Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 12:17:50 (2438)

1996-12-19 12:17:50# 121. lþ. 50.7 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[12:17]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir sem talaði áðan á sæti í heilbr.- og trn. þingsins og hefur setið þar um margra ára skeið. Hún hefur sérmenntun á sviði heilbrigðisfræða og sérþekkingu og reynslu á rekstri stórra spítala. Þetta er nauðsynlegt að taka fram vegna þess að það ber að hlusta á þingmann sem hefur jafnmargháttaða reynslu af slíku máli eins og sú sem talaði áðan.

Frá því er skemmst að segja, herra forseti, að ég get tekið undir nánast hvert einasta orð í þeirri hörðu gagnrýni sem hv. þm. setti fram á þær hugmyndir sem er að finna í bandorminum um heilbrigðisþáttinn sérstaklega. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. sagði í niðurlagsorðum sínum að verið er --- alveg án tillits til þess hver situr í stóli heilbrrh. hverju sinni --- að framselja mikið vald til ráðherrans, of mikið tel ég, allt of mikið telur stjórnarandstaðan sem hefur skilað sérstöku áliti þar sem þetta viðhorf kemur einmitt fram. Ég held líka að menn hljóti að staldra við og gefa því gaum sem hv. þm. sagði eða þeim varnaðarorðum sem hún lét sér um munn fara varðandi afstöðu sína til að leggja af stjórnir heilsugæslunnar í Reykjavík og skipa í staðinn eina stóra. Þetta er mjög merkilegt.

Mér finnst líka að menn þurfi að velta því fyrir sér hvort það geti verið rétt sem hv. þm. eiginlega lét að liggja að verið væri með 19. gr. að fara fjallabaksleið til að sameina stóru sjúkrahúsin og ég vek sérstaka athygli á því að hún nefndi það svo að þetta mundi ekki skapa hagræðingu og gæti alls ekki bætt gæðin.

Nú er það svo að hv. þm. lagðist í rauninni gegn 19. gr. þar sem hæstv. heilbrrh. fær nánast blankótékka til að sameina sjúkrahús. Hins vegar kemur sá rökstuðningur fram í grg. með frv. að það sé nauðsynlegt til að geta náð fram 160 millj. kr. sparnaði á dreifbýlissjúkrahúsunum. Nú hefur komið í ljós að því á að breyta og það muni ekki nást á næsta ári. Þess vegna spyr ég hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur hvort hún telji ekki að þá sé eðlilegt miðað við það sem hún sagði og miðað við þær breytingar á afstöðunni til sparnaðarins á dreifbýlissjúkrahúsunum að frestað yrði að afgreiða 19. gr. eða hún yrði hreinlega tekin út.