Fjarskipti

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 10:14:47 (2418)

1996-12-19 10:14:47# 121. lþ. 50.2 fundur 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, GÁS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[10:14]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Þingflokkur jafnaðarmanna gerir ekki athugasemdir við að opnað sé á aukna samkeppni á vettvangi fjarskiptamála. Það er hins vegar mikilvægt að vel sé frá öllum leikreglum gengið í þeim efnum þegar af stað er farið. Þetta frv. um fjarskipti, þótt mikið sé að vöxtum, lætur ósvarað stórum og mikilvægum spurningum. Það er óviðunandi. Má í því sambandi nefna skort á skilgreiningu á grundvallarþjónustu, svokallaðri alþjónustu, fyrirkomulag og úthlutun rekstrarleyfa, svo sem útboð, undanþágu frá þjónustu við dreifðari byggðir, bein og óbein afskipti samgrh. af framgöngu mála, þrátt fyrir meint vanhæfi hans, o.fl.

[10:15]

Þetta eru vinnubrögð sem ekki eru samboðin hinu háa Alþingi og þykir jafnaðarmönnum brýnt að stoppa í þessi göt og önnur í frv. og fresta eigi afgreiðslu þess fram á vorþing. Af þeim sökum munu jafnaðarmenn sitja hjá við afgreiðslu málsins og vísa ábyrgð á hendur stjórnarmeirihlutanum með vísan til ítarlegs nál. minni hluta samgn.

Þingflokkur jafnaðarmanna mun hins vegar styðja brtt. meiri hlutans sem lýtur að því að óheimilt sé hverjum einstökum rekstrarleyfishafa að innheimta sérstakt álag vegna langlínusamtala. Efasemdir eru að vísu um heimildir til slíkra skilyrða á samkeppnismarkaði en stjórnarmeirihlutinn og samgrn. telur heimildir þar að lútandi fyrir hendi. Í því trausti munum við greiða þeirri tillögu atkvæði okkar enda um jafnréttismál gagnvart notendum að ræða.