Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 10:39:39 (2424)

1996-12-19 10:39:39# 121. lþ. 50.4 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[10:39]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er aðeins eitt atriði sem ég ætla að nefna í andsvari við hv. frsm., formann fjárln. Það snertir 4. lið í sundurliðun, við 3. gr. Sjúkrahús utan Reykjavíkur. Nýr liður undir liðnum Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi. Í áliti er segir:

,,Leitað er eftir 35 millj. kr. viðbótarframlagi til þess að mæta rekstrarvanda sjúkrahúsa á landsbyggðinni, þar á meðal í Neskaupstað.``

Eins og hv. þm. Jóni Kristjánssyni og öðrum í fjárln. vafalaust er kunnugt um er halli á sjúkrahúsinu talinn um 40 millj. kr. samkvæmt greinargerð frá stjórn sjúkrahússins í Neskaupstað. Og ég átta mig ekki á því hvernig rekstraraðili sjúkrahússins, ríkið, ætlar að láta sjúkrahúsið búa við það að safna áfram halla eða búa áfram við hallarekstur og jafna ekki þennan halla sem safnast hefur upp og hverfur auðvitað ekki út í buskann. Auk þess hef ég heyrt að boðaður sé áframhaldandi samdráttur fjárveitinga til sjúkrahúsa á landsbyggðinni upp á 60 milljónir á næsta ári og meira á þarnæstu árum. Ég átta mig ekki á að þetta sjúkrahús, sem ég þekki vel til, nái því að búa við óbreyttar fjárveitingar miðað við það að halda uppi bráðaþjónustu allt árið. Ég inni þess vegna eftir því af hverju þarna í fjáraukalögum er ekki gert ráð fyrir að jafna þann halla sem hefur safnast upp og liggur fyrir.