Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 11:46:19 (2432)

1996-12-19 11:46:19# 121. lþ. 50.7 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[11:46]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykn. talaði hér fjálglega og af mikilli tilfinningu. Hún rakti hvernig biðlistarnir voru byggðir upp af fyrirrennurum mínum og við þeim tók ég. Höfuðáherslan var á það að rýma Sólborg og Kópavogshæli. Það er rétt hjá henni að vegna þess að farið var að búa til ný búsetuúrræði fyrir þá sem þegar höfðu athvarf, skulum við segja, þá mynduðust biðlistar af því að það var verið að leysa í annað skipti úrræði fyrir þá sem voru á þessum tveimur stofnunum. Það var skipulega að þessu staðið með Sólborg en ekki, því miður, með Kópavogshæli því það var ekki gengið frá fjárveitingum til þess að það væri unnt og við höfum verið að glíma við það mál enn þá. Það er ástæðan fyrir því að biðlistar hafa myndast. Það hefur verið gerð úttekt í Reykjavík á málefnum fatlaðra og í henni kemur í ljós að það eru um 100 einstaklingar sem þurfa einhver úrræði. Svipuð tala mun vera á Reykjanesi. Þetta er auðvitað mjög erfitt að búa við og verður að vinna að því að leysa þetta mál og sjá fyrir endann á því áður en málaflokkurinn er fluttur til sveitarfélaganna eða gera ráð fyrir því að þessi mál leysist fyrir þann tíma.

Hér hefur verið gert nú og oft áður mikið veður út af því að Framkvæmdasjóður fatlaðra hafi verið skertur. Ég þarf ekki að endurtaka það. Ég veit að hv. þm. vita það allir að Framkvæmdasjóð fatlaðra er nú eingöngu ætlað að fjármagna framkvæmdir. Rekstur sem hefur líka verið fjármagnaður fram að þessu eða í nokkur ár af ráðstöfunarfé framkvæmdasjóðs er færður á aðra fjárlagaliði. Það sem skiptir máli í þessu sambandi þegar menn eru að tala um málefni fatlaðra er það að málaflokkurinn sem slíkur fær tæpum 200 millj. kr. meira á næsta ári heldur en hann fékk í fjárlögum þessa árs. Það eru 2.318 millj. kr. sem ætlað er í málefni fatlaðra í heild á fjárlögum þessa árs. Á næsta ári er áformað að taka í notkun fimm sambýli. Það voru fjögur tekin í notkun á þessu ári. Á þessu ári var komið upp sambýli fyrir einhverfa í Tjaldanesi og í undirbúningi er að setja á fót fagteymi um málefni einhverfra.

Það er kannski ástæða til þess að fara örfáum orðum um stöðuna í málefnum fatlaðra því ég er ekki alveg viss um að hv. þm. viti um hana nógu nákvæmlega. Fjöldi sambýla á landinu eru 72 og í þeim búa 373. Eins og ég sagði áðan hafa verið opnuð fjögur sambýli á þessu ári og þar af tvö vegna útskrifta af Kópavogshæli. Meðalrekstrarkostnaður hvers sambýlis er 12--13 millj. kr. Á næsta ári er gert, eins og ég sagði, ráð fyrir fjórum til fimm nýjum sambýlum þar af einu eða tveimur vegna útskriftar af Kópavogshæli. Til frekari liðveislu á þessu ári er varið 80 milljónum og er fjöldi þjónustuþega um 270. Á næsta ári er ætlað að verja 100 milljónum til frekari liðveislu og það er 20% hækkun miðað við liðið ár. Það er gert ráð fyrir að fjöldi þjónustuþega þá verði 320, þ.e. 50 fleiri fá þjónustu í frekari liðveislu. Fjöldi hæfingarstöðva og dagvistarstofnana er tólf og þeirrar þjónustu njóta 314 einstaklingar. Verndaðir vinnustaðir eru átta og þar starfa 280 einstaklingar. Þá njóta rúmlega 100 einstaklingar liðveislu á almennum vinnumarkaði. Það eru reknar 14 skammtímavistanir. Upplýsingar um fjölda þjónustuþega liggja ekki fyrir en dvalarsólarhringar í þessum skammtímavistunum kosta í kringum 14 þús. Hjá stuðningsfjölskyldum kosta dvalarsólarhringarnir u.þ.b. 8 þús. Á fjórum heimilum fyrir börn búa 18 einstaklingar. Í fjárlagafrv. næsta árs er heimild fyrir nýju heimili í umdæmi Svæðisskrifstofu Reykjaness fyrir einhverf börn og þar er áætlað að búi fimm til sex einstaklingar.

Hv. þm. ræddi um málefni geðfatlaðra og þjónustu við þá. Eins og hún réttilega tók fram var í gildi samningur um fimm ára framlög til þessa sérstaka verkefnis, þ.e. um 100 millj. kr. framlag frá ríkissjóði sérstaklega til þess arna. Það er búið að verja til málaflokksins á fjórum árum um 100 milljónum, þ.e. frá ríkinu beint eru komnar 80 milljónir og 20 til viðbótar hafa komið úr Framkvæmdasjóði fatlaðra. Það varð samkomulag um það við þessa fjárlagagerð að lengja þetta tímabil um eitt ár, þ.e. á fjárlögum næsta árs verða 20 milljónir til málefna geðfatlaðra sérstaklega merktar. Og ég get alveg lofað hv. þm. að það verður gengið frá því. Þá eru komnar samtals 120 milljónir til þessa verkefnis sem upphaflega var áætlað að verja í 100 milljónum og e.t.v. tekst á þessu ári að opna til viðbótar þeim heimilum sem ég hef verið að nefna eitt heimili fyrir geðfatlaða. Það eru uppi um það hugmyndir en þær eru ekki fullmótaðar enn þá þannig að ég tel að það sé of snemmt að slá neinu föstu um það.

Hv. þm. talaði líka um starfsmenntun í atvinnulífinu. Til starfsmenntunar í atvinnulífinu á þessu ári verður varið 47 milljónum. Á næsta ári verður varið í málaflokkinn 47 milljónum sem er nákvæmlega sama upphæð og varið var til þessa verkefnis á þessu ári. Til atvinnumála kvenna sérstaklega verður varið 20 milljónum og það er líka sama upphæð og á þessu ári. Út af fyrir sig hefði verið gaman að verja meiri peningum í þetta. Hins vegar var það viðhorf mitt og okkar í félmrn. að það bæri að setja málefni fatlaðra í forgang og sú hækkun sem við höfðum svigrúm til er fyrst og fremst í málefnum fatlaðra. Peningarnir eru engu verri þótt þeir komi í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð og ég skil ekkert í þeirri tortryggni sem kemur fram hjá einstökum þingmönnum vegna þess. Ríkissjóður er í bakábyrgð fyrir Atvinnuleysistryggingasjóði og ef Atvinnuleysistryggingasjóður getur ekki gegnt skyldum sínum með þeim fjármunum sem hann fær, ef svo illa færi að atvinnuástand snöggversnaði og við kæmum til með að búa við mikið atvinnuleysi á næsta ári sem ekki eru nú horfur á núna, þá er ríkissjóður í bakábyrgð fyrir atvinnuleysistryggingunum.

Ég rakti í svari við fyrirspurn í gær, herra forseti, margvíslegar aðgerðir á vegum félmrn. og námskeið fyrir atvinnulausa. Ég tel mjög mikilvægt að sinna starfsmenntun í atvinnulífinu og það er mikilvægur málaflokkur. Ég tel líka að það sé mjög mikilvægt að verja fjármunum til atvinnumála kvenna sérstaklega. Ég held að þeim peningum sé vel varið og þó að þar sé ekki um stórar fjárhæðir að ræða þá verða þær til þess að örva framtak og þeir fjármunir skila sér.

Herra forseti. Ég ætla ekki orðlengja þetta meira. Ég held að ég hafi komið fram svörum og útskýringum við þeim spurningum sem til mín var beint.