gegnum þingið mörgum erfiðum og flóknum málum á síðustu klukkutímunum áður en þinginu er frestað eða því slitið.

Það hefur verið stefnt að því í allt haust að reyna að koma þessum hlutum öðruvísi fyrir núna fyrir hátíðarnar og það sýndist örvænt um að það gæti orðið síðustu tvo til þrjá daga. Forseti beitti sér hins vegar með myndarlegum hætti í þessu máli til að reyna að lenda hlutum á eðlilegan hátt og ég tel ástæðu til að færa honum þakkir fyrir það. Ég tel jafnframt ástæðu til að taka undir með hv. 5. þm. Reykn. að öðru leyti og bæta því við að ég teldi skynsamlegt að í framtíðinni yrði reynt að koma vinnu af því tagi sem við, formenn þingflokka og forseti, unnum hér í nótt, og niðurstöðum hennar þannig fyrir, að hún birtist þingmönnum öllum með öðrum hætti en eingöngu í fjölmiðlum.